Tilkynning frá forsvarsfólki verkefnisins Jól í skókassa:
Nú eru aðeins 10 dagar í lokaskiladag verkefnisins Jól í skókassa í Reykjavík, sem er 6.nóvember. Víða á landsbyggðinni er lokaskiladagur hins vegar um eða eftir næstu helgi, 30.-31.október. Samtals eru 12 staðir úti á landi þar sem hægt verður að skila skókössum fyrir verkefnið Jól í skókassa. Nánari upplýsingar um hvern skilastað má sjá á heimasíðu verkefnisins:
http://skokassar.net eða á síðu verkefnisins á Facebook.
Annars viljum við minna þau ykkar sem að búa úti á landi þar sem ekki er formlegur skilastaður að þið getið skilað kössunum ykkar til næsta útibús hjá Flytjanda sem sér um flutning á þeim til Reykjavíkur í félagshús KFUM og KFUK við Holtaveg 28.
Síðasta tækifæri til að skila kössum til tengiliða verkefnisins á Höfn í Hornafirði og nágrenni er einmitt í dag, miðvikudaginn 27. október og á morgun, fimmtudaginn 28. október, milli kl. 17-19 í hvítasunnukirkjunni Lifandi vatn, Hafnarbraut 59. Tengiliður verkefnisins á Höfn er Matthildur Þorsteinsdóttir (899-6488).
Allar nánari upplýsingar um verkefnið, leiðbeiningar um það hvernig skal ganga frá skókössunum, listi yfir þá hluti sem mega og mega ekki fara í kassana, er að finna á heimasíðu Jóla í skókassa:
www.skokassar.net . Einnig er velkomið að hafa samband við Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899 ef fyrirspurnir vakna.
Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir.
Söfnun á skókössum er nú í fullum gangi, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu geta komið með skókassa í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK alla virka daga, þar sem opnunartími er frá kl.9 til 17. Lokaskiladagur verkefnisins á höfuðborgarsvæðinu er laugardagurinn 6. nóvember, í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28, 104 Reykjavík (gegnt Langholtsskóla), frá kl. 11:00 til kl. 16:00 og verða léttar veitingar í boði, auk þess sem boðið verður upp á myndasýningu frá afhendingu skókassa frá síðustu jólum í Úkraínu. Á landsbyggðinni eru skilastaðir víða, en upplýsingar um þá má finna hér:
http://skokassar.net/mottokusta%C3%B0ir/

Skókössunum sem safnast í ár verður meðal annars dreift á heimili fyrir munaðarlausa, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra, en þeir verða sendir til Úkraínu í janúar.