Nú styttist óðfluga í að verkefnið okkar fari á fullt swing 5. árið í röð. Bæklingurinn var að koma úr prentun og fer í dreifingu innan skamms. Þangað til er hægt að nálgast bæklinginn á pdf-formi með því að smella HÉR og er um að gera að fara að huga að gerð skókassans síns.

Mig langar samt að byrja á því að fjalla aðeins um hliðarverkefni skókassa-verkefnisins. Eins og allir vita biðjum við fólk að láta 300-500 kr. fylgja með í skókassanum sínum. Sá peningur er notaður í ýmis konar kostnað sem fylgir verkefninu en langstærstu kostnaðarliðirnir eru flutningar og prentun. Fyrsta árið sem skókassasöfnunin fór fram varð tap á rekstrinum en undanfarin þrjú ár höfum við verið svo heppin að eiga einhvern pening afgangs. Þar sem verkefnið er unnið að öllu leyti í sjálfboðavinnu og ekki er gert ráð fyrir neinum tekjuafgangi höfum við haft þá reglu að allan aukapening skuli nota til góðgerðarmála í Úkraínu. Meðal þess sem við höfum gert hingað til er að kaupa þvottavélar fyrir barnaspítala, nýjar dýnur í rúm á munaðarleysingjaheimili, inniskó og hljóðfæri fyrir munaðarlaus börn og ýmislegt fleira smálegt.

Á síðasta ári var áfram tekjuafgangur af verkefninu. Líkt og áður kynntum við okkur aðstæður í Úkraínu og ræddum við föður Evgeniy og fleira fólk þar til að komast að því hvernig best væri að nýta peningana. Eins og öll hin fyrri árin keyptum við ljósaperur og ýmiskonar hreinlætisvörur fyrir barnaspítalann í Novy en það kostar reyndar sáralítið.


Auk þess var ákveðið að styrkja fjögur mismunandi en jafnframt nauðsynleg verkefni. Fólkið á barnalandi (er.is) tók upp á því, upp á sitt einsdæmi, að safna pening fyrir verkefnið og var sá peningur nýttur í tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi var keyptur vatnshreinsibúnaður fyrir barnaspítalann í Novy en í ferð okkar til Úkraínu í janúar blöskraði okkur gjörsamlega drykkjarvatn barnanna á spítalanum. Vatnið var gulbrúnt á litinn, það var soðið til að drepa sýkla og síðan geymt í baðkari áður en það var drukkið. Með tilkomu vatnshreinsibúnaðar sem við keyptum fá börnin hins vegar hreint vatn beint úr krananum.

Í öðru lagi var keypt fyrir barnalandspeninginn ný eldavél handa munaðarleysingjaheimilinu í Pantayevskiy. Þar voru fyrir tvær eldgamlar eldavélar sem voru nánast ónýtar. Á annarri eldavélinni virkaði aðeins önnur hellan af tveimur en á hinni ein eða tvær hellur af fjórum. Þessar eldavélar voru notaðar til að elda ofan í a.m.k. þrjátíu munaðarlaus börn og starfsfólk munaðarleysingjaheimilisins alla daga, allan ársins hring. Því miður erum við ekki enn búin að fá mynd af nýju eldavélinni en ég vonast til að fá hana fljótlega. Hérna er hins vegar mynd af gömlu eldavélunum.

Uppfært 28. október: Jæja, ég er búinn að fá senda mynd af nýju eldavélinni. Hérna er hún í öllu sínu veldi.

Þetta var keypt fyrir barnalandspeninginn en fyrir tekjuafganginn af verkefninu keyptum við ný mataráhöld fyrir munaðarleysingjaheimilið/heimavistarskólann í Bobrynetc. Þegar við fengum að borða þar í janúar tókum við eftir því að öll áhöldin sem við borðuðum með voru úr áli en það er stórhættulegt fyrir heilsu fólks og er löngu búið að taka fyrir slíkt hér á landi.

Að lokum keyptum við nýtt gólfefni fyrir munaðarleysingjaheimilið Nadiya í Kirovohrad. Gólfið þar var afar illa farið, handónýtur dúkur sem var svo ógeðslegur og illa farinn að sum staðar var beinlínis hættulegt fyrir börn að leika sér á gólfinu.


Þetta var sem sagt það sem við gerðum við tekjuafganginn frá því í fyrra og peninginn sem safnaðist á barnalandi. Við gerum ekki ráð fyrir miklum tekjuafgangi í ár, ef þá nokkrum, sökum veikingar íslensku krónunnar sem gerir flutninga og annað mun dýrara en áður. Vonum það besta en mikilvægast er auðvitað að verkefnið standi undir sér. Allt umfram það er plús.

En takk fyrir þið sem lögðuð okkur lið í verkefninu í fyrra og ég hvet alla til að vera aftur með í ár og segja sem flestum frá litla verkefninu okkar.