Sumarbúðir

Á Hólavatni eru sumarbúðir fyrir stelpur og stráka á aldrinum 9 til 16 ára. Dvöl á Hólavatni er mikið ævintýri með skipulagðri dagskrá í fjölbreyttu umhverfi, þar sem vatnið og skógurinn leik stórt hlutverk. Hver dagur hefst með morgunverði, fánahyllingu og morgunstund. Síðan er margt í boði.

Sumarbúðalífið

Bátsferðir eru alltaf vinsælar og þegar vel viðrar er gaman að fara á bát, en til eru bæði árabátar og hjólabátar. Að sjálfsögðu er alltaf vakt við vatnið, allir í björgunarvestum og foringjar fara gjarnan með í bátsferðir og kenna réttu handtökin.

Þá er skemmtilegt á sólríkum dögum að busla í vatninu og leika sér í fjörunni.

Fyrir veiðiáhugamenn er gaman að taka með veiðistöng og láta reyna á að veiða fisk í Hólavatni.

Á Hólavatni eru þrír skemmtilegir hjólabílar sem hægt er að aka á planinu í kringum húsið.

Á Hólavatni er mikið lagt upp úr fjölbreyttum útileikjum og gjarnan er keppt í óhefðbundnum greinum og þrautum eins og rólustökki, stígvélasparki, brúsahaldi og riddaraþraut. Þá eru ævintýraleikir, flóttamannaleikurinn og skotbolti í lautinni eitthvað sem flestir Hólvetningar kannast vel við.

Það er skemmtilegt að spila fótbolta í góðra vina hópi en það fer svolítið eftir áhuga innan hvers hóps hve mikið er farið á völlinn en foringjaleikurinn er alltaf ómissandi en þá skorar starfsfólkið á krakkana og oft er mikið fjör og kapp í að sigra foringjana sem sjálfir segjast vera ósigrandi.

Á Hólavatni eru tvö fótboltaspil, borðtennisborð, taflborð, fjölbreytt úrval af spilum og bókum. Þá er vinsælt að perla, föndra, lita og mála.

Á staðnum er fótboltavöllur, körfuboltavöllur, stangartennis, folfvöllur, trampólín og fleiri útileiktæki. Umhverfis staðinn er skemmtilegur skógur og gönguleiðir.

Á hverjum degi er borðað með reglulegu millibili. Morgunmatur, hádegismatur, síðdegishressing, kvöldmatur og kvöldhressing eru í boði á hverjum degi.

Öll kvöld enda með kvöldvöku þar sem brugðið er á leik og sungnir hressir sumarbúðasöngvar. Auk þess er kafli úr Guðs orði hugleiddur kvölds og morgna.

Við vekjum athygli á því að dagskrá hvers flokks er ólík. Mismunandi forstöðufólk stýrir flokkunum og veðrið hefur mikið að segja. En allir flokkar eru unnir af metnaði og gleði, með það markmið að öllum líði vel.

group of children pulling brown rope

Fermingarnámskeið

Sumarbúðirnar á Hólavatni bjóða upp á fermingarnámskeið í ágúst og september í samstarfi við kirkjur. Á námskeiðunum er boðið upp á vandaða dagskrá fyrir þátttakendur sem er í höndum starfsfólks Hólavatns og presti viðkomandi kirkju. Lögð er áhersla á samveru og lærdóm í gegnum leik og spilar umhverfi Hólavatns og aðstaða stórt hlutverk. Um eitt hundrað fermingarbörn koma á hverju ári á Hólavatn og njóta fræðslunnar og staðarins á fermingarárinu sínu.

Skráðu þig á Póstlistann

Fáðu skemmtilegar fréttir úr leik og starfi KFUM & KFUK

KFUM og KFUK er kristileg æskulýðshreyfing sem hefur það að markmiði að stuðla að heilbrigði einstaklingsins til líkama sálar og anda. 



Holtavegi 28

104 Reykjavík

Ísland

Kt: 690169-0889

© 1989 – 2024 KFUM & KFUK. Allur réttur áskilinn

Leita á vefnum