Lokaskiladagur verkefnisins Jól í skókassa var í dag laugardaginn 9.nóvember. Eftir viðburðaríkan mótttökudag í félagshúsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík, gekk hópur sjálfboðaliða úr starfi KFUM og KFUK frá 4.656 skókössum í flutningagám sem fer til Úkraínu á næstu dögum. Aðstandendur verkefnisins eru þakklát þeim þúsundum einstaklinga sem tóku þátt í að gefa börnum og ungmennum sem búa við erfiðar aðstæður í Úkraínu jólapakka þessi jól.
Gjöfunum verður dreift í byrjun janúar á heimili fyrir munaðarlausa, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra í Úkraínu í Kirovohrad héraði (Kirovohrad Oblast). Gámurinn fer í skip frá Eimskipafélagi Íslands áleiðis til meginlands Evrópu síðar í vikunni.
Fræðast má um verkefnið Jól í skókassa á heimasíðunni www.skokassar.is, en þetta er í 16 sinn sem að félagsfólk í KFUM og KFUK stendur að verkefninu í samstarfi við KFUM í Úkraínu.