Um Vatnaskóg

Vatnaskógur eru sumarbúðir KFUM og KFUK í Svínadal í Hvalfjarðarsveit, rétt um 65 km. frá Reykjavík. Vatnaskógur hefur starfrækt sumarbúðir síðan 1923.

Á sumrin tökum við á móti um 1100 börnum, mest drengjum en pláss er fyrir 100 börn í hverjum flokki. Í desember erum við einnig með sérstakan aðventuflokk fyrir drengi. Að auki erum við með fermingarnámskeið á haustin, skólabúðir og ýmsa helgarviðburði fyrir fjölskyldur á öllum árstímum. Þá höldum við fjölskylduhátíðina Sæludaga um verslunarmannahelgina ár hvert. Yfir 9000 manns heimsækja Vatnaskóg árlega.

Í Vatnaskógi er frábært að vera. Þar er íþróttahús og gott útileiksvæði með leiktækjum, frjálsíþróttavelli og knattspyrnuvöllum. Umhverfið býður upp á fjölbreytta útiveru, svo sem fjalla- og gönguferðir og ævintýri í skóginum. Í íþróttahúsinu er góður salur ásamt fótboltaspilum, þythokkí-, borðtennis- og poolborðum. Fyrir rólegri afþreyingu er einnig að finna bækur og spil sem og heita potta á svæðinu. Ekki má gleyma Eyrarvatninu góða, þar sem hægt er að fá lánaða árabáta, hjólabáta og kanóa, nú eða taka smá sundsprett ef vel viðrar. Það er því nóg um afþreyingu og öll börn ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Hver dagur í Vatnaskógi hefur ákveðið skipulag sem hefur einkennt starfið frá upphafi. Þar er veitt fræðsla um kristna trú, sungnir söngvar auk þess sem alltaf er farið í útivist og leiki. Ekki má gleyma vinsælu íþróttakeppnunum. Á hverju kvöldi eru svo kvöldvökur þar sem foringjar bregða á leik við snarkandi arineld og hlátrasköll barnanna heyrast um svæðið.

Öllum þeim sem koma að rekstri sumarbúðanna er annt um það að börnin sem til okkar komi njóti dvalarinnar. Réttur og velferð hvers barns sem dvelur í Vatnaskógi stendur framar öllu öðru og leggjum við mikinn metnað í að tryggja barninu þínu jákvæða og góða upplifun. KFUM og KFUK leggur mikið upp úr því að starfsmenn félagsins séu bæði hæfir og vel undirbúnir fyrir starf sitt. Öllu starfsfólki er tryggður fjölbreyttur undirbúningur með námskeiðum þar sem lögð er áhersla á fræðslu um þroska barna og unglinga, skyndihjálp og brunavarnir. Starfsmenn KFUM og KFUK eru skyldaðir til að sækja námskeið í barnavernd. Starfað er eftir siðareglum Æskulýðsvettvangsins. Við höfum einnig í áraraðir gert þær kröfur til starfsmanna okkar að þeir skili inn sakavottorði.

Nýr matskáli

Skógarmenn KFUM hafa starfrækt sumarbúðir fyrir börn og ungmenni í Vatnskógi síðan 1923. Á staðnum eru 7 hús, þar á meðal „Matskáli“, eldhús og matsalur, sem tekinn var í notkun árið 1968. Það hús var byggt fyrir sumardvalarstarfsemi og hentar ekki heilsársnotkun eins og fer fram á staðnum í dag. Húsið uppfyllir ekki heldur nútíma kröfur til mötuneytis eða almenns aðgengis.

Í ársbyrjun 2019 var leitað til Guðmundur Gunnlaugssonar arkitekts hjá Archus til þess að skoða þessi mál og meta hvort betra væri að endurbyggja og breyta núverandi húsnæði eða byggja nýtt. Niðurstaðan var sú að ástand núverandi Matskála er með þeim hætti að heppilegra væri að reisa nýtt hús á nýjum stað og var Guðmundur fenginn til að teikna það. Teikningar lágu fyrir í lok árs 2019.

Undirbúningsframkvæmdir

Þann 17. ágúst 2022 tók Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra fyrstu skóflustunguna að nýjum Matskála í Vatnaskógi og biskup Íslands, frú Agnes Sigurðardóttir blessaði framkvæmdina.
Þá hófu sjálfboðaliðar vinnu við að fella tré sem voru í húsastæðinu og um haustið var grafið fyrir grunni hússins og hann fylltur með burðarhæfu efni. JG Vinnuvélar sáum um þann verkþátt. En lengra mátti ekki halda með framkvæmdir að sinni, ekki fyrr en byggingarleyfi lægi fyrir.

Fjármögnun frekari framkvæmda

Húsinu var lokað fyrir jólin 2024. Innréttinga-, lagna- og klæðningavinna er næst á dagskrá, svo nóg er eftir. Ljóst er að byggingarkostnaður hefur hækkað umtalsvert frá því kostnaðaráætlun hússins var fyrst gerð. Endurskoðuð kostnaðaráætlun frá í október 2024 stendur í 252 m.kr. Skógarmenn hafa efnt til fjáraflana vegna verkefnisins og ber þar hæst söfnum meðal velunnara í tilefni af 100 ára afmæli starfsins. Skilaði sú söfnun 18 m.kr. til nýbyggingarinnar. Kaffisölur, Herrakvöld og aðrar fjáraflanir hafa á fjórum árum skilað um 10 m.kr. Eins hefur íslenska ríkið styrkt verkefnið með mjög myndarlegum hætti, ásamt Þjóðkirkjunni og öðrum velunnurum. Þá er rík hefð fyrir vinnu sjálfboðaliða í Vatnaskógi og hefur hópur þeirra komið að verkinu undir leiðsögn fagmanna. Sú vinna sparar byggingarkostnað og verður seint metin til fjár.

Vilt þú styðja við byggingu nýs matskála í Vatnaskógi?
Rknr: 0117-26-12050
Kt. 521182-0169

Gullmerki

Gullmerki Skógarmanna KFUM er veitt einstaklingum sem reynst hafa starfinu í Vatnaskógi framúrskarandi vel. Það er hugsað sem táknrænn þakklætisvottur fyrir óeigingjörn störf, hlý kveðja frá öllum þeim sem notið hafa góðs af þeim kærleiksverkum sem þessir einstaklingar hafa lagt af mörkum til starfsins.
Margir aðrir velunnarar Vatnaskógar sem gengnir eru, konur og karlar, hefðu einnig átt skilið að fá gullmerki Skógarmanna. Blessuð sé minning þeirra.
Alls hafa 22 einstaklingar hlotið gullmerki Skógarmanna.

Stínusjóður

Skógarmenn KFUM í Vatnaskógi halda utan um Stínusjóð, kenndan við Kristínu Guðmundsdóttur.
Kristín Guðmundsdóttir var fædd 19. október 1914 og lést 31. mars 2005. Kristín starfaði sem ráðskona í Vatnaskógi í 40 sumur og lét af stöfum 1983. Þeir eru margir Skógarmennirnir sem hafa rifjað upp góðar minningarnar um Stínu sem sýndi þeim hlýju, kærleik og að ógleymdum ljúfengum Vatnaskógarkræsingum.
Stínusjóður gefur börnum og ungmennum möguleika á að dvelja í sumarbúðunum, sem annars hefðu ekki tækifæri til þess, t.d. af fjárhagsástæðum.
Tekjur sjóðsins eru sjálfsaflafé og gjafir velunnara, en einnig styrkja sumarbúðirnar sjóðinn.

Lífið í Vatnaskógi

Aðstaða og húsakostur

  • Gamli skáli er elsta hús staðarins (vígður 1943). Í skálanum er kvöldvökusalur fyrir rúmlega 100 manns með arni, hljóðfærum og helstu græjum.
  • Birkiskáli er nýjasta hús staðarins, tekið að fullu í notkun í maí 2018. Þar er gistirými fyrir 118 dvalargesti í tuttugu herbergjum. 5 starfsmannaherbergi eru í húsinu, samtals með 11 rúmum, hvert um sig útbúið sér salerni með sturtu. Í Birkiskála er góð salernis- og sturtuaðstaða. Þrjár setustofur eru í húsinu, ein fyrir um 20 manns og tvær fyrir um 10. Þá er góður samkomusalur í húsinu með sæti fyrir a.m.k. 120 einstaklinga, ásamt helstu græjum.
  • Lerksikáli er starfsmannahús með 5 herbergjum og setustofu.
  • Matskálinn er með matsal sem tekur yfir 100 manns í sæti og eldhús sem búið er fullkominni eldunar- og uppþvottaaðstöðu. Unnið er að nýjum Matskála þessa dagana, skáli sem rúma mun fleiri og færa aðstöðuna á næsta stig.
  • Íþróttahús er með 350 fm íþróttasal, íþróttadúk á gólfi og 6m lofthæð. Þá er í húsinu notaleg setustofa og leiksvæði með ýmsum leiktækjum. Góð sturtuaðstaða er í íþróttahúsinu. Við íþróttahúsið eru einnig heitir pottar.
  • Bátaskýli er við Eyrarvatn. Í því eru geymdir bátar sem vinsælt er að nýta til fiskveiða og annarrar skemmtunar á sumrin og haustin.
  • Kapellan er lítið og fallegt bænahús í rjóðri rétt hjá Gamla skála. Fallegur göngustígur liggur að kapellunni.
    220 hektara skógur (hæstu tré um 15 metrar) er innan girðingar í Vatnaskógi og liggja stígar um skóginn. Í nágrenni Vatnaskógar eru einnig skemmtilegir fossar og fjöll sem gaman er að skoða.
  • Eyrarvatn (um ferkílómetri að flatarmáli) svalar huga þeirra sem þyrstir í að sigla og veiða í íslenskri náttúrudýrð eins og hún gerist best. Vatnaskógur á nokkrar minni veiðistangir en mælst er til þess að veiðimenn taki stangir með sér. Eingöngu geta dvalargestir veitt á svæði Vatnaskógar að sumri til.Helst veiðist smábleikja í Eyrarvatni, en reglulega stærri urriðar og bleikjur, auk stöku sinnum lax og sjóbirtingur.
  • Íþróttasvæðið hefur að geyma 3. knattspyrnuvelli og frjálsíþróttavöll. Auk þess eru 3. aðrar flatir á svæði Vatnaskógar sem hægt er að nýta fyrir íþróttir, leiki og tjaldútilegur.

Aðrir viðburðir

Við bjóðum upp á fjölbreytta og skemmtilega viðburði yfir árið sem eru jafnframt mikilvæg fjáröflun fyrir okkar starf.

Aðventuflokkur

Jólaundirbúningur hafinn? Sérstakur aðventuflokkur hefur verið haldinn í Vatnaskógi undanfarin ár. Þar gefst 11-14 ára drengjum tækifæri að upplifa Vatnaskóg í vetrarríki yfir eina helgi (venjulega fyrsta eða önnur helgin í desember). Varðeldur, söngur, kakó, leikir og gleði. Skráning fer fram á sumarfjor.is

Fjölskylduflokkar (helgi)

Í fjölskylduflokkum í Vatnaskógi er mikil áhersla lögð á notalegt andrúmsloft. Þar gefst fjölskyldunni tækifæri til að eiga góðan tíma saman í fallegu og afslöppuðu umhverfi. Engar áhyggjur af matseld né uppvaski – starfsfólk Vatnaskógar dekrar við ykkur. Einu vandamál helgarinnar gætu orðið að velja hvort spila eigi borðtennis og þythokkí, áður en farið er í heita pottinn eða öfugt!

Dagskráin er í senn skemmtileg og uppbyggileg. Nokkrir hápunktar eru þó umræðustund foreldra meðan börnin leika sér í íþróttahúsinu með starfsfólki Vatnaskógar. Skógarmannakvöldvökurnar eru sígildar með kraftmiklum söng, mögnuðum skemmtiatriðum og andlegu veganesti. Bátar (þegar hægt er), íþróttahúsið, föndursmiðja og hæfileikasýning slá alltaf í gegn, hjá ungum sem öldnum.

Gert er ráð fyrir því að hver fjölskylda hafi sérherbergi og geti því notið tímans í Vatnaskógi á eigin forsendum í bland við skemmtilega dagskrá.
Útbúnaður: Rétt er að hafa búnað til útiveru s.s. stígvél eða gönguskó, regngalla, hlý útiföt, föt til skiptanna, húfu, stuttbuxur, sundföt (f. þau sem vilja fara í heita potta) og íþróttaskó til notkunar í íþróttahúsi og annað sem þið teljið nauðsynlegt. Einnig þarf að vera með sæng eða svefnpoka, kodda, lak og sængurver.

Feðgaflokkar (helgi)

Í feðgaflokkum í Vatnaskógi er mikil áhersla lögð á notalegt andrúmsloft. Þar gefst feðgum tækifæri til að eiga góðan tíma saman í fallegu og afslöppuðu umhverfi. Engar áhyggjur af matseld né uppvaski – starfsfólk Vatnaskógar dekrar við ykkur. Einu vandamál helgarinnar gætu orðið að velja hvort spila eigi knattspyrnu og pool, áður en farið er í heita pottinn eða öfugt!

Dagskráin er í senn skemmtileg og uppbyggileg. Nokkrir hápunktar eru þó umræðustund feðga meðan drengirnir leika sér í íþróttahúsinu með starfsfólki Vatnaskógar. Skógarmannakvöldvökurnar eru sígildar með kraftmiklum söng, mögnuðum skemmtiatriðum og andlegu veganesti. Bátar (þegar hægt er), íþróttahúsið, hjólabílarallý, smíðaverkstæðið og hæfileikasýning slá alltaf í gegn, hjá ungum sem öldnum.

Útbúnaður: Rétt er að hafa búnað til útiveru s.s. stígvél eða gönguskó, regngalla, hlý útiföt, föt til skiptanna, húfu, stuttbuxur, sundföt (f. þau sem vilja fara í heita potta) og íþróttaskó til notkunar í íþróttahúsi og annað sem þið teljið nauðsynlegt. Einnig þarf að vera með sæng eða svefnpoka, kodda, lak og sængurver.

Feðginaflokkur (helgi)

Í feðginaflokk í Vatnaskógi er mikil áhersla lögð á notalegt andrúmsloft. Þar gefst feðginum tækifæri til að eiga góðan tíma saman í fallegu og afslöppuðu umhverfi. Engar áhyggjur af matseld né uppvaski – starfsfólk Vatnaskógar dekrar við ykkur. Einu vandamál helgarinnar gætu orðið að velja hvort spila eigi körfubolta og fótboltaspil, áður en farið er í heita pottinn eða öfugt!

Dagskráin er í senn skemmtileg og uppbyggileg. Nokkrir hápunktar eru þó umræðustund feðra meðan stúlkurnar leika sér í íþróttahúsinu með starfsfólki Vatnaskógar. Skógarmannakvöldvökurnar eru sígildar með kraftmiklum söng, mögnuðum skemmtiatriðum og andlegu veganesti. Bátar (þegar hægt er), íþróttahúsið, föndursmiðja og hæfileikasýning slá alltaf í gegn, hjá ungum sem öldnum.

Útbúnaður: Rétt er að hafa búnað til útiveru s.s. stígvél eða gönguskó, regngalla, hlý útiföt, föt til skiptanna, húfu, stuttbuxur, sundföt (f. þau sem vilja fara í heita potta) og íþróttaskó til notkunar í íþróttahúsi og annað sem þið teljið nauðsynlegt. Einnig þarf að vera með sæng eða svefnpoka, kodda, lak og sængurver.

Mæðraflokkur (helgi)

Í mæðraflokk í Vatnaskógi er mikil áhersla lögð á notalegt andrúmsloft. Þar gefst mæðrum og börnum tækifæri til að eiga góðan tíma saman í fallegu og afslöppuðu umhverfi. Engar áhyggjur af matseld né uppvaski – starfsfólk Vatnaskógar dekrar við ykkur. Einu vandamál helgarinnar gætu orðið að velja hvort spila eigi brennó og borðtennis, áður en farið er í heita pottinn eða öfugt!

Dagskráin er í senn skemmtileg og uppbyggileg. Nokkrir hápunktar eru þó umræðustund foreldra meðan börnin leika sér í íþróttahúsinu með starfsfólki Vatnaskógar. Skógarmannakvöldvökurnar eru sígildar með kraftmiklum söng, mögnuðum skemmtiatriðum og andlegu veganesti. Bátar (þegar hægt er), íþróttahúsið, smíðaverkstæðið, hjólabílarallý og hæfileikasýning slá alltaf í gegn, hjá ungum sem öldnum.

Útbúnaður: Rétt er að hafa búnað til útiveru s.s. stígvél eða gönguskó, regngalla, hlý útiföt, föt til skiptanna, húfu, stuttbuxur, sundföt (f. þau sem vilja fara í heita potta) og íþróttaskó til notkunar í íþróttahúsi og annað sem þið teljið nauðsynlegt. Einnig þarf að vera með sæng eða svefnpoka, kodda, lak og sængurver.

Karlaflokkur (helgi)

Árviss viðburður hjá Skógarmönnum er Karlaflokkur í Vatnaskógi, haldinn í byrjun september. Flokkurinn er ætlaður karlmönnum á aldrinum 17-99 ára. Tilgangur helgarinnar er að styrkja líkama, sál og anda. Líkaminn er styrktur með þátttöku í íþróttum, gönguferðum og vinnu fyrir Vatnaskóg. Andinn og sálin eru styrkt með erindum, biblíufræðslu, bænastundum, kvöldvöku og guðsþjónustu. Góður matur og gott samfélag.

Kaffisala Skógarmanna

Sumardaginn fyrsta hafa Skógarmenn jafnan haldið kaffisölu til styrktar starfinu í Vatnaskógi. Girnilegt hlaðborð sem svignar undan þunga brauðtertna og annarra glæsilegra veitinga. Kaffisalan er haldin í höfuðstöðvum KFUM og KFUK á Íslandi, Holtavegi 28, í Reykjavík. Ef vel viðrar er aldrei að vita nema hoppukastalar verði settir upp fyrir börnin.

Herrakvöld

Herrakvöld Skógarmanna er haldið í nóvember ár hvert, til styrktar uppbyggingarstarfsemi í Vatnaskógi. Glæsilegur þriggja rétta seðill, skemmtiatriði, happdrætti, söngur, hugvekja og gott samfélag. Kvöldið er fyrir 18 ára og eldri.

Fermingarnámskeið

Á haustin og vorin býður Vatnaskógur upp á fermingarnámskeið fyrir kirkjur. Á námskeiðunum er vönduð fræðsla fyrir þátttakendur sem að öðru jöfnu er kennd af starfsfólki Vatnaskógar og presti viðkomandi kirkju, ásamt fjölbreyttri dagskrá, hópefli, kvöldvökum og frjálsum tíma. Hátt í 2000 unglingar koma á hverju ári í Vatnaskóg og njóta fræðslunnar og staðarins á fermingarárinu sínu. Vatnaskógur hefur starfrækt fermingarnámskeið frá árinu 1993 og átt í farsælu samstarfi við þær kirkjur sem hingað koma með fermingarbörn.

 

Leikskólaheimsóknir

Frá árinu 1995 hefur Vatnaskógur boðið leikskólum í heimsókn í maímánuði. Yfir 900 leikskólabörn heimsækja Vatnaskóg árlega og njóta þar dýrindis matar, hoppukastala, ævintýraferðar um skóginn og mótorbátsferða, svo fátt eitt sé nefnt.

Skráðu þig á Póstlistann

Fáðu skemmtilegar fréttir úr leik og starfi KFUM & KFUK

KFUM og KFUK er kristileg æskulýðshreyfing sem hefur það að markmiði að stuðla að heilbrigði einstaklingsins til líkama sálar og anda. 



Holtavegi 28

104 Reykjavík

Ísland

Kt: 690169-0889

© 1989 – 2024 KFUM & KFUK. Allur réttur áskilinn

Leita á vefnum