- Hafi sterka sjálfsmynd sem kristinn einstaklingur
- Hafi grunnþekkingu á lykilþáttum kristinnar trúar
- Geti miðlað, flutt hugvekju, bæn og leitt helgistund.
KFUM og KFUK hefur það hlutverk að efla ungt fólk til líkama, sálar og anda. Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK tekur mið af því að á hverju ári þarf félagið hóp af ungu fólki til að starfa á vettvangi þess, sem starfsmenn í sumarbúðum, leiðtogar í æskulýðsstarfi, verkefnastjórar í viðburðum eða til að taka sæti í stjórnum og nefndum. Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK skapar góðan grunn til frekari starfa á vettvangi félagsins.
Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK byggir á fjórum þáttum sem leggja grunninn að hlutverki og markmiði félagsins og koma fram í nafni þess. Bókstafurinn K táknar að við erum kristilegt félag með það aðalmarkmið að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist. Þess vegna er einn af grunnþáttum fræðslustarfsins að fræða um líf og starf Jesú Krists, bænalíf og helgihald. Bókstafurinn F táknar að við leggjum áherslu á fræðslu um félagsstarf og almenna félagsmálafræðslu. Bókstafurinn U táknar að KFUM og KFUK býður upp á starf fyrir ungt fólk og leggur mikið upp úr því að leiðtogar í barna- og unglingastarfi séu búnir undir hlutverk sitt. Bókstafirnir M og K tákna að KFUM og KFUK er mannræktarhreyfing fyrir fólk á öllum aldri þar sem mannúðar- og samfélagsmál eru í brennidepli.
Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK fyrir 15-17 ára ungmenni. Aldurstakmark miðar við að viðkomandi sé að byrja í 10. bekk.
Þjálfunin samanstendur af fjórum helgarnámskeiðum á tveggja ára tímabili auk verklegrar þjálfunar milli leiðtogahelganna.
Fræðslan á leiðtogahelgunum byggir á grunnstoðum leiðtogaþjálfunar KFUM og KFUK , K=kristin fræðsla, F=félagsmálafræðsla, U=ungmennalýðræði og M/K=mannrækt.
Hjördís Rós Jónsdóttir er verkefnastjóri leiðtogaþjálfunar KFUM og KFUK fyrir 15-17 ára. Hún hefur fengið til liðs við sig frábæra einstaklinga sem styðja við þjálfunina með einum eða öðrum hætti. Á starfsárinu voru haldnar tvær leiðtogahelgar.
Hvert misseri hefst með helgarnámskeiði (í september og í janúar) sem haldin eru í einum af sumarbúðum KFUM og KFUK. Á helgarnámskeiðunum fer fram fræðsla úr öllum fjórum stoðum þjálfunarinnar. Fræðslan er stigskipt svo þeir leiðtogar sem hafa komið áður fá alltaf fræðslu við hæfi í samræmi við reynslu og fyrri námskeið. Auk þess eru helgarnámskeiðin mikilvægt hópefli þátttakenda og tækifæri til að kynnast betur hvert öðru, læra af hvert öðru og miðla reynslu á jafningjagrundvelli.
Lagt er upp úr að þátttakendur fái þjálfun á vettvangi starfsins, svo þau geti strax nýtt og náð tengingu við það sem þau læra. Verklega þjálfunin fer fram í vikulegu barna- og æskulýðsstarfi félagsins og/eða kirkjunnar, í viðburðum félagsins og sumarbúðum þess. Leiðtogar fá vinnubók til að leysa verkefni og ígrunda það sem þeir hafa lært. Þeir njóta einnig leiðsagnar forstöðumanns.
Að tveggja ára þjálfun lokinni viljum við að þátttakandinn hafi öðlast færni á eftirfarandi sviðum:
Þátttökugjald í leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK er 29.500 kr. á misseri. Innifalið í því gjaldi er helgarnámskeið ásamt ferðum, þátttaka í viðburðum, starfsgögn og lokasamvera. Aðstoðarleiðtogar í starfi KFUM og KFUK fá námskeiðsgjaldið niðurfellt.
Algengt er að sóknir kosti efnileg ungmenni til þátttöku í leiðtogaþjálfun á móti því sem þau leggja sitt af mörkum sem aðstoðarleiðtogar í barna- og ungingastarfi kirkjunnar.