Síðasti dagur ársins rann upp og þrjár vinkonur lögðu af stað í ævintýralegt ferðalag. Ferðin til Kiev (Kænugarðs), höfuðborgar Úkraínu tók 15 tíma með stuttri millilendingu í Helsinki, Finnlandi. Á flugvellinum beið Elena Romanenko eftir okkur en hún var leiðsögumaður okkar í Kiev. Elena þekkir til Íslands og dvaldi þar sem sjálfboðaliði á vegum KFUM og KFUK árið 2011-2012. Elena var búin að útvega okkur leigubílstjóra sem kom eftir stutta bið á litlum pallbíl sem skrölti með okkur á hótelið. Það vakti athygli okkar að engin sætisbelti voru í leigubílnum en við áttum eftir að kynnast því að úkraínskir bílar eru almennt ekki útbúnir sætisbeltum í farþegasætum.
Áramótunum var fagnað á veitingastað við hótelið okkar. Flugeldum hefur ekki verið skotið upp í höfuðborginni eftir mótmæli og átökin haustið 2013. Á aðaltorginu í miðborginni kemur fólk saman og fylgist með skemmtiatriðum og ljósasýningu. Morguninn eftir sótti Elena okkur og sýndi okkur borgina. Elena er frábær leiðsögumaður, áhugasöm og með sterkar pólitískar skoðanir. Það var ánægjulegt að eyða deginum með henni og sjá og fræðast um helstu minnismerki í Kiev. Við kvöddum Elenu við lestarstöðina og tókum kvöldlestina til Znamenka. Lestarferðin minnti á tímaflakk þar sem okkur fannst við ferðast 50 ár aftur í tímann. Klefinn okkar var lítill og þröngur með fjórum kojum og þökkuðum við fyrir að allar kojurnar voru fyrir okkur þrjár því annars hefði farangurinn okkar ekki komist fyrir í klefanum og þurft að vera frammi á gangi. Faðir Ievgenii Zhabkovskiy tók fagnandi á móti okkur á lestarstöðinni í Znamenka. Ievgenii er prestur í rétttrúnaðarkirkjunni og hefur verið tengiliður við verkefnið frá upphafi. Hann og fjölskylda hans hýstu okkur á prestssetrinu í Subotcy, litlum bæ rétt norðaustan af Kirovograd.
Eftir stuttan en góðan nætursvefn var notalegt að koma niður í eldhús og hitta fjölskyldu Ievgenii. Við drukkum kaffisopa með mjólk beint af kúnni, egg frá hænsnunum úti í garði, heimalagaðan eplasafa af uppskeru síðasta sumars og pönnukökur með heimagerðri kirsuberjasultu. Ievgenii var með tilbúna dagskrá fyrir dreifingardagana þrjá sem hann hafði merkt; „The preliminary plan of work of delegation of real Girls-Vikings from Iceland“. Fordyrið og stofan á prestssetrinu var yfirfull af skókössum en þar sem vöruhúsið sem kassarnir eru geymdar í var lokað yfir hátíðardagana var búið að flytja hluta þeirra á prestssetrið. Við fórum yfir plön dagsins og ferjuðum 137 gjafir í sendiferðabílinn.
Fyrsta munaðarleysingjahælið sem við heimsóttum er í Pantayevka. Heimilið er fyrir veik börn sem þurfa mikla aðstoð við dagleg verk og því ólíklegt að þau verði einhvern tímann ættleidd. Sum barnanna eru einhverf. Þarna búa 20 börn sem eiga flest foreldra sem eru í óreglu, aðallega drykkju og búa við mikla fátækt. Foreldrarnir geta ekki séð um börnin sín en þó fara nokkur þeirra heim til sín um jólin. Börnin voru spennt og röðuðu sér í sæti. Stúlka, um það bil 10 ára gömul, fór með ljóð fyrir okkur en hún er elst barnanna á heimilinu og sú eina sem er heilbrigð. Yngri bróðir hennar er mikið veikur og fá systkinin að búa saman. Það var sterk upplifun að heimsækja þessi yndislegu börn og nutum við samverunnar með þeim.
Næst var ferðinni heitið til Znamenka á skrifstofu félagsþjónustu svæðisins. Félagsþjónustan sér um að finna nýjar fjölskyldur fyrir munaðarlaus börn. Oftast fara fleiri en eitt barn allt upp í tíu inn á hvert heimili. Systkini fylgjast þá oft að og sér jafnvel aðeins eitt foreldri um öll börnin sem búa saman sem ein fjölskylda. Sumar fjölskyldurnar á svæðinu þar í kring komust ekki til að taka á móti gjöfunum sínum vegna langrar vegalengdar eða vegna fjárskorts en yfirmenn skrifstofunnar sjá til þess að allir fái gjafir. Elena, yfirmaður félagsþjónustu svæðisins bauð okkur í hádegismat á Ockap sem er lítill fjölskyldustaður þar í grennd. Á boðstólnum var hefðbundinn úkraínskur matur, allur heimagerður og lífrænn. Elena skálaði við okkur í pipar-vodka og þakkaði fyrir allan stuðning sem verkefnið hefur sýnt þessum fjölskyldum í gegnum tíðina.
Munaðarleysingjaheimilið Nadiya („Hope“) var næsti áfangastaður. Það heimili hefur verið heimsótt á hverju ári frá því verkefninu var ýtt úr vör. Það er gaman að geta þess að mikil og góð framþróun hefur átt sér stað þar á þeim tíma. Þangað koma börn beint af götunni og dvelja þar í styttri tíma eða þar til úrræði finnast fyrir þau. Sum fara á önnur munaðarleysingjaheimili, önnur jafnvel aftur til fjölskyldu sinnar.
Þá heimsóttum við munaðarleysingjahæli í Kirovograd, Nash dim („Our house“). Þar búa 14 börn, 3 stelpur og 11 strákar, á aldrinum 10-17 ára. Í fyrra bjuggu 25 börn þar en mörg þeirra hafa náð 17-18 ára aldri og eru því farin að heiman, annað hvort í heimavistarskóla eða annað. Á þessu heimili sjá börnin um sig sjálf. Það var tekið vel á móti okkur, fínasta kínverska postulínsstellið tekið fram og boðið upp á svart te og piparkökur. Börnin voru áhugasöm um Ísland og við spjölluðum lengi um íslenskar hefðir og stöðuna í Úkraínu og á Íslandi. Ievgenii hvatti þau til að leggja hart að sér að læra ensku og kunna á tölvur til að geta átt möguleika á atvinnu í framtíðinni. Hann hvatti þau einnig til að fara vel með peninginn sinn en hvert þeirra fær að andvirði 1.000 íslenskra króna á mánuði í uppihald og dugar það skammt.
Sunnudagur rann upp og byrjaði dagurinn hjá Ievgenii á guðsþjónustu í kirkjunni frá kl. 5:30 til 9:00 en venjulega stendur þjónustan frá 9:00-13:00. Í ljósi þess að íslenskir vinir voru í heimsókn og full dagskrá framundan á dreifingu gjafa sýndi sóknin skilning á breyttum messutíma. Ievgenii hafði áhyggjur af því að kirkjuklukkurnar myndu vekja okkur alltof snemma en við sváfum klukknaóminn af okkur. Þegar morgunverði var lokið skoðuðum við fallegu kirkjuna og að því loknu vildi Ievgenii að við heilsuðum upp á nágranna hans, frú Valentinu. Hún býr við mikla fátækt og var heimilishald svo frumstætt og fornfálegt að það var líkast því að ferðast 100 ár aftur í tímann, alltént miðað við nútímaleg heimili á Íslandi. Kotið hennar var illa upplýst, horaður köttur og hundur lágu á ullarteppi á bedda í eldhúsinu við stóra kabyssu sem er eini hitagjafinn í húsinu. Matarleifar lágu í stórum potti á miðju eldhúsborði ásamt töfluboxum og pilluspjöldum. Ekkert salerni er í húsinu aðeins útikamar og þennan sólríka og stillta vetrarmorgun var frostið 22°C og erfitt að hugsa til þessa að 84 ára gömul kona þurfi að búa við slíkan aðbúnað. Vinkona Valentinu var í heimsókn hjá henni en Valentina hafði misst manninn sinn fjórum dögum áður að undangengnum langvinnum og erfiðum veikindum. Strákur vinkonunnar, 10-12 ára, beið fyrir utan enda var heimilið heldur illa lyktandi og þungt yfir. Hann ljómaði allur þegar við færðum honum sælgætispoka frá Góu með mynd af jólasveini framan á. Í Úkraínu búa 42 milljónir manna og um 25% þjóðarinnar býr við samskonar aðstæður og Valentina. Það er átakanlegt til þess að hugsa að fólk búi við svo frumstæðar og ömurlegar aðstæður. Eftir heimsóknina til Valentinu hófumst við handa að ferja sendibílinn en 134 gjafir biðu afhendingar þann daginn.
Fyrsta heimsókn dagsins var í íþróttahús í Kirovograd. Þangað höfðu komið saman foreldrar sem eiga við mismikla fötlun að stríða og börn þeirra. Þau voru okkur mjög þakklát fyrir gjafirnar til barnanna sinna enda hafa þau ekki efni á að gefa börnum sínum jólagjafir. Það var dásamlegt að sjá gleðina úr andlitum barnanna þegar þau opnuðu gjafirnar sínar og foreldrar þeirra ljómuðu einnig og sjá mátti tár á hvarmi.
Næst lá leiðin til Mother‘s Heart samtakanna sem eru samtök einstæðra mæðra sem margar eiga fötluð börn. Samtökin reka einskonar frístundarheimili fyrir börnin sem er opið seinnipart dags og á laugardögum. Þetta var mjög fallegt hús og bjart yfir öllu, mikið lagt í skreytingar og allt mjög hátíðlegt og jólasveinninn (father frost) ásamt snjómeyju sinni (snow maiden) kíktu inn, við mikinn fögnuð viðstaddra. Mæðurnar voru einstaklega þakklátar fyrir gjafirnar og allan velviljann.
Við enduðum daginn á þremur heimsóknum til fjölskyldna sem eiga mikið fötluð börn og glíma við mikla fátækt. Þessar fjölskyldur höfðu ekki tök á að hitta okkur annars staðar en heima hjá sér. Fyrsta heimsóknin var í lítið hús sem hafði verið í eigu fjölskyldunnar frá árinu 1949. Þar deilir fimm manna fjölskylda einu svefnherbergi. Faðirinn er eini meðlimur fjölskyldunnar sem hefur tök á að starfa utan heimilisins og er hann í láglaunavinnu. Móðirin getur ekki unnið því hún er með fatlað barn í sinni umsjá, 12 ára dreng sem er algjörlega rúmfastur og eyðir deginum í litlu rimlarúmi. Þessi fjölskylda býr við mjög bág kjör og var salernisaðstaðan utandyra. Yngri sonur þeirra, 9 ára, gengur í skóla. Bræðurnir voru sælir með gjafirnar sínar og vöktu sápustykki, litir og litabók mikla ánægju hjá þeim, hlutir sem eru okkur svo sjálfsagðir.
Þá heimsóttum við hjón með tvo drengi en fjölskyldan býr ásamt ömmu og afa í 45 fm blokkaríbúð. Yngri drengurinn, 4 ára, fæddist með klofinn hrygg en hann getur farið á milli með aðstoða göngugrindar. Fjölskylda hans safnar nú fyrir aðgerð sem þau vona að hann komist í. Móðir þeirra er jafngömul okkur, 33 ára, og starfaði hún fyrir fæðingu yngri sonar síns sem leikskólakennari. Nú getur hún ekki verið á vinnumarkaðinum sökum lítils stuðnings við son sinn frá ríkinu. Það var gaman að sjá þegar bræðurnir opnuðu gjafirnar sínar og deildu sín á milli hlutum úr kössunum. Það var augljóst að mikill bræðrakærleikur ríkti á milli þeirra. 9 ára bekkjarfélagar eldri bróður drengsins höfðu föndrað fyrir okkur fiðrildi sem þakkir fyrir heimsóknina til fjölskyldunnar.
Síðasta heimsóknin þennan daginn var til fimm manna fjölskyldu. Faðirinn var í vinnu en móðirin, 36 ára, tók á móti okkur ásamt drengjunum sínum, 1 árs, 6 ára og 12 ára. Sá elsti er mikið fatlaður en hann fæddist með klofinn hrygg. Hann er vel gefinn og áhugasamur um nám. Hann fer í skóla ef veðrið er gott annars kemur kennari heim til hans. Hann kann litla ensku en langar að læra meira og sagði móðir hans okkur að hann hefði miklar áhyggjur af því að geta ekki spjallað við okkur. Hann hafði áhuga á að vita hvar Ísland væri staðsett á hnettinum og spurði einnig um jólavenjur okkar. Fjölskyldan hafði svo gaman af því að fá okkur í heimsókn.
Þriðji og síðasti dreifingardagurinn hófst á heimsókn til samtaka langveikra barna þar sem mörg hver barnanna eru heyrnarskert og einhverf. Búið var að tendra jólatré og var sungið og dansað í kringum tréð. Börnin voru hæstánægð með jólaballið og gjafirnar frá íslenskum vinum og færðu þau okkur teikningar í þakklætisskyni.
Þá lá leiðin í samkomuhús Royal Rangers sem eru samtök fyrir unglinga og er einskonar blanda af KFUM og KFUK og skátunum. Ungmennin fluttu fyrir okkur helgileik og fóru með skátaeyðinn sinn og bænir. Það var áhugavert og í senn ánægjulegt að fylgjast með Niel leiðtoga þeirra og eldmóði hans í starfi sínu.
Síðasta áfangastaður ferðarinnar var hjálpræðisherinn í Kirovograd en þangað hafa leitað fjölskyldur frá stríðshrjáðu svæði í austurhluta landsins, Donbass. Alls 20.000 fjölskyldur frá þessu svæði hafa flúið til Kirovograd en alls ekki öll fórnarlömb stríðsins hafa fjármagn til að komast frá svæðinu. Fjölskyldurnar sem við hittum gista ýmist á hótelum eða hjá kunningjum og vinum. Það var erfitt að hitta þessar fjölskyldur en þau voru svo óendanlega þakklát fyrir gjafirnar og þakkaði ein móðirin okkur sérstaklega vel fyrir dóttur sína sem hafði brosað þennan dag í fyrsta sinn í marga mánuði.
Meðan á dvöl okkar stóð hjá Ievgenii var óvenjufallegt veður. Það var mjög kalt en stillt veður og sólin skein allan tímann. Himnarnir glitruðu af snjókornum sem svifu um eins og kristallar. Það er einmitt rétt lýsing á því þegar snjókornin komast í snertingu við svo mikið frost en þá þéttast kornin og verða líkt og púðurkristallar í loftinu. Mjög ólík snjókornum sem við þekkjum frá Íslandi. Þetta var einstaklega töfrandi andrúmsloft og það ríkti allan tímann á meðan á dvöl okkar stóð og Ievgenii lýsti veðrinu sem guðsgjöf. Kveðjustundin á lestarstöðinni var erfið, en nú var ferðinni heitið heim til Íslands.
Það var afar ánægjulegt að fá tækifæri til að heimsækja Úkraínu, landið er fallegt og ríkt af náttúruauðlindum, fólkið er svo auðmjúkt og veðurfar hagkvæmt til ýmiskonar ræktunar. Það er ótrúlegt að árið 2016 ríki jafnmikil fátækt og raun ber vitni í svona frjósömu landi í Mið-Evrópu.
Við fundum fyrir miklu þakklæti og fólk var almennt undrandi yfir velvilja Íslendinga sem útbúa fallegar gjafir og senda til ókunnugra barna. Það veitir þeim ómetanlegan styrk í sinni fátæk og erfiða lífi að vita til þess að það sé til fólk í fjarlægu landi sem þykir vænt um þau og sýni þeim svo mikinn kærleika.
Takk fyrir elsku vinir og velunnarar fyrir að taka þátt í þessu fallega verkefni.
Fyrir hönd Jól í skókassa,
Áslaug, Dóra Sif og Rakel.