Vatnaskógur eru sumarbúðir KFUM og KFUK í Svínadal í Hvalfjarðarsveit, rétt um 65 km. frá Reykjavík. Vatnaskógur hefur starfrækt sumarbúðir síðan 1923.
Á sumrin tökum við á móti um 1100 börnum, mest drengjum en pláss er fyrir 100 börn í hverjum flokki. Í desember erum við einnig með sérstakan aðventuflokk fyrir drengi. Að auki erum við með fermingarnámskeið á haustin, skólabúðir og ýmsa helgarviðburði fyrir fjölskyldur á öllum árstímum. Þá höldum við fjölskylduhátíðina Sæludaga um verslunarmannahelgina ár hvert. Yfir 9000 manns heimsækja Vatnaskóg árlega.
Í Vatnaskógi er frábært að vera. Þar er íþróttahús og gott útileiksvæði með leiktækjum, frjálsíþróttavelli og knattspyrnuvöllum. Umhverfið býður upp á fjölbreytta útiveru, svo sem fjalla- og gönguferðir og ævintýri í skóginum. Í íþróttahúsinu er góður salur ásamt fótboltaspilum, þythokkí-, borðtennis- og poolborðum. Fyrir rólegri afþreyingu er einnig að finna bækur og spil sem og heita potta á svæðinu. Ekki má gleyma Eyrarvatninu góða, þar sem hægt er að fá lánaða árabáta, hjólabáta og kanóa, nú eða taka smá sundsprett ef vel viðrar. Það er því nóg um afþreyingu og öll börn ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Hver dagur í Vatnaskógi hefur ákveðið skipulag sem hefur einkennt starfið frá upphafi. Þar er veitt fræðsla um kristna trú, sungnir söngvar auk þess sem alltaf er farið í útivist og leiki. Ekki má gleyma vinsælu íþróttakeppnunum. Á hverju kvöldi eru svo kvöldvökur þar sem foringjar bregða á leik við snarkandi arineld og hlátrasköll barnanna heyrast um svæðið.
Öllum þeim sem koma að rekstri sumarbúðanna er annt um það að börnin sem til okkar komi njóti dvalarinnar. Réttur og velferð hvers barns sem dvelur í Vatnaskógi stendur framar öllu öðru og leggjum við mikinn metnað í að tryggja barninu þínu jákvæða og góða upplifun. KFUM og KFUK leggur mikið upp úr því að starfsmenn félagsins séu bæði hæfir og vel undirbúnir fyrir starf sitt. Öllu starfsfólki er tryggður fjölbreyttur undirbúningur með námskeiðum þar sem lögð er áhersla á fræðslu um þroska barna og unglinga, skyndihjálp og brunavarnir. Starfsmenn KFUM og KFUK eru skyldaðir til að sækja námskeið í barnavernd. Starfað er eftir siðareglum Æskulýðsvettvangsins. Við höfum einnig í áraraðir gert þær kröfur til starfsmanna okkar að þeir skili inn sakavottorði.
Nýr matskáli
Skógarmenn KFUM hafa starfrækt sumarbúðir fyrir börn og ungmenni í Vatnskógi síðan 1923. Á staðnum eru 7 hús, þar á meðal „Matskáli“, eldhús og matsalur, sem tekinn var í notkun árið 1968. Það hús var byggt fyrir sumardvalarstarfsemi og hentar ekki heilsársnotkun eins og fer fram á staðnum í dag. Húsið uppfyllir ekki heldur nútíma kröfur til mötuneytis eða almenns aðgengis.
Í ársbyrjun 2019 var leitað til Guðmundur Gunnlaugssonar arkitekts hjá Archus til þess að skoða þessi mál og meta hvort betra væri að endurbyggja og breyta núverandi húsnæði eða byggja nýtt. Niðurstaðan var sú að ástand núverandi Matskála er með þeim hætti að heppilegra væri að reisa nýtt hús á nýjum stað og var Guðmundur fenginn til að teikna það. Teikningar lágu fyrir í lok árs 2019.
Undirbúningsframkvæmdir
Þann 17. ágúst 2022 tók Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra fyrstu skóflustunguna að nýjum Matskála í Vatnaskógi og biskup Íslands, frú Agnes Sigurðardóttir blessaði framkvæmdina.
Þá hófu sjálfboðaliðar vinnu við að fella tré sem voru í húsastæðinu og um haustið var grafið fyrir grunni hússins og hann fylltur með burðarhæfu efni. JG Vinnuvélar sáum um þann verkþátt. En lengra mátti ekki halda með framkvæmdir að sinni, ekki fyrr en byggingarleyfi lægi fyrir.
Fjármögnun frekari framkvæmda
Húsinu var lokað fyrir jólin 2024. Innréttinga-, lagna- og klæðningavinna er næst á dagskrá, svo nóg er eftir. Ljóst er að byggingarkostnaður hefur hækkað umtalsvert frá því kostnaðaráætlun hússins var fyrst gerð. Endurskoðuð kostnaðaráætlun frá í október 2024 stendur í 252 m.kr. Skógarmenn hafa efnt til fjáraflana vegna verkefnisins og ber þar hæst söfnum meðal velunnara í tilefni af 100 ára afmæli starfsins. Skilaði sú söfnun 18 m.kr. til nýbyggingarinnar. Kaffisölur, Herrakvöld og aðrar fjáraflanir hafa á fjórum árum skilað um 10 m.kr. Eins hefur íslenska ríkið styrkt verkefnið með mjög myndarlegum hætti, ásamt Þjóðkirkjunni og öðrum velunnurum. Þá er rík hefð fyrir vinnu sjálfboðaliða í Vatnaskógi og hefur hópur þeirra komið að verkinu undir leiðsögn fagmanna. Sú vinna sparar byggingarkostnað og verður seint metin til fjár.
Vilt þú styðja við byggingu nýs matskála í Vatnaskógi?
Rknr: 0117-26-12050
Kt. 521182-0169
Gullmerki
Gullmerki Skógarmanna KFUM er veitt einstaklingum sem reynst hafa starfinu í Vatnaskógi framúrskarandi vel. Það er hugsað sem táknrænn þakklætisvottur fyrir óeigingjörn störf, hlý kveðja frá öllum þeim sem notið hafa góðs af þeim kærleiksverkum sem þessir einstaklingar hafa lagt af mörkum til starfsins.
Margir aðrir velunnarar Vatnaskógar sem gengnir eru, konur og karlar, hefðu einnig átt skilið að fá gullmerki Skógarmanna. Blessuð sé minning þeirra.
Alls hafa 22 einstaklingar hlotið gullmerki Skógarmanna.
Stínusjóður
Skógarmenn KFUM í Vatnaskógi halda utan um Stínusjóð, kenndan við Kristínu Guðmundsdóttur.
Kristín Guðmundsdóttir var fædd 19. október 1914 og lést 31. mars 2005. Kristín starfaði sem ráðskona í Vatnaskógi í 40 sumur og lét af stöfum 1983. Þeir eru margir Skógarmennirnir sem hafa rifjað upp góðar minningarnar um Stínu sem sýndi þeim hlýju, kærleik og að ógleymdum ljúfengum Vatnaskógarkræsingum.
Stínusjóður gefur börnum og ungmennum möguleika á að dvelja í sumarbúðunum, sem annars hefðu ekki tækifæri til þess, t.d. af fjárhagsástæðum.
Tekjur sjóðsins eru sjálfsaflafé og gjafir velunnara, en einnig styrkja sumarbúðirnar sjóðinn.