umhyggja, kærleikur & virðing í faglegu starfi

Jól í skókassa

„Jól í skókassa“ verkefnið snýst um að gleðja börn í Úkraínu sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika. Á því svæði sem jólagjöfunum er dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókassarnir fara meðal annars á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra.

Fyrir jólin 2004 ákvað hópur ungs fólks innan KFUM & KFUK að láta reyna á verkefnið hér á landi. Undirtektirnar voru frábærar og söfnuðust rúmlega 500 kassar það árið. Verkefnið hefur svo stækkað undanfarin ár og erum við nú að senda hátt í 5000 kassa til Úkraínu ár hvert. Þetta væri okkur ekki mögulegt nema með hjálp ykkar allra sem takið þátt í verkefninu með okkur á einn eða annan hátt.

Sumarbúðirnar okkar

Vatnaskógur

Hólavatn

Vindáshlíð

Ölver

Kaldársel

Umhyggja, kærleikur og virðing

KFUM og KFUK er kristileg æskulýðshreyfing sem hefur það að markmiði að stuðla að heilbrigði einstaklingsins til líkama sálar og anda. KFUM  og KFUK stendur fyrir faglegu barna- og æskulýðsstarfi en félagið starfrækir fimm sumarbúðir og um 30 æskulýðsdeildir víðs vegar um landið, auk þess að standa fyrir leiðtogaþjálfun og fjölbreyttum viðburðum allt árið um kring.

KFUM og KFUK stendur fyrir fjölbreyttu og uppbyggilegu æskulýðsstarfi um allt land sem miðar að því að styðja við börn og ungmenni í lífinu, efla sjálfstraust þeirra, tengsl við aðra og trúarlega sjálfsmynd. Í starfinu er lögð áhersla á vináttu, virðingu, gleði og trú. Fundir fara fram reglulega í hverri viku þar sem þátttakendur hittast, taka þátt í fjölbreyttri dagskrá og mynda sterk tengsl við hópinn sinn og leiðtoga.

Starfið skiptist í mismunandi deildir eftir aldri. Boðið er upp á vikuleg fundarstörf, helgarferðir, mót og stærri viðburði á vegum hreyfingarinnar. Leiðtogar eru vel menntaðir úr leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK og fá stuðning og þjálfun til að geta skapað öruggt og nærandi umhverfi þar sem allir fá að njóta sín. KFUM og KFUK vill veita ungum einstaklingum vettvang til vaxtar og samveru þar sem hver og einn skiptir máli.

KFUM og KFUK hefur það hlutverk að efla ungt fólk til líkama, sálar og anda. Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK tekur mið af því að á hverju ári þarf félagið hóp af ungu fólki til að starfa á vettvangi þess, sem starfsmenn í sumarbúðum, leiðtogar í æskulýðsstarfi, verkefnastjórar í viðburðum eða til að taka sæti í stjórnum og nefndum. Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK skapar góðan grunn til frekari starfa á vettvangi félagsins.

AD KFUM og KFUK
Jól í skókassa
Karlakór KFUM
Kvennakórinn Ljósbrot

Vinagarður leikskóli KFUM og KFUK er sjálfstætt starfandi kristilegur leikskóli, staðsettur í Laugardalnum í Reykjavík. Leikskólinn var stofnaður 17. nóvember 1975 og starfaði í Langagerði 1 í rúm 26 ár. Hann flutti á Holtaveg 28 í Reykjavík 2. apríl 2002 og hlaut þá nafnið Vinagarður.

Leikskólinn Vinagarður byggir starf sitt á kristilegum grunni þar sem lögð er áhersla á að efla kristið siðgæði og veita trúarlegt uppeldi sem byggir á gildum skólans um trú, von og kærleika. Skólastarfið er skipulagt í samræmi við aðalnámskrá leikskóla, þeim lögum og reglugerðum sem eiga við um börn og leikskólastigið, menntastefnu Reykjavíkurborgar og Barnasáttmála SÞ.Í starfi leikskólans er lögð áhersla á að börnin læri um náttúruna og að bera virðingu og umhyggju fyrir henni jafnt og öllu því sem Guð hefur skapað. Vináttan í víðum skilningi þess orðs er rauður þráður í starfi leikskólans og eitt af sérkennum hans.

Skólinn er fyrir börn frá 18 mánaða aldri og skiptist í 4 deildir eftir aldri barnanna.

Flýtileiðir & algengar spurningar

Lög KFUM og KFUK

Hér eru vísanir í lög KFUM og KFUK á Íslandi og einstakra starfsstöðva félagsins.

Gæða og siðamál

Mikilvægt er fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð.Siðareglur þessar gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða KFUM og KFUK.

Tilkynna ósækilega hegðun

Lærðu meira um áreitnitilvik og hvernig á að tilkynna þau.

Þegar kemur að afbókunum og endurgreiðslum fylgjum við alltaf skilmálum okkar sem sjá má hér: https://kfum.is/sumarstarf/skilmalar-vegna-netskraningar/

Þar segir í 6. gr.

Komi til afbókunar skráningar getur greiðandi fengið allt að 85% gjaldsins endurgreitt, þó aldrei undir 4.000 kr. að því tilskildu að afbókun eigi sér stað a.m.k. 7 dögum fyrir viðburð. Sé afbókað með minni en 7 daga fyrirvara er dvalargjald ekki endurgreitt. Fullt gjald er aldrei endurgreitt nema félagið felli viðburð niður. Ákvæði þetta skerðir þó ekki rétt til þess að falla frá netkaupum innan 14 daga í samræmi við og með takmörkunum ákvæða laga nr. 16/2016 um Neytendakaup, enda hafi viðburður ekki hafist. Komi til endurgreiðslu fer hún sömu leið og greiðsla barst, þ.e. endurgreitt er inn á sama greiðslukort og greitt var með. Ef greitt var með gjafabréfi, er endurgreitt með nýju gjafabréfi.

Í skilmálunum (grein 11 til 15) er einnig að finna ákvæði sem snúa að því ef barn hættir við þátttöku eða yfirgefur viðburð.

Til þess að hætta við þátttöku þarf að senda tölvupóst á [email protected] með upplýsingum um nafn barns, í hvaða sumarbúðir það er skráð og í hvaða flokk. Ef greitt var með greiðslukorti þurfa síðustu fjórir tölustafirnir í kortanúmerinu að fylgja.

Hvaða greiðsluleiðir er boðið upp á?

Hægt er að greiða með debetkorti, kreditkorti og netgíró.

Ekki er boðið upp á kortalán.

Kynnið ykkur skilmálana

Við hvetjum foreldra og forsjáraðila að kynna sér skilmála okkar. Þeir svara mörgum spurningum. https://kfum.is/sumarstarf/skilmalar-vegna-netskraningar/

Skráning á biðlista fer einnig fram á netinu og opnar klukkutíma eftir að skráning í flokkinn opnar, að því gefnu að flokkurinn sé orðinn fullur.

Ferlið er eins og við hefðbundna skráningu nema við skráningu á biðlista er beðið um upplýsingar um greiðanda en greiðsluferli fer ekki í gang.

Um leið og pláss losnar þá hringjum við út af biðlistanum. Í framhaldi sendum tölvupóst með greiðslulink til þess að hægt sé að ganga frá greiðslu. Þegar greiðsla fer í gegn færist barnið sjálfkrafa af biðlista og yfir í flokkinn. Boðið er upp á sömu greiðsluleiðir og þegar skráð er á netinu.

Hringt er út af biðlistanum í skráningarröð.

Barnið mitt er á biðlista hversu miklar líkur eru á að það komist inn? Hvenær er hringt út á biðlistann?

Það er alltaf erfitt að svara því hve miklar líkur eru á því að barn komist inn af biðlista. Það þarf einhver sem þegar er skráður í flokkinn að hætta við að fara til þess að pláss losni. Það getur gerst strax fyrstu dagana eftir að flokkurinn fyllist, en líka daginn fyrir brottför.

Það borgar sig alltaf að skrá á biðlista, það kostar ekkert og því fylgir ekki nein skuldbinding.

Athugið að hægt er að skrá barn á fleiri en einn biðlista.

Get ég skráð fleiri en eitt barn í einu?

Já, það er hægt að skrá allt að fimm börn í einu í sama dvalarflokk/námskeið. En sá sem skráir þarf að ganga frá allri greiðslunni, þ.e. henni er ekki skipt.

ATH! Ef að þú ert að skrá barn/börn sem eru ekki þín eigin þá þarftu að hafa eftirfarandi upplýsingar við höndina:

· Nafn og kennitölu barnsins.

· Nafn, kennitölu, símanúmer og netfang forsjáraðila barnsins.

· Einnig þarf að skrifa í athugasemdir ef barnið er með ofnæmi eða óþol.

Þarf að skrá í herbergi og fá vinir/vinkonur að vera saman?

Við skráum ekki fyrirfram í herbergi og óþarfi að tilkynna á skrifstofu hverjir vilja vera saman. Þegar hópurinn er kominn í sumarbúðirnar eru börnin sjálf spurð með hverjum þau vilja vera með, áður en raðað er í herbergi. Ef að vinahópurinn er mjög fjölmennur er mögulegt að skipta þurfi hópnum í tvennt við herbergjaskipan.

Greiðslan fór ekki í gegn hjá mér við skráningu, getur verið að skráningin hafi samt átt sér stað?

Nei, skráning fer aldrei í gegn ef greiðsla fer ekki fram.

Sumarbúðir KFUM og KFUK eru mjög vinsælar. Því er oft hamagangur í öskjunni þegar opnað er fyrir skráningar. Hér að neðan eru svör við algengum spurningum sem starfsfólk KFUM og KFUK fær í aðdranda fyrsta skráningardags.

Hvaða upplýsingar eru nauðsynlegar við skráningu?

Við skráningu þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram.

· Nafn og kennitala barns.

· Nafn, kennitala, símanúmer og netfang forsjáraðila.

· Ef barn er með matar- ofnæmi/óþol þarf að skrifa það í athugasemdir.

· Merkja við hvort að barn komi með rútu.

Þá er mikilvægt að hafa kortaupplýsingarnar tilbúnar þegar kemur að greiðslunni.

Hvað hef ég langan tíma til að skrá barnið?

Skráningarferlið er í fimm þrepum. Þegar þú hefur fengið pláss í þrepi tvö, ertu búin að festa það í 8 mínútur á meðan þú lýkur skráningu og greiðslu.

Hvernig veit ég hvort að flokkur sé fullur?

Hvað þýða litirnir?

Í fyrsta þrepi skráningarferlisins sérð þú stóra litaða punkta hægra megin við viðburðina sem eru í boði.

· Grænn – Merkir að skráning er opin og laus pláss.

· Hvítur – Merkir að flokkurinn er fullur en í boði er að skrá á biðlista.

· Blár – Merkir flokkurinn fullur og fullt á biðlista.

· Rauður – Merkir að búið er að loka fyrir skráningu (eða að ekki sé búið að opna fyrir skráningu).

Af hverju breyttist punkturinn úr bláum í grænan?

Það eru oft margir að reyna að ná plássi í einu, sérstaklega á fyrsta skráningardegi.

Dæmi eru um að báðir foreldrar reyni að ná plássi fyrir barnið og báðir ná inn, þá eru strax tvö pláss frátekin, en þar sem að aðeins annað plássið er nýtt, losnar hitt plássið aftur eftir 8 mínútur. Því getur staðan breyst.

Ef að öll pláss eru upptekin er um að gera að endurræsa síðuna og reyna aftur.

  1. Starfsfólk eða sjálfboðaliðar, sem ráðnir eru til að starfa með börnum og ungmennum, skulu hæfir til þess. Ávallt skal leita eftir samþykki þeirra sem hyggjast hefja störf um leyfi fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá.
  2. Stjórnarfólki, starfsfólki og sjálfboðaliðum ber að rækja störf sín af kostgæfni, samviskusemi, trúmennsku og heiðarleika auk þess að gæta hlutlægni og réttsýni.
  3. Öllu starfi skal sinna með hagsmuni félagsins að leiðarljósi og standa skal vörð um markmið og heiður þess. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sýna félaginu, samstarfsfólki, samstarfsaðilum og þátttakendum virðingu, sanngirni og trúnað í samskiptum sínum.
  4. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu koma fram af virðingu gagnvart öllum þeim sem starfað er með eða fyrir, auk þess sem engum skal mismunað á grundvelli þjóðernis, uppruna, kynþáttar, litarháttar, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkennum, kyntjáningu, aldurs, trúarbragða, fötlunar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.
  5. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu leitast við að skapa jákvæða menningu í starfi. Gæta skal hófs og sanngirni í ummælum um hvert annað eða um aðra svo sem með því að taka ekki þátt í slúðri eða dreifa rógi. Kynferðisleg áreitni, einelti eða annað ofbeldi er ekki liðið.
  6. Aldrei skal stefna heilsu eða öryggi starfsfólks og sjálfboðaliða í hættu. Ávallt skal sýna fyllstu aðgát og varkárni í starfi og koma í veg fyrir að starfsfólki og sjálfboðaliðum séu falin verkefni eða þau lendi í aðstæðum sem þau ráða ekki við.
  7. Allt starf skal unnið á opinn, upplýstan, gagnsæjan og lýðræðislegan hátt. Ávallt skal veita faglegar og réttar upplýsingar.
  8. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu aldrei misnota aðstöðu sína gagnvart samstarfsaðilum eða þátttakendum með neinum hætti sér til framdráttar eða eigin hags. Komi upp sú staða að hætta er á hagsmunaárekstrum skulu aðilar greina frá öllum hugsanlegum persónulegum hagsmunum sem geta haft áhrif á störf þeirra. Framkvæmdastjóri og stjórn metur hvort um hagsmunaárekstur er að ræða.
  9. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu gæta þess að sitja ekki beggja vegna borðs í málum er varða hagsmuni félagsins. Forðast skal að skapa þær aðstæður sem geta dregið óhlutdrægni þeirra í starfi í efa. Það á meðal annars við þegar félagið tilnefnir einstaklinga til að taka þátt í eftirsóttum verkefnum eða þegar samið er við starfsfólk, verktaka eða aðra þjónustuaðila.
  10. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu forðast að taka að sér verkefni eða störf sem samræmast ekki eða ganga gegn skyldum eða störfum þeirra og eru til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í starfi í efa. Ef vafamál kemur upp skal leita samþykkis framkvæmdastjóra eða stjórnar.
  11. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu aldrei taka við né þiggja gjafir ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist.
  12. Við ráðningar skal gæta þess að misnota ekki aðstöðu til að ráða skyld- eða venslafólk til starfa. Komi upp slík staða skal viðkomandi starfsmaður víkja ráðningu til yfirmanns eða annars hæfs starfsmanns.
  13. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu gæta fyllsta trúnaðar og þagmælsku um allt það sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum og ber að fara með sem trúnaðarmál. Þagnarskylda á þó aldrei við þegar ákvæði IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 á við.
  14. Stjórnarfólki, starfsfólki og sjálfboðaliðum er ekki heimilt að nota trúnaðarupplýsingar sem þeir öðlast vegna starfa sinna sér til framdráttar eða í þágu eigin hagsmuna.
  15. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu ávallt fara vel með fjármuni og önnur verðmæti félagsins sem þeim er trúað fyrir eða þeir hafa til umráða vegna starfs síns. Við ráðstöfun þeirra skal hafa hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Aldrei er heimilt að skuldbinda félagið umfram samþykktir. Fjármuni og eigur skal aldrei nota nema í þágu félagsins eða verkefna sem samræmast stefnu þess.
  16. Upplýsingar um tekjur og ráðstöfun þeirra skal setja fram á einfaldan og skýran hátt og skulu upplýsingar vera aðgengilegar félagsfólki. Allar færslur á fjármunum skulu skráðar með viðeigandi hætti og vera tækar til endurskoðunar.
  17. Aldrei skal afla styrkja með ólögmætum hætti eða blekkingum
  18. Hver sá sem á í samskiptum við fjölmiðla skal sýna heiðarleika og gagnsæ vinnubrögð án þess að ljóstra upp trúnaðarupplýsingum. Lögð er áhersla á að veita réttar og eins nákvæmar upplýsingar og unnt er. Ekki skal fullyrða meira en vitneskja gefur tilefni til hverju sinni og viðurkenna þegar þekking er takmörkuð og afla frekari upplýsinga eða vísa fyrirspurnum annað.

  1. Starfsfólk og sjálfboðaliðar, sem ráðnir eru til að starfa með börnum og ungmennum, skulu hæfir til þess.
  2. Ávallt skal stuðla að velferð barna og ungmenna og hafa að leiðarljósi það sem er þeim fyrir bestu.
  3. Stuðla skal að heilbrigðu, uppbyggjandi, vönduðu og öruggu starfi með börnum og ungmennum.
  4. Starfsfólk og sjálfboðaliðar eru fyrirmyndir þátttakenda í starfi og ber að sýna góða hegðun og gott fordæmi jafnt í starfi sem og utan þess.
  5. Öll neysla tóbaks, nikótínvara, áfengis eða annarra ávana- og vímuefna er óheimil í starfi með börnum og ungmennum.
  6. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu leitast við að eiga góð samskipti við samstarfsfólk og forsjáraðila þátttakenda.
  7. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu gæta vandvirkni og samviskusemi auk þess að koma fram af umhyggju, heiðarleika og virðingu gagnvart öllum þeim sem starfað er með eða fyrir. Hafa skal í huga að orð og athafnir samrýmist starfi, umhverfi, stað og stund.
  8. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu ekki mismuna börnum og ungmennum á grundvelli þjóðernis, uppruna, kynþáttar, litarháttar, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkennum, kyntjáningu, aldurs, trúarbragða, fötlunar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.
  9. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu gæta fyllsta trúnaðar og þagmælsku um allt sem það fær vitneskju um í starfi sínu og ber að fara með sem trúnaðarmál. Þagnarskylda á þó aldrei við þegar starfsfólk eða sjálfboðaliðar verða þess áskynja að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða hvers konar ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Í slíkum tilfellum ber að fylgja ákvæðum IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002.
  10. Aldrei skal stefna heilsu eða öryggi þátttakenda í hættu. Ávallt skal sýna fyllstu aðgát og varkárni í starfi og koma í veg fyrir að börn og ungmenni lendi í aðstæðum sem þau ekki ráða við.
  11. Einelti og ofbeldi er aldrei liðið. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu koma í veg fyrir og uppræta hvers konar ofbeldi, svo sem andlegt, líkamlegt, stafrænt og/eða kynferðislegt.
  12. Hafa skal í huga að mörk einstaklinga eru mismunandi og berað virða þau. Varast skal hvers konar snertingar sem gætu leitt tilmisskilnings í samskiptum við börn, ungmenni og samstarfsfólk.
  13. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sinna þátttakendum af alúð í starfi en halda sig í faglegri fjarlægð utan viðburða og forðast náið samband. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu aldrei hafa frumkvæði að samskiptum við þátttakendur nema slíkt sé í tengslum við þátttöku barns og ungmennis í starfi.
  14. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sýna ábyrgð í rafrænum samskiptum og netnotkun. Ekki skal vera í rafrænum samskiptum við þátttakendur undir 18 ára aldri án vitneskju forsjáraðila þeirra og aðeins í tengslum við þátttöku þeirra í starfi félagsins. Öll samskipti skulu fara fram í gegnum viðurkenndar samskiptaleiðir.
  15. Starfsfólk, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar eða aðrir sem gegna valdastöðum þurfa að vera meðvitaðir um ábyrgð sína og þann aðstöðumun sem staða þeirra skapar þeim.
  16. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu ekki misnota stöðu sína á neinn hátt, svo sem líkamlega, andlega eða kynferðislega þegar kemur að samskiptum við þátttakendur eða samstarfsfólk.
  17. Hvers kyns kynferðislegt daður, orðbragð eða samneyti aðila í ábyrgðarstöðu gagnvart þátttakanda sem er yngri en 18 ára er með öllu óheimilt.
  18. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart.
  19. Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu forðast þá aðstöðu að vera ein með þátttakanda.
  20. Þegar teknar eru ljósmyndir af börnum og ungmennum sem þátttakendum í starfi skal virða friðhelgi þeirra og rétt til einkalífs. Aldrei skal taka eða birta óviðeigandi myndir af börnum og ungmennum. Myndir af þátttakendum í starfi, sem teknar eru af starfsfólki og sjálfboðaliðum, skal aldrei nota til einkanota.

Skráðu þig á Póstlistann

Fáðu skemmtilegar fréttir úr leik og starfi KFUM & KFUK

KFUM og KFUK er kristileg æskulýðshreyfing sem hefur það að markmiði að stuðla að heilbrigði einstaklingsins til líkama sálar og anda. 



Holtavegi 28

104 Reykjavík

Ísland

Kt: 690169-0889

© 1989 – 2024 KFUM & KFUK. Allur réttur áskilinn

Leita á vefnum