Aðventuflokkur 2025

Þá er fimmta aðventuflokki Vatnaskógar, sem og síðasta flokki ársins, formlega lokið.

Um 60 drengir dvöldu hjá okkur þessa helgina. Við fengum fallegt veður og sólin skein í nokkrar stundir á Kambinum, hinu megin við frosið Eyrarvatnið. Tunglið teygði sig upp og speglaðist á ísilögðu vatninu, sem var falleg sjón, fyrir þá sem höfðu tíma til að sjá það.

Um helgina brölluðum við margt. Piparkökugerðarmiðstöðin var að verki í matskálanum og framleiddu drengirnir yfir 200 piparkökur og skreyttu af sinni alkunnu Picasso snilld. Við kíktum aðeins út á skautasvellið á vatninu, kepptum í ýmsum greinum á borð við knattspyrnu, borðtennis, dodgeball og fótboltaspil, svo fátt eitt sé nefnt. Drengirnir fóru í ,,Amazing Christmas Race” ratleik um Skóginn og efstu lið söfnuðu yfir 800 stigum. Við sungum Skógarmannalög í bland við jólalög, sáum misgáfuleg leikrit og fífluðumst í Gamla skála á kvöldvökum.

Við fræddum drengina um gildi þessa helgina. 18 gildi voru tekin fyrir og eftir morgunstund á laugardeginum settu drengirnir saman kross, þar sem þeir völdu 6 gildi af listanum, sem þeir vildu leggja sérstaka áherslu á í sínu lífi. Við plöstuðum svo krossinn sem þeir fengu með sér heim. Hægt er að nota krossinn sem bókamerki eða koma fyrir í herberginu sínu. Vonin er sú að drengirnir passi vel upp á krossinn og gildin sín. Verkefnið var byggt á nýju efni frá Þjóðkirkjunni þar sem fólki gefst kostur á að raða sínum gildum. Endilega kíkið á þetta: Kross

Á laugardagskvöld héldum við eftir skemmtilega veislukvöldvöku út í skóg að grilla sykurpúða og enduðum svo á skemmtilegri jólamynd í Gamla skála og gæddum okkur á hágæða veitingum. Talandi um mat!

Matseðill helgarinnar var:
Vatnaskógar pizzur. Kex og ávextir. Morgunkorn. Steiktur fiskur m. kartöflum, salati, sósu og laukfeiti. Kaffiveitingar m. kryddbrauði, jógúrtköku, piparkökum og heitu súkkulaði. Kjúklingabringur m. sætkartöflumús, kartöflubátum, salati og rjómaostasósu. Loks var bröns með morgunkorni, nýbökuðu brauði, eggjaböku og beikoni.  

Starfsfólk helgarinnar var:
Foringjar: Ástráður (Addi), 3. borð, Bjartur Dalbú, 2. borð og Þráinn, 4. borð.
Aðstoðarforingjar: Arnór Emil, 3. borð og Bjarki Þór, 1. borð.
Eldhús: Valborg Rut (ráðskona) og Ísak Jón.
Forstöðumenn: Hreinn, 1. borð og Gunnar Hrafn, 5. borð.

Skemmtilegri helgi lokið og vonandi þreyttir en sáttir drengir sem hafa skilað sér í faðm ykkar, með töskuna fulla af sögum um ævintýrin í Vatnaskógi.

Hér koma myndir frá helginni: Aðventuflokkur 2025

Við þökkum traustið sem okkur er sýnt.
Gleðileg jól og sjáumst á næsta ári!

Fyrir hönd starfsfólks Vatnaskógar,
Gunnar Hrafn Sveinsson og Hreinn Pálsson.

Skráðu þig á Póstlistann

Fáðu skemmtilegar fréttir úr leik og starfi KFUM & KFUK

KFUM og KFUK er kristileg æskulýðshreyfing sem hefur það að markmiði að stuðla að heilbrigði einstaklingsins til líkama sálar og anda. 



Holtavegi 28

104 Reykjavík

Ísland

Kt: 690169-0889

KFUM og KFUK á gott samstarf og nýtur stuðnings eftirtaldra aðila:
© 1989 – 2024 KFUM & KFUK. Allur réttur áskilinn

Leita á vefnum