1. grein: Heiti og tengsl við KFUM og KFUK
Starfsgreinin heitir Sumarstarf Kaldæinga KFUM og KFUK, Kaldárseli, oftast nefnd Sumarstarfið í lögum þessum.
2. grein: Kaldæingar
Kaldæingar teljast þeir sem dvalist hafa í Kaldárseli á vegum KFUM og KFUK þrjá sólarhringa samfellt eða lengur.
3. grein: Markmið
a) Tilgangur Sumarstarfsins er að reka sumarbúðir í Kaldárseli og að leiða drengi og stúlkur til trúar á Jesú Krist og vinna að útbreislu ríkis hans meðal barna á grundvelli KFUM og KFUK.
b) Sumarstarfið safnar fé í sjóð til verklegra framkvæmda í Kaldárseli til hagsbóta fyrir starfið. Nefnist sjóðurinn Skálasjóður Kaldæinga.
4. grein: Leiðir að markmiðum
Kaldæingar vinna að markmiðum sínum með dvalarflokkum fyrir börn og unglinga, fræðslustarfi, fundarhöldum, útgáfustarfsemi, fjáröflun, vinnuflokkum og með öðrum
leiðum sem stjórnin ákveður hverju sinni. Burknar heitir blað Sumarstarfsins.
5. grein: Skipan stjórnar
Stjórn Sumarstarfsins skal skipuð fimm einstaklingum sem allir skulu vera félagar í KFUM og KFUK á Íslandi og eru þeir kjörnir til tveggja ára í senn þannig að tveir ganga út annað árið en þrír hitt árið. Við kosningu í stjórn skal reynt að gæta jafnræðis milli kynja. Stjórnin skiptir með sér verkum. Kjósa skal tvo varamenn til eins árs.
6. grein: Kjörnefnd
Stjórn Sumarstarfsins skipar tvo fulltrúa í kjörnefnd í janúar ár hvert og skulu kjörnefndarmenn hafa verið fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi í a.m.k. tvö ár samfellt til þess dags sem kosning fer fram og vera utan stjórnar Kaldæinga. Hlutverk kjörnefndar er að stilla upp kjörseðli með að minnsta kosti sex einstaklingum sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 5. gr. og skila til stjórnar Kaldæinga fyrir lok febrúar ár hvert.
7. grein: Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn fyrir marslok ár hvert og boðaður með minnst viku fyrirvara. Atkvæðisrétt á aðalfundi Kaldæinga hafa fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi.
Dagskrá aðalfundar verði:
a) Stjórnin gefur starfsskýrslu.
b) Stjórnin leggur fram endurskoðaða reikninga til afgreiðslu.
c) Stjórnin kynnir fjárhagsáætlun yfirstandandi árs.
d) Lagabreytingar.
e) Stjórnarkjör af kjörseðli skv. 5. grein.
f) Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga til eins árs.
g) Önnur mál.
8. grein: Hlutverk stjórnar
Stjórnin undirbýr starf Sumarstarfsins og sér um allar nauðsynlegar framkvæmdir í samræmi við markmið félagsins. Formaður hefur þar forgöngu og kveður stjórnina til fundar svo oft sem þurfa þykir.
Ritari heldur gjörðabók og færir í hana það sem gerist á fundum stjórnarinnar. Hann semur starfsskýrslu stjórnarinnar fyrir aðalfund.
Gjaldkeri annast reikningshald eða hefur eftirlit með þeim sem kann að taka það að sér á vegum stjórnarinnar. Hann hefur umsjón með Skálasjóði og öðrum sjóðum í vörslu Sumarstarfsins. Hann ávaxtar féð með tryggum hætti í samráði við stjórnina.
Ársreikningar og starfsskýrsla skulu send stjórn KFUM og KFUK á Íslandi fyrir apríllok ár hvert.
9. grein: Ráðstöfun eigna
Nú leggst Sumarstarfið niður og ráðstafar KFUM og KFUK á Íslandi þá eignum þess þar til Sumarstarfið er endurvakið.
Verði KFUM og KFUK félag í Hafnarfirði endurvakið skal tekið upp náið samstarf við það.
Kaldæingar KFUM og KFUK geta ekki gengið úr KFUM og KFUK á Íslandi með eignir Sumarstarfsins.
10. grein: Lagabreytingar
a) Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf samþykki tveggja þriðju hluta fundarmanna.
b) Tillögur um lagabreytingar þurfa að berast stjórn Sumarstarfsins skriflega eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund. Þær eru látnar liggja frammi í aðalstöðvum KFUM og KFUK viku fyrir fundinn. Lagabreytingar öðlast aðeins gildi að fengnu samþykki stjórnar KFUM og KFUK á Íslandi.
c) Eigi má breyta 3. grein a), 9. grein og 10. grein a) og c).
Samþykkt á aðalfundi Kaldæinga 27. mars 2019.