Sumarbúðir

Munur á dvalarflokkum

Hefðbundnir flokkar (4-5 dagar)

Hefðbundnum flokkum er skipt á eftirfarandi aldursbil:
9-11 ára
10-12 ára
11- 13 ára

Þátttakendur koma sér fyrir á númeruðu borði í Matskálanum við komuna í Vatnaskóg, sem verður eiginleg bækistöð þeirra yfir flokkinn. Gætt er þess að vinir sitji saman. Við hvert borð er borðforingi sem annast þátttakendur og hefur gott eftirlit með þeim. Auk borðforingja eru aðrir foringjar og svo forstöðumaður sem leiðir flokkinn og heldur utan um samskipti við forsjáraðila ef þess þarf.

Dagskrá í flokkum í Vatnaskógi inniheldur m.a. knattspyrnumót, frjálsar íþróttir, báta og smíðar, gönguferðir, leiktæki líkt og hjólabíla, stangartennis, borðtennis og þythokkí. Kvöldvökur og morgunstundir, með leikritum, söng, hugleiðingu og fleira. Endalaus skemmtun í fallegri náttúru.

Ævintýraflokkar (6 dagar)

Vatnaskógur býður upp á þrjá ævintýraflokka yfir sumarið, fyrir 12-14 ára drengi.
Ef drengur hefur komið áður í dvalarflokk er tilvalið að skrá hann í ævintýraflokk þar sem dagskráin er bæði hefðbundin líkt og í öðrum flokkum, en með fleiri ævintýralegum uppákomum sem oft teygja sig lengra inn í kvöldið. Þó er alls ekki nauðsynlegt að hafa áður komið í Vatnaskóg til að skella sér í ævintýraflokk!

Unglingaflokkur (6 dagar)

Í mörg ár hefur Vatnaskógur boðið upp á sérstakan flokk fyrir alla unglinga á aldrinum 14-17 ára. Ólíkt öðrum flokkum sitja unglingarnir þar sem þau vilja yfir vikuna og eru dugleg að flakka á milli og kynnast nýju fólki. Ef börnum í ævintýraflokkum finnst farið seint að sofa, bíðið bara, nóttin er ung í Unglingaflokk, en engar áhyggjur, starfsfólk okkar tryggir öllum góðan nætursvefn, enda þarf að hafa orku fyrir alla þá fjölbreyttu dagskrá sem boðið er upp á.

Gauraflokkur

Skógarmenn KFUM í samstarfi við ADHD samtökin bjóða uppá sumarbúðir fyrir 10-12 ára drengi með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir. Markmiðið er að bjóða þennan hóp drengja velkominn í sumarbúðir í Vatnaskógi þar sem þörfum þeirra verður mætt á skilningsríkan og uppbyggilegan hátt.

Vatnaskógur er frábær staður fyrir kraftmikla og vaska drengi. Þar eru bátar, íþróttahús, fótboltavellir, frjálsíþróttasvæði, frábærar gönguleiðir, ævintýralegur skógur, bókasafn o.fl. Dagskráin í Vatnaskógi er fjölbreytt og samanstendur af frjálsum dagskrártilboðum, kvöldvökum, kristinni fræðslu, söng og mikilli útiveru. Dagskipulag Vatnaskógar er afar heppilegt fyrir drengi með ADHD vegna þess að ramminn er skýr, þeir hafa sitt sæti við sitt borð með sinn foringja. Hvert borð fær sitt herbergi. Matartímar eru mjög reglulegir. Fjölmörg tilboð um viðfangsefni sem mæta ólíkum áhugasviðum. Mun fleiri starfsmenn starfa í Gauraflokk en í hefðbundnum flokkum og því auðveldara að mæta hverjum og einum á hans forsendum.

Brottför – heimkoma
Farið er frá húsi KFUM og KFUK, Holtavegi 28, kl. 10:00 og heimkoma á sama stað um kl. 14:00 (annar heimkomutími en í hefðbundnum flokkum). Gauraflokkur er í 5 daga.

Skráðu þig á Póstlistann

Fáðu skemmtilegar fréttir úr leik og starfi KFUM & KFUK

KFUM og KFUK er kristileg æskulýðshreyfing sem hefur það að markmiði að stuðla að heilbrigði einstaklingsins til líkama sálar og anda. 



Holtavegi 28

104 Reykjavík

Ísland

Kt: 690169-0889

© 1989 – 2024 KFUM & KFUK. Allur réttur áskilinn

Leita á vefnum