KFUM og KFUK leitar að fólki til að taka þátt í verkefnum sumarsins. Um er að ræða störf í sumarbúðunum fimm, Hólavatni, Kaldárseli, Vatnaskógi, Vindáshlíð og Ölveri, eða á leikjanámskeiðum félagsins á Kópavogi og í Reykjanesbæ.

Þetta eru fjölbreytt og skemmtileg störf þar sem velferð barnanna er alltaf höfð að leiðarljósi.

Mismunandi störf eru í boði. Sumarbúðirnar þurfa forstöðufólk (25 ára og eldri), matráða í eldhús (25 ára og eldri), yfirforingja, foringja og eldhússtarfsfólk (18 ára og eldri). Til að gegna launuðu starfi hjá KFUM og KFUK, þarf viðkomandi að hafa náð 18 ára aldri.

Einstaklingar á aldrinum 15-17 ára geta sótt um stöðu aðstoðarforingja í sumarbúðunum, en það er sjálfboðastarf sem miðar að því að ala upp leiðtoga framtíðarinnar. Sækja má um eitt námskeið eða fleiri.

Kristilegt starf

Starf KFUM og KFUK er kristilegt hugsjóna-, mannræktar- og æskulýðsstarf. Starfið fer fram í anda Jesú Krists og þar er svokölluð gullna regla höfð að leiðarljósi:

„Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.” (Matt. 7:12)

Með því að starfa í sumarbúðum leggur viðkomandi starfsfólk hugsjónastarfi KFUM og KFUK lið með framlagi sínu. Því er mikilvægt að starfsfólk eigi samleið með þeirri hugsjón.

Um hugsjón KFUM og KFUK segir í 2. gr. laga félagsins:

„Hugsjón alls félagsstarfsins er að vekja trú á Krist og kalla til þjónustu í ríki hans, efla trúarlíf

og siðferðiskennd og hlynna að andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð einstaklingsins“.

Kröfur til starfsfólks

Því fylgir mikil ábyrgð að starfa í barna– og unglingastarfi. KFUM og KFUK leggur mikið upp úr því að starfsfólk félagsins sé bæði hæft og vel undirbúið fyrir starf sitt. Starfsfólki er skylt að sækja bæði námskeið í barnavernd og námskeið um siðareglur.

KFUM og KFUK starfar eftir siðareglum Æskulýðsvettvangsins, smelltu hér til að sjá siðareglurnar.

Þá er starfsfólki einnig skylt að sækja námskeið um skyndihjálp og brunavarnir.

Að auki býður KFUM og KFUK upp á fjölbreytt námskeið sem valdefla einstaklinga og skerpa á leiðtogafærni þeirra. Öll þessi fræðsla er starfsfólki KFUM og KFUK að kostnaðarlausu.

Laugardaginn 1. júni verður fjölþætt námskeið í Vatnaskógi þar sem farið verður yfir allt það helsta sem starfsfólk sumarbúða okkar þarf að kunna. Lögð er rík áhersla á að starfsfólk sumarsins taki þátt í þeim degi. Við hvetjum umsækjendur og verðandi starfsfólk til að taka daginn frá.

Skilyrði fyrir ráðningu er að umsækjandi samþykki að leitað verði upplýsinga um hann hjá Sakaskrá ríkisins. Ef viðkomandi er með brot skráð í sakaskrá ríkisins sem samræmist ekki æskulýðslögum (nr.70/2007) eða siðareglum félagsins getur viðkomandi ekki starfað hjá KFUM og KFUK.