9:00 Vakning
9:30 Morgunmatur
10:00 Fánahylling
10:15 Biblíulestur
10:40 Frjáls tími (brennó, íþróttir, föndur, vinaarmbönd…)
12:30 Hádegismatur
Vindáshlíð eru sumarbúðir fyrir stelpur á aldrinum 8 til 16 ára í Kjós, um 45 km fjarlægð frá Reykjavík.
Dvöl í Vindáshlíð er ævintýri líkust. Á hverjum degi er skipulögð dagskrá með fjölbreyttri útiveru í stórbrotnu umhverfi Vindáshlíðar. Stelpurnar fara til dæmis í ævintýraleiki, gönguferðir og vatnsstríð ef veður leyfir. Á hverjum degi eru æsispennandi brennókeppnir og hinu vinsælu íþróttakeppnir. Daglega er fræðsla um kristna trú og Biblíuna, kenndar bænir og sungnir söngvar.
9:00 Vakning
9:30 Morgunmatur
10:00 Fánahylling
10:15 Biblíulestur
10:40 Frjáls tími (brennó, íþróttir, föndur, vinaarmbönd…)
12:30 Hádegismatur
14:00 Útivera
15:30 Kaffi
16:00 Frjáls tími (brennó, íþróttir, föndur, vinaarmbönd….
18:30 Kvöldmatur
19:45 Kvöldvaka
20:45 Kvöldkaffi
21:00 Hugleiðing
21:30 Háttatími
22:00 Bænó
22:30 Ró og svefn
Fyrsti dagurinn er aðeins öðruvísi en þá mæta stelpurnar upp í Vindáshlíð um tvöleytið. Þær fara allar inn í matsal og hitta foringjana og starfsfólkið sem fylgir þeim allan flokkinn. Forstöðukonan fer yfir helstu reglur og svo er þeim raðað í herbergi. Við pössum að allar vinkonur fái að vera herbergisfélagar saman, í annað hvort átta eða sex manna herbergi. Stelpurnar fá vanalega að vita strax hver bænakonan þeirra sé og hún sýnir þeim allt svæðið og hjálpar þeim að búa um sig. Í eldri hópum breytum við stundum til og höfum bænakonuleit um kvöldið. Þá vinnur herbergið saman við það að finna sína bænukonu.
Hvert og eitt herbergi fær sinn foringja yfir flokkinn. Hún passar sérstaklega vel upp á sinn hóp, er með þeim á kvöldin, svæfir þær og er til taks ef eitthvað kemur upp á. Allir foringjar flokksins eru til taks á öllum stundum, en stelpunum finnst oft best að leita til síns foringja sem þær þekkja best.
Vanalega er vakning kl. 9:00 í Vindáshlíð. Morgunmatur hefst hálftíma eftir vakningu og stelpurnar fara þaðan beint upp á fána og syngja hann upp. Forstöðukona sér svo um biblíulestur þar sem stelpurnar læra um biblíuna, Jesú og Guð. Á morgunstundinni syngjum við líka mikið saman – skemmtilegustu Hlíðarsöngvana okkar. Í frjálsa tímanum fá stelpurnar að leika um allt svæðið eins og þær vilja. Brennóforinginn heldur utan um allar brennókeppnirnar og raðar herbergjum niður á leiki. Íþróttaforinginn hefur vanalega tvær til fjórar íþróttakeppnir á dag sem stelpurnar keppa í sín á milli. Svo fá þær aukastig ef allt herbergið tekur þátt og eiga þannig möguleika á að vinna íþróttaherbergið! Íþróttakeppnirnar eru alls konar, eins og t.d. húshlaup, rúsínuspýtingar, stígvélakast, broskeppni og stigahlaup. Eitthvað fyrir þær allar!
Í hádegismat eldar ráðskona og eldhússtúlka dýrindis mat sem nærir þær fyrir daginn. Í útiveru eru vanalega skemmtilegar göngur um svæðið, ratleikir eða í ævintýraflokkum eitthvað allt annað eins og hlaupa- og stöðvaleikir eða Amazing Race Vindáshlíðar. Stelpurnar koma svo beint inn í kaffi og fá nýbakaðar kökur og brauð. Alltaf vinsælt! Bakarinn okkar er á fullu allan daginn við að baka rúmlega hundrað kökusneiðar og brauð, sem klárast svo á örskotstundu. Uppskriftirnar okkar eru svo vinsælar að við létum loksins verða að því að búa til uppskriftabók Vindáshlíðar sem uppljóstrar öllum okkar bakstursleyndarmálum. Bókin er til sölu á Holtavegi 28 og geta allir bakað upp úr henni.
Eftir kaffi er aftur frjáls tími þar sem keppnirnar og gleðin heldur áfram fram að kvöldmat. Sumar stelpur hafa orð á því að þær séu alltaf borðandi í Vindáshlíð, en það er svo mikið um að vera að þeim veitir ekki af því. Kvöldvökurnar eru alltaf skemmtilegar og í venjulegum flokkum fá herbergin að sýna atriði fyrir framan allan hópinn. Þá reynir á hugmyndaflæðið, samvinnu, kjark og þor. Mikið hlegið og mikið sungið. Í ævintýraflokkum eru kvöldvökunar með aðeins breyttari sniði, en það kemur allt í ljós… Enda alltaf smá leyndó hvað við gerum í ævintýraflokkum.
Nú fer þreytan að koma á mannskapinn og fá stelpurnar ávexti og kex í kvöldkaffi áður en þær fara á hugleiðingu. Þar heyra þær fallega sögu með góðum boðskap, syngja róleg lög og biðja saman fyrir kvöldið. Forstöðukona endar stundina og lætur stelpurnar vita hvort þær megi bursta tennurnar úti í læk eða ekki, en það fer allt eftir veðri, sem er jú vanalega gott í Kjósinni. Þær bíða spenntar eftir því að fá að hlaupa út og bursta tennurnar á fallegu sumarkvöldi. Tannburstun hefur aldrei verið jafn skemmtileg.
Að lokum fara stelpurnar inn í herbergin sín og þá er komið að stund sem við köllum “bænó”. En þá kemur bænakonan til þeirra inn í hebrergi, spjallar við þær um daginn og veginn, bíður þeim góða nótt, kennir þeim bænir og svæfir þær.
Í Vindáshlíð bjóðum við upp á nokkra mismunandi flokka þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað fyrir sig!
Hefðbundnu flokkarnir okkar eru fyrir stelpur á aldrinum 9 til 12 ára. Fjölbreytt dagskrá með skemmtilegum útiverum og okkar vinsælu brennó- og íþróttakeppnum. Stelpurnar skiptast á að sjá um atriði á kvöldvökunum og þá er sungið hástöfum og mikið hlegið.
Ævintýraflokkarnir eru fyrir 10 til 14 ára stelpur þar sem óvæntar uppákomum og frávik frá hefðbundinni dagskrá geta mætt þeim hvenær sem er! Stanslaust stuð og skemmtileg dagskrá. Hæfileikakeppnir, þemadagar, bíókvöld og ævintýraleikir svo fátt eitt sé nefnt.
Hinn vinsæli unglingaflokkur er fyrir stelpur á aldrinum 13 til 16 ára. Þetta er fimm daga flokkur með mikilli dagskrá þar sem óvissan er algjör! Hér veit enginn hvað foringjarnir hafa planað yfir vikuna. Þvílíkt fjör og öðruvísi sumarbúðarævintýri fyrir elsta hópinn okkar.
Við bjóðum upp á tvo stubbaflokka í sumar sem eru sérstaklega hugsaðir fyrir yngri stelpurnar (8 til 9 ára) sem vilja fá smjörþefinn af sumarbúðadvölinni. Flokkurinn er aðeins þrír dagar og öll dagskrá er hugsuð til að kynna starfið fyrir þeim yngri.
Tveimur vikum fyrir brottför fá forsjáraðilar sendar upplýsingar frá skrifstofu KFUM og KFUK varðandi dvölina sem er í vændum. Sjá má bæklinginn hér sem útlistar helstu atriði fyrir dvölina.
Á hverjum degi syngjum við hátt og dátt okkar vinsælu og skemmtilegu Hlíðarsöngva. Á sumrin fá stelpurnar eintak af söngbókinni með sér heim þar sem foringjar hafa skrifað kveðju eftir flokkinn. Hér getið þið nálgast söngbókina okkar á rafrænu formi.
Í aðdraganda jólanna höldum við jólaflokka í Vindáshlíð. Yndislegar jólahelgar þar sem húsið er skreytt hátt og lágt, jólaföndur og stuð ríkir yfir staðnum. Skráning í þessa flokka opnar á haustmánuðum, en dagsetningar þeirra má finna á vefsíðunni sumarfjor.is.
Einn mæðgnaflokkur era á dagskrá í byrjun september. Þessar helgar eru einstaklega vinsælar hjá mæðgum sem fá að njóta þess að vera Hlíðarmeyjar saman í yndislegu umhverfi í Kjósinni. Hér skapast minningar sem seint munu gleymast.
Allar konur frá 18 ára aldri eru hjartanlega velkomnar í Kvennaflokkninn okkar sem verður haldinn í lok ágúst. Þar verður áhersla á andlega og líkamlega næringu og gott samfélag fyrir konur á öllum aldri.
Í dymbilvikunni höldum við okkar árlega páskaflokk fyrir 9-11 ára stelpur. Frábær upphitun fyrir sumarið. Rúturnar fara frá Holtavegi 28 kl 10:00 að morgni mánudagsins 14. apríl en mælst er með því að mæta ekki seinna en 9:40 svo hægt sé að halda plani. Heimkoma er áætluð kl 15:00 miðvikudaginn 16. apríl, en við biðjum þá sem koma að sækja stúlkurnar að vera mættir um 14:40.