Þetta árið fylgdi þriggja manna hópur, Mjöll, Ástríður og Tómas, jólakössunum eftir til Kirovograd í Úkraínu. Sex daga ferð, frá 8. til 13. janúar. Sem áður stýrði faðir Yevheniy verkefninu en hópurinn naut líka aðstoðar Vladislav og Palinu sem eru 19 og 16 ára sjálfboðaliðar sem og Amiran sem var bílstjóri okkar í ferðinni. Tilgangur ferðarinnar var að fylgja hluta jólaskókassanna eftir. Hópurinn heimsótti einkaheimili nokkurra fjölskyldna, munaðarleysingjaheimili, skóla fyrir fötluð börn, félagsmiðstöð, kirkju, félagsheimili Mother‘s Heart auk þess sem þrjú mikið fötluð börn voru sótt heim. Alls staðar voru móttökur góðar og gjöfunum tekið með gleði og þakklæti.
Hægt er að nálgast ferðasöguna til útprentunar og með myndum með því að smella á: https://www.kfum.is/skokassar/wp-content/uploads/sites/8/2019/01/Jol-i-skokassa-FerTHasa-ga-janúar-2019-TB.pdf
Úkraína er um margt ólíkt Íslandi. Viðfermt land sem hentar vel til landbúnaðar. Þar eru laun og landsframleiðsla mun lægri en á Íslandi.
- Sem dæmi má nefna að samkvæmt upplýsingasíðum [1] nema meðalmánaðarlaun eftir skatta á Íslandi 3.430 Evrum (um 480.200 ISK) samanborið við 190 Evrur í Úkraínu (um 26.600 ISK) m.v. gengið 140.
- Þá nemur verg landsframleiðsla á mann á Íslandi um 42.658 USD (um 5,2 milljónir ISK) samanborið við 3.867 USD í Úkraínu (um 1/2 milljón ISK) miðað við gengið 120. Laun og landsframleiðsla eru með því lægsta sem gerist í Evrópu.
Presturinn nefndi við okkur að lágmarks ellilífeyrir næmi rétt um 50 USD á mánuði og að algeng lágmarkslaun víða á Kirovograd svæðinu væru lítið eitt hærri.
Jól í Skókassa byggja á samstarfi KFUM&K á Íslandi og KFUM&K í Úkraínu. Þetta er nú að verða nokkuð þroskuð sambúð sem hófst árið 2004 með sendingu nokkur hundruð gjafakassa. Þeir nema nú um 4.500 til 5.000 kössum á ári og fylla stóran 40 feta flutningagám.
Til að gefa aðeins betri mynd af þessu öllu saman fylgir hér ferðasaga þremenninganna ásamt nokkrum myndum.
Hægt er að nálgast ferðasöguna til útprentunar og með myndum með því að smella á: https://www.kfum.is/skokassar/wp-content/uploads/sites/8/2019/01/Jol-i-skokassa-FerTHasa-ga-janúar-2019-TB.pdf
Haldið af stað – KEF – Berlín – Úkraína – Helsinki – KEF
Ferðalagið hófst um klukkan fimm að morgni þriðjudagsins 8. janúar 2019 með því að Ingibjörg Valgeirsdóttir pikkaði hópinn upp – Ástríði, Mjöll og Tómas. Ferðin frá Keflavík til Berlínar og þaðan til Kiev (höfuðborgar Úkraínu) gekk vel. Flugvöllurinn þar er fremur nýlegur. Þegar í gegn um tollinn var komið tók Vladislav (Vladik), ungur sjálfboðaliði á móti okkur. Hann fylgdi okkur alla ferðina, túlkaði fyrir okkur og aðstoðaði á margan hátt – hress og klár strákur með góðan húmor. Vladik dvaldi á Íslandi í um vikutíma haustið 2017 þegar hann tók þátt í starfi KFUM&K ásamt Yevheniy og hópi úkraínskra ungmenna.
Úti var um 15 gráðu frost, stillt veður og nokkur snjór á götum. Við þurftum að bíða aðeins eftir því að lestin til Kirovograd legði af stað og nýttum við tímann til að fá okkur flatböku á Dominos. Næturlestin ferjaði okkur að því búnu til Kirovograd (um 300 þúsund manna borg). Lestarstöðin í Kiev er frá Sovét tímanum. Glæsileg og stór, vel skreytt jólaskrauti. Lestin var greinilega nokkuð gömul, með þröngum en kósí svefnklefum. Við komum okkur fjögur fyrir í honum og eftir smá spjall ruggaði dísel lestin okkur í svefn. Faðir Yevheniy (presturinn sem sér um verkefnið í Úkraínu) tók á móti okkur í Kirovograd. Þaðan var ferðinni heitið á sveitahótel, dvalarstað okkar í ferðinni. Fínt hótel og almennilegt starfsfólk. Þar lögðumst við í bæli um klukkan tvö að staðartíma (fjögur á Íslandi). Verkefnið var að hvíla sig fyrir morgundaginn, fyrir dagskrá sem átti að hefjast klukkan 12.
Dagur 1. – Heimsóknir á þrjú einkaheimili og í félagsmiðstöð
Það stóð eins og stafur á bók, við vorum sótt stundvíslega klukkan 12. Í för voru Yevheniy (presturinn), bílstjórinn Amiran, Vladik og Palina (annar ungur úkraínskur sjálfboðaliði). Fyrst sóttum við konu, félagsráðgjafa sem leiðsagði okkur þennan dag. Við heimsóttum heimili þriggja fjölskyldna og tómstundaheimili.
Fyrst var ferðinni heitið á heimili hjóna sem eiga fjóra syni og eina dóttur sem er þeirra yngst. Fólkið tók vel á móti okkur. Heimilið er ekki stórt, um 70 fm en hlýlegt. Krakkarnir sungu lag, einn bræðranna spilaði lag á harmonikku, við afhentum þeim pakkana og foreldrarnir sýndu okkur heimilið. Pabbinn sýndi okkur því næst bakhúsið og garðinn. Þar er gróðurhús, nokkuð stór róla, leikgrind fyrir krakkana og bakhús til að geyma uppskeru sumarsins o.fl. Að svo búnu þökkuðum við fyrir okkur og héldum í næsta verkefni.
Stopp númer tvö var á heimili tveggja ungra bræðra. Þar fengum við, eins og annars staðar, góðar móttökur. Strákarnir voru nokkuð feimnir í fyrstu, ekki síst sá yngri. Húsið er á einni hæð, ekki stórt; eitt svefnherbergi og eldhús. Amman býr með fjölskyldunni en pabbinn var að heiman við vinnu í Kiev. Við færðum drengjunum pakkana, spjölluðum við þá og fengum að skoða gjafirnar með þeim. Við kvöddum svo og héldum áleiðis að næsta heimili.
Á þriðja staðnum hittum við fyrir móður sem heldur heimili með móður sinni, ömmu sinni, tveimur dætrum og syni. Í heimsókn var ömmusystir. Þar voru móttökurnar ekki síður hlýlegar. Við innganginn var stór geltandi scheffer í bandi, tveir kettir, kettlingur og minni hundur á vappi. Í litlu útihúsi fyrir utan var hestur sem fjölskyldan hafði nýlega eignast. Hún hugðist nota hann til reiðtúra með hreyfihömluð börn, til að efla hreyfiþroska þeirra. Í anddyrinu tóku systkinin á móti okkur, uppáklædd, og sungu úkraínskt lag. Við gengum svo til stofu þar sem amman, langamman (á úkraínsku: babúska) og ömmusystirin heilsuðu okkur. Já, og trýni af fjögurramánaða husky hvolpi sem gægðist undan hurð á lítilli geymslu. Honum til mikillar gleði fékk hann líka að segja hæ.
Það er með þetta heimili eins og mörg önnur sem við heimsóttum; þau minna okkur á hvað við höfum það um margt gott heima. Hlýlegt var það þó, en eðlilega mjög hlaðið ýmsum hlutum. Við afhentum krökkunum pakkana í stofunni sem er í raun alrými, stofa, eldhús og forstofa. Börnin og mamman sofa saman í einu herbergi, vel skreyttu Disney myndum. Svefnaðstaða ömmunnar og langömmunnar er svo á beddum í minna herbergi/holi fyrir framan svefnherbergið. Krakkarnir eru öll að læra dans og stelpurnar í fyrirsætuskóla. Það var eftirminnilegt að heyra móðurina segja frá því. Hún var svo stolt og alveg 1000% í stuðningsliði barnanna sinna. Þau hafa unnið til ýmissa verðlauna og hún sýndi okkur keik stóra kippu af verðlaunapeningum. Krakkarnir og kostnaður við dansnám þeirra og fyrirsætustörf gengur fyrir öllu – því sagðist hún ekki hafa ráð á að halda húsinu vel við. Faðirinn býr ekki á heimilinu.
Nú var heimsóknum á heimili fólks lokið þennan daginn og ferð okkar lá á tómstundaheimili. Það var byggt á Sovét tímanum og er rekið fyrir opinber fjárframlög. Þar er krökkum kennd leiklist, dans, myndlist og ýmislegt annað listtengt. Við afhentum um 20 krökkum pakka eftir að nokkur þeirra fluttu okkur ljóð.
Þessum fyrsta degi lauk um kvöldmatarleyti. Við fórum með föruneytinu á hótelið. Þar fékk hópurinn kvöldmat og lagðist svo til svefns. Þó dagurinn hafi ekki byrjað fyrr en um hádegi sofnuðum við fljótt, enda hafði ferðin að heiman verið nokkuð löng.
Dagur 2 – Heimsókn í klaustur – á munaðarleysingjaheimili – í kirkju og á heimili prestsins
Dagur tvö hófst með morgunmat klukkan átta, en við vorum sótt stundvíslega hálf níu. Fyrst var ferðinni heitið í lítið klaustur í Alexandria, nágrannabæ Kirovograd. Þar tók abbadísin á móti okkur – kona mikil á velli og með mikla hlýju. Við fengum stutta kynningu á klaustrinu. Hér afhentum við 20 börnum pakka, fimm til átján ára gömlum og fengum að skoða þá með þeim. Fyrst fengum við þó að sjá vel æfða söngsýningu. Þau lögðu sig öll fram og höfðu greinilega undirbúið sig vel. Sumir krakkana voru feimin, önnur áttu nokkuð erfitt með að tjá tilfinningar. Mörg sýndu þau einlæga gleði. Meðal þeirra voru nokkrar stúlkur, fimmtán til átján ára. Það var svo gaman að vera með þeim, finna hlýju þeirra og einlægni. Nokkrar þeirra tóku þátt í dansatriði í helgileiknum, voru klæddar í gula kjóla og með gulan borða um ennið. Þær spjölluðu, hlógu og sýndu okkur gjafirnar sínar. Þegar við smelltum af þeim myndum stilltu þær sér upp, hæstánægðar.
Margir krakkanna glíma greinilega við einhverjar hömlur. Þau njóta aðstoðar samtakanna Mother‘s Heart í bænum. Við fengum t.d. að heyra um þrjá krakka sem höfðu alla tíð átt mjög erfitt með mál. Fyrir um ári síðan fengu þau svo kennslu fyrir tilstilli Mother‘s Heart sem var fjármagnað með stuðningi úr verkefninu Jól í skókassa. Árangurinn er áþreifanlegur. Einn þessara krakka er stúlka sem söng langt lag á skemmtuninnisem börnin buðu okkur upp á, og verðskuldað stoltið skein í gegn. Eftir helgileikinn og gjafirnar fengum við kaffi í klaustrinu; kökur, ávaxtate og fleira. Auk tveggja presta, abbadísarinnar, og tveggja mæðra frá Mother‘s Heart, satbiskupinn til borðs með okkur. Það var fróðlegt, gaman og um margt átakanlegt að spjalla við þau. Mæðurnar sögðu m.a. frá því að börnin þeirra gengju ekki í venjulega skóla og fengju takmarkaða menntun sökum fötlunar sinnar. Samtökin væru því þeim og foreldrunum mikilvæg stoð. Með stuðningi Jól í skókassa (JÍS) hafa þau m.a. getað greitt fyrir sérkennslu og sérhæfðan búnað sem gagnast vegna fötlunar sumra barnanna. Þær stóla greinilega mikið á frábært starf Mother‘s Heart sem og aðstoð JÍS. Biskupinn lagði áherslu á að þau kynnu vel að meta stuðninginn. Þau leggja jafnframt áherslu á að nýta hann sem best og gera sem mest úr honum með eigin framlagi. Þetta verkefni er þeim mikið alvörumál. Við þökkuðum góðar móttökur og nefndum að það væri okkur/JÍS mikils virði að geta lagt þeim lið. Það væri okkar trú að í samstarfi værum við mun sterkari en sitt í hvoru lagi. Bæði Mjöll og presturinn sögðu frá því að starf Mother‘s Heart í Kirovograd væri mikill innblástur fyrir Mother‘s Heart í nágrannabænum.
Það er gaman að segja frá því að sumir sem gefa jólakassa leggja einnig til aukapening. Það sem eftir stendur er svo nýtt til að styrkja ýmis verkefni tengd JÍS í Úkraínu. Meðal þeirra er talkennslan sem við sögðum frá hér að ofan, stuðningur við munaðarleysingjaheimili o.fl. Það munar svo sannarlega um þessi framlög. Ekki síst þegar haft er í huga að hver íslensk króna hefur margfaldan kaupmátt í Úkraínu.
Úr klaustrinu var feriðinn heitið á Pataíika, heimili fyrir börn með sérþarfir. Þetta eru ung börn sem mörg hver glíma við líkamlega og/eða andlega fötlun. Presturinn sagði að mörg þeirra kæmu frá foreldrum sem ættu í erfiðleikum með vín og önnur fíkniefni. Sumir foreldranna mættu heimsækja þau og taka heim um stund en aðrir væru þess ófærir og hefðu því misst forræðið.
Krakkarnir stilltu sér upp í sal þegar við komum. Smá bið varð eftir pökkunum og þau urðu skiljanlega nokkuð óþreyjufull. En þegar að því kom, tóku þau vel á móti pökkunum sínum og opnuðu þá á stóru teppi í miðjum salnum. Þar fengum við gott tækifæri til að skoða með þeim pakkana, spjalla og leika við þau. Það var magnað hvað samskiptin gengu vel þrátt fyrir menningarmun, tungumálaleysi okkar og fötlun þeirra. Að leika og skoða saman er greinilega alþjóðlegt tungumál.
Að heimsókninni lokinni fengum við okkur hressingu á kaffihúsi. Kaffihúsin sem við heimsóttum voru ekki margbrotin, en snyrtileg. Minntu á blöndu af einföldu kaffihúsi og pöbb, í svolítið gamaldags stíl.
Þriðja og síðasta stopp dagsins var kirkja föður Yevheniy. Hún var byggð árið 2002, fyrir fé sem efnaður maður gaf í minningu sonar síns sem lést af slysförum. Í kirkjuna komu foreldrar með börnum sínum – allt fólk úr sókninni.
Þegar gjafa afhendingu var lokið sýndi presturinn okkur kirkjuna, sagði okkur sögu hennar og greindi frá því hvernig guðþjónustur færu fram. Þá kom fjölskylda inn í kirkjuna og átti erindi við Föðurinn. Við héldum því að prestbústaðnum sem er í sömu götu og kirkjan. Þar tók Anna ráðskona, sem er einnig nunna, á móti okkur. Yevheniy kom úr kirkjunni stuttu síðar og við settumst til borðs. Á boðstólum voru pönnukökur með heimalagaðri sultu, hæna sem var ræktuð í bakgarðinu, heimabakað brauð, pasta með kjöti og epli í eftirrétt. Presturinn fékk sér mjólk með gosi í. Einhverjir smökkuðu hana en aðrir ekki – svolítið spes.
Að loknum góðum degi héldum við á gistiheimilið. Þar ræddum við daginn, settum myndir á samfélagsmiðla og tókum saman þessa punkta frá deginum. Á morgun er föstudagur og þriðji dagur ferðarinnar. Þá bíða okkar fleiri heimsóknir og smá frjáls tími til að skoða okkur um í miðbæ Kirovograd. Meira um það á morgun.
Dagur 3 – Þrír skólar í sveitinni, vöruhúsið þar sem gjafirnar eru geymdar og miðbærinn
Hver dagur hér er öðrum ólíkur. Í gær sagði Faðir Yevheniy okkur að við færum nokkuð langt út í sveit “and we would have guard with us”. Íslensku grænjaxlarnir sáu þá fyrir sér full vopnaðan öryggisvörð. Mjöll (sem hefur fimm sinnum fylgt gjöfunum til Úkraínu eftir)var fljót að útskýra fyrir nýgræðingunum að þetta væri ekki vopnaður vörður, heldur noti presturinn „guard“ um leiðsögumann 😉
Leiðsögumaðurinn reyndist vera reglulega almennileg staðkunnug kona. Hún fylgdi okkur þennan dag og það var full þörf á því þar sem við fórum um flókna sveitavegi að þremur skólum.
Yevheniy sagði okkur að á þessu svæði væri mikil fátækt. Á Sovét tímanum var hér mikil landbúnaðarframleiðsla. Það hefur breyst á síðari árum. Þá heyrðum við í samtölum við fólk á svæðinu að víða væri hér lítið við að vera. Fólk hefði hins vegar ekki efni á að flytja til borgarinnar í fjölbreyttara mannlíf, betri tækifæri og bætt lífskjör. Jafnvel góðir námsmenn ættu þess oft ekki kost að sækja framhaldsmenntun til borganna.
Fyrsti skólinn: Í fyrstu skólaheimsókn dagsins var að vanda vel tekið á móti okkur. Rúmlega tuttugu börn fengu þar Jól í skókassa. Skólinn var skemmtilegur, mikil áhersla lögð á myndlist. Margar skólastofur og gangar voru skreyttir myndum endanna á milli og frá gólfi til lofts. Einn kennaranna er víst reglulega listrænn og á heiðurinn af þessum glæsilegu veggskreytingum.
Eftir að faðir Yevheniy hafði kynnt okkur og verkefnið og sagt svolítið frá Íslandi, m.a. Eyjafjallajökli, afhentum við krökkunum pakkana. Flottur hópur sem gaman var að fylgjast með. Einn strákurinn fékk m.a. flottan bíl, nokkuð stóran. Hann var mjög ánægður með hann, sagðist stefna að því að verða bílstjóri þegar hann yrði stór. Þá ljómaði ein vinkona okkar af gleði þegar hún dró blöðru upp úr kassanum sínum.
Við fengum enn á ný tækifæri til að sitja með krökkunum og skoða með þeim dótið. Skólastjórinn sýndi okkur svo skólann þar sem hver stofa var annarri betur skreytt. Í sumum skólastofunum voru mjög gömul húsgögn en í öðrum nýrri sem fengust keypt fyrir nýleg framlög frá ríkinu. Enn og aftur er maður minntur á að þó við höfum okkar verkefni að glíma við heima á Íslandi eru aðstæður okkar um flest langt um betri.
Annar skólinn: Næsti skóli var frábrugðinn þeim fyrsta. Innkoman í húsakynnin nokkuð kuldaleg, meira eins og maður gæti ímyndað sér gamlan skóla frá þessum heimshluta. Enn og aftur voru móttökurnar þó hlýjar og krakkarnir fluttu vel æft atriði. Nú var hins vegar gerð krafa um framlag frá okkur og undan því var ekki vikist. Íslenska sendinefndin flutti því lagið “Í skóginum stóð kofi einn” með viðeigandi leikrænum tilburðum.
Eitt er reglulega minnisstætt frá þessari heimsókn. Palina sagði okkur aðdrengur, sem sat með einu okkar að skoða gjafakassann sinn, hefði sagt að þetta væri besti dagur lífs hans.Hvort sem það var nú nákvæmlega raunin, þá leyndi gleðin og einlægt þakklætið sér ekki. Það er ekki lítið sem þessir jólaskókassar geta gefið.
Þriðji skólinn: Heimsókn í þriðja skólann þennan dag er um margt eftirminnileg. Enn og aftur var tekið vel á móti okkur. Krakkarnir voru með söngatriði þar sem um 15 ára gömul stúlka flutti einsöng en aðrir krakkar tóku þátt með miklum myndabrag. Hér hafði greinilega verið mikið æft.
Eftir afhendingu gjafanna sátum við í dágóða stund með krökkunum, spjölluðum á fingramáli og nutum líka aðstoðar vina okkar Vladik og Palinu við þýðingar.
Margir krakkanna voru eftirminnileg fyrir það að þau voru sérstaklega hlý og höfðu góða nærveru. Sum þeirra stóðu upp án orða og föðmuðu okkur. Þar flugu orð sem við heyrðum nokkrum sinnum í ferðinni: “þetta er besta gjöf sem ég hef á ævi minni fengið”.
Þegar samverustundinni var að ljúka fengum við upplýsingar um að sjö krakkar væru mætt í hús. Þau urðu aðeins sein fyrir þar sem skólabíllinn þeirra festist í snjó. Þau héldu því áfram fótgangandi í átt að skólanum. Bílstjórinn okkar gat sem betur fer sótt þau, svo þau komust í tæka tíð. Við fórum með þeim inn í litla hlýlega skólastofu og gáfum þeim sína pakka. Góð stund með alveg frábærum krökkum.
Fyrir okkur eru þessir pakkar í jólakassa fínir, en líklega alls engar tímamótagjafir. Enn og aftur fengum við þó sönnun á því að þeir hitta vel í mark. Það er gott til þess að vita þegar hver og einn situr heima og útbýr sína kassa. Það er greinilegt hvað hver og einn kassi hefur mikið að segja. Þó í þeim kunni að vera hlutir sem við teljum kannski ekki stórmerkilega eru þeir afar vel metnir af þeim sem þá fá.
Áður en við héldum á braut var okkur Íslendingunum þremur, prestinum, bílstjóranum og báðum góðu aðstoðarmönnunum boðið í mat með skólastjóranum. Þar var boðið upp á fyllt pasta með kartöflum og lifur, brauð með ostbita og pylsubita og brauð með eplafyllingu í eftirmat. Við áttum gott samtal við skólastjórann. Hún fræddi okkur m.a. um aðstöðu barnanna og samfélagið þeirra. Hún var greinilega stolt af sínum krökkum. Þá nefndi hún aðþað væri bæði gaman og mikilvægt fyrir hana og aðra starfsmenn að fá heimsóknir frá öðru fjarlægu landi. Það hefði ekki gerst áður.
Að loknum þremur skólaheimsóknum fórum við í vöruhúsið þar sem jólakassarnir eru geymdir. Það var gaman að sjá gáminn, þennan sem við sendum frá Íslandi. Við sóttum um hundrað kassa fyrir morgundaginn.
Nú var skipulagðri dagskrá þriðja dagsins okkar í Kirovograd lokið. Við fórum því í stutta ferð í miðbæinn. Gengum eftir aðalgötunni sem er fín en ekki stórbrotin. Enn eru jólaskreytingar út um allt og jólalög á veitingarstöðum og í verslunum – enda voru jólin haldin hátíðleg 7. janúar s.l. Jólahátíðinni í Úkraínu lýkur svo 14. janúar á gömlu áramótunum. Það bar þarna til tíðinda að Ástríður kláraði maskarann sinn. Hópurinn leit því við í snyrtivöruverslun. Ástríður fann þar sitt maskaramerki og reiddi fram því sem svarar 5.000 íslenskum krónum (svipað verð og hér heima). Presturinn leit þá hugsi á stúlkuna og sagði – Hafðu í huga að í hvert skipti sem þú setur þetta á augun á þér ertu að nota vöru sem jafngildir mánaðarlaunum verkamanns á þessu svæði í Úkraínu. Við urðum öll nokkuð hugsi.
Við lukum deginum á pizzastað, með okkar liði og fjölskyldu prestsins. Þar snæddum við pizzur, ræddum við konu prestsins, dætur og barnabörn. Flottur hópur sem gaman var að spjalla við. Á morgun bíða okkar nokkur ný verkefni og heimferð um miðnætti.
Dagur 4 – Heimili fyrir munaðarlaus börn, skóli fyrir fatlaða krakka, heimsókn á heimili þriggja fatlaðra drengja og í félagsheimili Mother‘s Heart
Í dag rann upp fjórði og síðasti vinnudagur ferðarinnar. Veðrið hefur verið fínt alla dagana, hægur vindur. Það blæs reyndar mjög sjaldan á Kirovograd svæðinu. Hitinn á bilinu -2 til – 15 stig, að mestu bjart og það snjóaði aðeins nokkrum sinnum. Hér er hins vegar oft hlýtt á sumrin, jafnvel um 30 gráðu hiti.
Heimsókn á móttökumiðstöð fyrir heimilislaus börn. Fyrst heimsóttum við stofnun sem er móttöku-miðstöð fyrir börn sem er ekki vært heima hjá sér vegna erfiðra aðstæðna, t.d. vegna áfengis- eða fíkniefnaneyslu foreldra eða sárrar fátæktar. Þangað koma líka börn sem eru á götunni. Sum barnanna eru veik, með sjúkdóma, fötluð eða glíma við afleiðingar erfiðra aðstæðna. Á heimilinu fá þau læknisaðstoð, kennslu og betra atlæti. Hér dvelja börnin í um þrjá til fimm mánuði áður en þau fara á heimili fyrir munaðarlaus börn til lengri dvalar. Einhver eiga þess líka kost að fara aftur til síns heima ef aðstæður breytast til betri vegar.
Krakkarnir tóku gjöfunum afar vel. Það varð reyndar allsherjar sprenging þegar þau byrjuðu að opna pakkana, fjör og gleði. Um átta ára strákur bauð brosandi um sex ára hnátu sápustykki í skiptum fyrir vasareikni sem hún hafði fengið. Hún setti upp ákveðinn svip og harðneitaði – allt hefur sitt verð.
Það er gaman að segja frá því að JÍS hefur styrkt heimilið sem hefur komið sér vel. Nefna má að fyrir nokkrum árum var gefin sturtuklefi, einnig rúm og gólfefni.Til stendur að styðja við kaup á rúmum fyrir yngri börnin. Við sáum þessa hluti og margt fleira þegar við fengum að skoða heimilið.
Drengir sofa í sérherbergi þar sem eru um 14 rúm og stúlkur í sérherbergi, álíka stóru. Við settumst þar niður með nokkrum krökkum sem voru að skoða pakkana sína betur. Þeir hittu greinilega vel í mark. Ein stelpan var t.d. hæst ánægð með varalit sem hún fékk og setti hann strax á sig.
Á þessum stað, eins og sumum öðrum, er viðbúið að krakkarnir fengju engar jólagjafir ef Jól í skókassa væri ekki til að dreifa.
Önnur heimsókn dagsins var í skóla fyrir unga fatlaða krakka. Krakkarnir í skólanum eiga þess ekki kost að sækja nám í venjulega skóla. Þau eru t.a.m. heyrnalaus, einhverf eða með aðra samskiptaerfiðleika. Áður en við afhentum pakkana tókum við þátt í leikjum sem gengu mikið út á dans og annars konar líkamlega tjáningu. Því næst komu fígúrur í heimsókn, sem eru þekktar úr vinsælum teiknimyndaþáttum í Úkraínu.
Gjafaafhendingin gekk vel og vakti mikla lukku. Hún var með nokkuð öðrum hætti en víða annars staðar þar sem flestir krakkanna voru í fylgd með foreldrum sínum. Flottir krakkar sem nutu ástar og umhyggju.
Heimsókn á þrjú einkaheimili til mikið fatlaðra drengja. Kona að nafni Marina fylgdi okkur á heimilin. Hún er meðlimur í Mother‘s Heart og á sjálf þroskaskertan son.
Fyrst var ferðinni heitið til 11 ára stráks sem býr hjá foreldrum sínum og ömmu. Hann er mikið fatlaður, lítill eftir aldri og hefur greinilega mikið fyrir lífinu. Íbúðin er mjög lítil í hefðbundinni blokk frá Sovét tímanum. Íburður allur í lágmarki og húsnæðið að allt öðrum gæðum en við eigum að venjast á Íslandi.
Á næsta heimili tók Natalí á móti okkur. Hún býr ein með Igor, þrettán ára syni sínum. Sú íbúð var líka í “Sovét blokk”. Það var hins vegar eftirtektarvert hvað íbúðin sjálf var smekkleg og skemmtilega til sett. Igor er mjög glaðlyndur og duglegur strákur. Hann spurði sposkur “Af hverju ertu að gefa mér gjöf?” Mjöll svaraði að bragði að það væri af því að hann væri svo duglegur strákur. Igor hló við og sagði: “Neiiii, það er af því að það eru jól” og hló.Igor er mikið fatlaður og þarf mikla aðstoð og lyf. JÍS hefur styrkt fjölskylduna með lyfjakaupum og gerði það líka þetta árið.
Á þriðja og síðasta heimilinu þennan daginn heimsóttum við Max 15 ára, og 12 ára bróðir hans. Þeir búa með mömmu sinni og ömmu í gömlu einlyftu og lúnu húsi. Við færðum bræðrunum pakka og spjölluðum við fjölskylduna. Max á mjög erfitt með hreyfingu en skýr strákur. Hann sat í skrifstofustól sem JÍS kostaði fyrir nokkrum árum. Það bætti aðstöðu hans verulega.
Heimsókn til Mother‘s Heart.
Síðasta heimsókn ferðarinnar var til Mother‘s Heart. Þar heimsóttum við nýtt félagsheimili sem samtökin hafa fengið fyrir starfsemi sína í Kirovograd. Krakkarnir sem fengu kassana hér voru í eldri kantinum. Gleði þeirra var einlæg og mikil. Sumir áttu þó betra með að tjá það en aðrir. Við sátum nokkra stund með þeim og foreldrum þeirra.
Samtökin hafa verið starfrækt á svæðinu um nokkurt árabil. Í þeim eru um 250 fjölskyldur á öllu Kirovograd svæðinu. Eins og nafn samtakanna bendir til er starf þeirra borið uppi af mæðrum. Presturinn sagði okkur að það væri því miður þannig að í um 80% tilvika yfirgæfu feður fjölskyldu sína þar sem væri fatlað eða langveikt barn. Í öðrum tilvikum er það faðirinn sem sækir vinnu en móðirin sinnir börnunum meira.
Samtökin eru fjölskyldunum sem þau mynda mikil stoð og stytta. Það kom m.a. fram að gjafirnar frá Íslandi hafa haft mikil áhrif, bæði bein og óbein. Fyrir fjórtán árum tóku að berast þeim gjafir frá ókunnugu fólki í fjarlægu landi. Eitt af því dýrmæta sem gjafirnar og hugurinn sem þeim fylgir hafa gefið er mikill innblástur. Innblástur sem hefur hvatt þau til að standa enn þéttar saman og styðja hvort við annað.Konurnar sögu að þær hefðu sannfærst enn betur að samtakamáttur væri mikilvægur. Í lok heimsóknarinnar spjölluðum við viðþrjár konur sem eru leiðandi í starfi samtakanna. Það kom vel fram í máli þeirra hvað framlag frá JÍS hefur skipt starf samtakanna miklu máli. Fjárhagslegur og móralskur stuðningur verkefnisins er greinilega mikils metinn.
Ferðalok – Laugardagskvöld til sunnudags síðdegis
Nú var klukkan um átta að kvöldi síðasta dags okkar í Úkraínu. Við áttum bókað far með næturlestinni frá Kirovograd til Kiev um miðnætti. Fengum að hvíla okkur fyrir ferðina hjá sjálfboðaliða sem starfar með Yevheniy. Íbúðin er í Sovét blokk, snyrtileg en einföld. Um miðnætti sótti Yevheniy okkur og fylgdi á lestarstöðina þar sem við kvöddumst, sátt eftir góða samfylgd.
Ferðin til Kiev gekk vel. Við komum þangað undir morgun. Nýttum tímann fram að flugi með því að fá okkur morgunmat á McDonald‘s. Vladik fylgdi okkur svo á flugvöllinn þar sem leiðir skyldu. Hann hafði svo sannalega gert ferð okkar enn eftirminnilegri með sinni góðu nærveru – er glaðvær og þægilegur. Við lentum í Keflavík, sátt en þreytt, seinni part sunnudags eftir stutta millilendingu í Helsinki.
Við þökkum fyrir tækifæri til að fylgja þessu stóra verkefni eftir – þeim gjöfum og allri þeirri vinnu sem svo margir hafa lagt á sig til að gera verkefnið að veruleika. Markmiðið er að þessar línur gefi ykkur aðeins betri innsýn inn í það sem fram fer á endastöðinni – þó erfitt sé að lýsa því almennilega með orðum.
Við vorum beðin fyrir bestu kveðjur til Íslands frá Kirovograd,
Ástríður Elsa, Mjöll og Tómas Njáll.
[1]https://www.nationmaster.com/country-info/stats/Economy/GDP-per-capita, https://www.reddit.com/r/europe/comments/a1t05o/net_average_monthly_salary_in_europe_in/