Upphafsbæn
Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
Minnisvers
Jesús sagði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Lúkas 10:27.
Aðalatriði
Okkur ber að elska alla náunga okkar eins og okkur sjálf. Náungi okkar eru allir þeir eða þær sem þarfnast hjálpar okkar og það skiptir engu, hver hann eða hún er eða hvernig.
Hugleiðing – Lúkas 10:25-37.
Sagan sem við heyrum í dag er ein af þekktari sögum Biblíunnar. Maður nokkur, sem var lögvitringur (eins konar lögfræðingur þess tíma) spurði Jesú mikilvægrar spurningar: „Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?“ Jesús spurði hann til baka hvað stæði um þetta í lögmálsbókum Móse, sem má finna fremst í Biblíunni og lögvitringurinn vissi það og sagði:
„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“
En Lögvitringurinn vildi þá vita hver væri náungi hans. Eflaust hefur hann hugsað sem svo að það gæti stundum verið erfitt að elska náungann eins og sjálfan sig. En þá sagði Jesús sögu til að útskýra hvernig sannur náungakærleikur birtist.
Maður nokkur var á ferð frá Jerúsalem á leið til borgarinnar Jeríkó þegar ræningjar réðust á hann, börðu hann og stálu öllu af honum og skyldu hann svo eftir liggjandi í sárum sínum. Stuttu síðar kemur þar að maður sem var prestur en hann hjálpar honum ekki og labbar bara framhjá. Annar maður á leið þar um, en hann var levíti, sem var einskonar aðstoðarmaður prests, og hann gengur líka framhjá án þess að hjálpa.
Hugsið ykkur hvernig aumingjans manninum hefur liðið að liggja þarna í brennandi hitanum, hjálparvana og stórslasaður. Sem betur fer kom loks maður sem hjálpaði særða ferðamanninum. Sá maður var Samverji en Samverjar voru útlendingar í landi Gyðinga og Gyðingar litu niður á þá. Eflaust hefur mörgum verið brugðið þegar Jesús sagði þeim söguna að prestur og levíti gerðu ekki það sem var rétt að gera en Samverjinn hann reyndist vera sannur náungi og hann tók særða manninn og batt um sár hans og hellti á þau græðandi vökva og lagði hann upp á asnann sinn og fór með hann á gistihús.
Guð vill að við reynum í dag að rétta hjálparhönd og sýna náunganum kærleika í verki.
Umræðupunktar fyrir yngri deildir
- Hvað kemur ykkur á óvart í þessari sögu Jesú?
- Hafið þið einhvern tímann getað hjálpað einhverjum í vanda?
- Það er gott að búa í samfélagi þar sem fólk tekur boðskap Jesú alvarlega og reynir eftir fremsta megni að elska náunga sinn og sýna hvert öðru virðingu og kærleika.
Umræðupunktar fyrir unglingadeildir
Eitt af því sem kemur mest á óvart í sögunni um Miskunnsama Samverjann er að Jesús velur að láta Samverja hjálpa manninum sem var í neyð en á sama tíma er það prestur og levíti sem báðir voru kirkjunnar þjónar sem gengu framhjá. Hann er með þessari ádeilu að benda lögvitringnum á að fyrir Guði eru allir jafnir og það hver þú ert, breytir engu, en það sem þú gerir, getur breytt miklu. Sambandið milli Gyðinga og Samverja var ekki gott og ósættið átti sér langa sögu. Gyðingar litu Samverja hornauga og því gat ekki lögvitringurinn sagt það upphátt að Samverjinn hefði breytt rétt heldur sagði hann: „Sá sem miskunnarverkið gjörði.“
- Getum við heimfært svona klofning eða deilur yfir á okkar samfélag í dag?
- Ber okkur að elska einungis trúbræður okkar og systur eða alla menn?
Aukaefni á efnisveitunni
Önnur samvera um miskunnsama samverjann
Önnur samvera um sama efni úr fræðsluefni KFUM og KFUK haustið 2009 er á http://kfum.is/efnisveita/?attachment_id=989
Glærukynning á „Ull fyrir kalda“
PowerPoint glærukynningu á hjálparstarfsverkefninu „Ull fyrir kalda“ má fá með að smella hér eða fá útprentað hefti á Holtavegi ásamt póstkorti með kynningu á verkefninu fyrir krakkana til að taka með heim.
Hugmynd af fundarefni
Það er tillaga æskulýðssviðs að fundarefni þessa fundar sé kynning á hjálparstarfsverkefninu „Ull fyrir kalda“ en það verkefni er sprottið úr hópavinnu unglinga á landsmóti Unglingadeilda KFUM og KFUK í Vatnaskógi 2013. Verkefnið var kosið sem besta hugmyndin af sérstakri dómnefnd og nú viljum við framkvæma!
Hugmyndin er að færa fátækum börnum í Síberíu hlýja sokka, vettlinga, húfur og jafnvel trefla úr íslenskri ull. Vinir okkar í KFUM og KFUK í Síberíu heyrðu af verkefninu og fóru að leita og fundu heimili sem heitir orphanage #6.
Nú er það verkefni okkar, krakkanna í KFUM og KFUK á Íslandi, að fara heim og segja frá verkefninu. Í hverri fjölskyldu má finna einhvern sem kann að prjóna og kannski getur þú keypt garn fyrir þinn vasapening og fengið ömmu eða mömmu eða jafnvel afa, frænku eða frænda til að prjóna.
Við viljum gefa hlýju. Ullarsokka (stærðir 24-42), vettlinga fyrir 10-17 ára, húfur fyrir 10-17 ára og trefla í öllum stærðum og gerðum.
Við skulum reynast náunga okkar vel og fara heim með kynningarbréf og athuga hvort við getum svo ekki skilað inn handprjónuðum gjöfum fyrir síðasta fund vormisseris og næsta sumar fara gjafirnar út til Síberíu og börnin á munaðarleysingjaheimilinu Orphanage #6 njóta góðs af og finna hlýjuna sem við sendum þeim. Hægt verður að skila prjónavörum í þjónustumiðstöð á Holtavegi til 1. júní.
Leikur
Það getur verið sniðugt að fara í leik sem tengist hugleiðingunni um Miskunnsama Samverjann. það eru 4-6 saman í liði. Einn leikur ólánsaman mann sem ráðist var á og með andlitslit er litað með rauðu framan í hann. Hann (einn fyrir hvert lið) fer og leggst á gólfið og síðan hefst kapphlaupið þar sem liðsfélagar þurfa að hlúa að hinum særða. Fyrst fara tveir og þvo sárin, svo fara tveir og líma nokkra plástra, svo einn sem gefur honum vatn að drekka, einn sem syngur fyrir hann vögguvísu, eða breiðir teppi eða eitthvað sem ykkur dettur í hug. Í lokin fara svo allir og sækja hinn slasaða og bera hann yfir herbergið (salinn). Hægt er að nota leikinn sem kveikju eða upphaf fyrir sögunna um Miskunnsama samverjann og hjálpa krökkunum að setja sig í spor þess sem liggur særður við veginn og ekki síður í spor Miskunnsama Samverjans.