KFUM og KFUK starfrækir Æskulýðsvettvanginn (ÆV) í samstarfi við Bandalag íslenskra skáta, Ungmennafélag Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg.
Tilgangur og markmið ÆV er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna á sviði leiðtogaþjálfunar, fræðslu- og forvarnarmála, útbreiðslu og kynningar og á öðrum sviðum eftir því þurfa þykir. Starf ÆV felst í að auka gæði og öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi með hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi. Það gerir ÆV með fræðslustarfi og námskeiðum, með því að miðla þekkingu og reynslu og með því að leggja til verkfæri og verkferla. Gildi ÆV eru vellíðan, velferð og öryggi.