Starfsreglur um meðferð kynferðisbrota hjá Æskulýðsvettvanginum
1. gr. Félagasamtök þau sem mynda saman Æskulýðsvettvanginn (ÆV), þ.e. Ungmennafélag Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi, Bandalag íslenskra skáta og Slysavarnafélagið Landsbjörg, líða ekki ofbeldi af neinu tagi innan síns starfsvettvangs. Í því samhengi starfar fagráð sem sérstaklega tekur á kynferðisbrotum sem upp kunna að koma innan þessara samtaka. Með hugtakinu kynferðisbrot í reglum þessum er átt við þá háttsemi sem lýst er refsiverðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Kynferðislegt ofbeldi er misnotkun á annarri manneskju þar sem gerandinn beitir eða hótar að beita ofbeldi eða þvingar þolanda á annan hátt kynferðislega. Þessi misnotkun getur verið allt frá káfi, þukli og klúru orðbragði upp í fullframið nauðgunarbrot í skilningi almennra hegningarlaga.
Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun sem skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu hvort sem áreitnin er líkamleg, orðbundin eða myndræn. Kynferðisleg áreitni felur í sér samskipti sem einkennast af misnotkun á valdi, styrkleika eða stöðu þar sem kynferði þolandans er í brennidepli. Það sem greinir slíka framkomu frá vinahótum og vinsamlegri stríðni er að hún er í óþökk þess sem fyrir henni verður, hún er ekki gagnkvæm, ekki á jafnræðisgrundvelli.
2. gr. Ef ætlað kynferðisbrot varðar barn, skal sá sem hefur vitneskju um málið, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu samkvæmt lögum. Fagráði er tilkynnt um slíkar tilkynningar og færir þær til bókar. Öllum öðrum málum er varða ætluð kynferðisbrot innan félagasamtakanna skal vísað til fagráðs. Óheimilt er að afgreiða í aðildarfélögunum mál er varðar ætlað kynferðisbrot.
3. gr. Fagráð er skipað fjórum einstaklingum, einum frá hverju aðildarfélaganna og fjórum til vara, er hafa þekkingu á kynferðisbrotum. Stjórn ÆV skipar fimmta einstaklinginn sem sé óháður aðildarfélögunum. Ráðið skal hafa aðgang að lögfræðilegri ráðgjöf. Ráðsmenn skipa einn úr sínum hópi til þess að vera formaður fagráðsins.
4. gr. Hlutverk fagráðs er eftirfarandi:
a) að fylgja eftir að mál sem varða kynferðisbrot og upp koma innan félaganna, fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt landslögum og starfsreglum þessum.
b) að heyra umkvartanir þolenda, leiðbeina þeim um málsmeðferð og sjá til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni.
c) að vera framkvæmdastjórum og stjórnum aðildarfélaga til ráðgjafar varðandi mál er tengjast kynferðisbrotum.
d) skrá niður öll mál sem upp koma.
e) að meta árangur starfsreglna og koma með tillögur til úrbóta ef með þarf.
f) að stuðla að forvörnum og fræðslu um kynferðisbrot innan ÆV.
5. gr. Telji einstaklingur að hann hafi orðið fyrir kynferðisbroti, sbr. 1. gr., skal hann fá aðstoð og fyrirgreiðslu hjá fagráði. Fagráð aðstoðar hann við að kæra til lögreglu og/eða leita til fagaðila um stuðning. Fagráð aðstoðar hann við að finna aðra nauðsynlega aðstoð. Farið er með málið að öðru leyti sem trúnaðarmál og nefndarmenn ræða það ekki við óviðkomandi aðila.
6. gr. Mæli lög ekki á annan veg er fagráðsmönnum og öðrum starfsmönnum Æskulýðsvettvangsins skylt að gæta þagmælsku um einstök mál sem kunna að verða rekin á grundvelli starfsreglna þessara. Um aðgang að upplýsingum um einstök mál skal farið að gildandi lögum á hverjum tíma.
7. gr. Kostnaður við starfrækslu fagráðs svo og annar kostnaður sem hlýst af starfsreglum þessum, skal greiddur af Æskulýðsvettvanginum. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir Æskulýðsvettvanginn skal huga að framlögum til fræðslustarfs og forvarna um þennan málaflokk.