Jól í skókassa var haldið í ellefta sinn þetta haustið og voru undirtektar góðar um allt land. Formlegar móttökur voru á tólf stöðum úti á landi fyrir utan lokaskiladaginn í Reykjavík sem var 15. nóvember. Að vanda komu margir við á Holtavegi 28, aðalstöðvum KFUM og KFUM á Íslandi, þann dag. Dyrnar stóðu formlega opnar milli kl. 11 og 16 og fleiri hundruð manns komu og afhentu kassa til söfununarinnar. Samkomuhúsið iðaði af lífi, gleði og eftirvæntingu, börnum og fullorðnum. Stór hópur sjálfboðaliða vann á fullu við að koma kössunum í gegnum verksmiðju jólasveinsins áður en þeim var raðað á vörubretti sem fylltu svo 12 m langan gám. Nú fer gámurinn í langt ferðalag til vina okkar í KFUM og KFUK í Khirovograd í suðurhluta Úkraínu þar sem ástandið hefur síst batnað í síðustu misseri. Þar munu börn á munaðarleysingjaheimilum fá að njóta gjafanna sem og mörg börn með sérþarfir sem mörg hver búa hjá mæðrum sínum.
Vinna sjálfboðaliðanna gekk vel á laugardagskvöldinu og við náðum að klára að fara yfir alla kassana, ganga frá og þrífa húsið áður en klukkan varð ellefu. Alls söfnuðust 4.533 kassar þetta árið sem er næstum jafnmikið og í fyrra og erum við mjög sátt við þann fjölda. Við sem stöndum að verkefninu viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í verkefninu. Einnig viljum við þakka öllum sjálfboðaliðum um allt land sem lögðu hönd á plóg á einn eða annan hátt. Einng viljum við þakka þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem studdu verkefnið sérstaklega með gjöfum, fjárstyrkjum eða vinnuframlagi sínu.
Guði séu þakkir fyrir flott verkefni, allar gjafirnar fyrir börnin og fyrir alla þá sem komu að verkefninu á einn eða annan hátt.
Margir komu í heimsókn á Holtaveginn, hús KFUM og KFUK, síðustu vikuna. Myndir af því má sjá hér.