Í Vindáshlíð er líf og fjör allan ársins hring. Á sumrin rekum við sumarbúðir KFUM og KFUK fyrir stelpur á aldrinum 8 til 16 ára, og á veturna tökum við á móti grunnskólahópum í skólabúðir. Auk þess leigjum við staðin út til ýmissa hópa.
Sumarbúðirnar hafa verið starfræktar í Vindáshlíð frá árinu 1947. Ár hvert koma um rúmlega 1000 stelpur, og komast oft færri að en vilja. Í sumarbúðunum er stanslaust stuð og nóg um að vera; brennókeppnir, hinu vinsælu íþróttakeppnir, ævintýraleikir og útivera. Daglega er fræðsla um kristna trú og Biblíuna, kenndar bænir og sungnir söngvar.
Árið 2023 hófum við samstarf með Jörgen Nilsson, eiganda Dalama camp ehf, í rekstri skólabúða. Jörgen hefur yfir 18 ára reynslu í skólabúðarekstri og hefur skipulagt viðburði fyrir yfir 35 þúsund þátttakendur. Við tökum á móti grunnskólahópum á mið- og unglingastigi þar sem nemendur eru efldir í lífsleikni, félagsfærni og samskiptum.
Við leggjum mikið upp úr því að starfsmenn félagsins séu bæði hæfir og vel undirbúnir fyrir starf sitt. Öllu starfsfólki er tryggður fjölbreyttur undirbúningur með námskeiðum þar sem lögð er áhersla á fræðslu um þroska barna og unglinga, skyndihjálp og brunavarnir. Starfsmenn KFUM og KFUK eru skyldaðir til að sækja námskeið í barnavernd. Starfað er eftir siðareglum Æskulýðsvettvangsins. Við höfum einnig í áraraðir gert þær kröfur til starfsmanna okkar að þeir skili inn sakavottorði.
Aðstaðan
Vindáshlíð liggur um 45 km frá Reykjavík, í stórbrotnu umhverfi Kjósarinnar.
Aðalskálinn var byggður árið 1951 og er á tveimur hæðum. Á neðri hæð er mjög vel búið eldhús, stór matsalur, setustofa, þrjú sex manna herbergi og salernisaðstaða. Á efri hæð eru sex tveggja manna herbergi ásamt salernisaðstöðu. Árið 2003 var byggð 540 fm viðbygging við aðalskála og er hún einnig á tveimur hæðum. Á neðri hæð er góður tómstundasalur auk tveggja svefnherbergja, þvottahús og fleira. Á efri hæð eru átta átta manna herbergi, annað tveggja manna herbergi og salernisaðstaða.
Íþróttahúsið okkar var tekið í notkun árið 1978. Þar er íþróttasalur með körfuboltakörfum og boltageymslu. Í anddyrinu er þythokkí-, borðtennis- og fótboltaborð.
Kirkjan á staðnum er gamla Hallgrímskirkjan sem var á Saurbæ við Hvalfjarðarströnd. Hún var reist árið 1878 en flutt í Vindáshlíð 1957 og hefur þjónað þar síðan sem helgistaður fyrir þátttakendur í sumarbúðunum í Vindáshlíð.
Á útisvæðinu er aparóla, apabrú, þriggja holu folfvöllur, lækur, fótboltavöllur, rólur, stangartennis, gokart kassabílar og skemmtilegar skógarleiðir. Það eru einnig mjög fallegar gönguleiðir hjá Vindáshlíð.