Jól í skókassa 2013

Börn svo sæl með sitt á barnaheimili í Úkraínu. Tóku á móti hópnum í þjóðbúningnum sínum.

30. desember 2013

Ferðin hófst snemma að morgni 30. desember en þann morgun áttum við flug til Úkraínu með millilendingu í Finnlandi. Við lendingu á flugvellinum í Kiev komumst við að því að taskan hennar Mjallar hafði ekki skilað sér. Það tók tíma að finna starfsmann á flugvellinum sem talaði ensku og svo að fylla út skýrslurnar. Starfsmaðurinn kvaddi okkur með þeim orðum að hún fengi töskuna á morgun. Við hittum Elenu, sem hafði verið sjálfboðaliði hjá KFUM og KFUK á Íslandi í heilt ár en hún sá um að sækja okkur, hugsa um okkur og koma okkur um borð í lestina til Kirovograd. Ferðalagið gekk áfallalaust fyrir sig enda hafði Elena séð um að lestarvörðurinn myndi vekja okkur á réttum tíma og sjá til þess að við færum úr lestinni á réttum stað. Það gekk allt eftir, faðirinn kom ásamt bílstjóranum og sótti okkur og við vorum komnar á prestsbústaðinn í Subotzki (rétt fyrir utan Kirovograd) um kl. 4:00 að staðartíma, eftir um það bil 20 klukkustunda ferðalag.

31. desember 2013

Á gamlársdag fórum við í heimsókn á leikskóla í nágrenni við prestsbústaðinn. Skólinn var byggður árið 1974, á Sovíettímanum og húsið reisulegt eftir því. Það er þó farið að láta á sjá og öll tæki komin til ára sinna. Ríki og sveitarfélag neita að styrkja starfsemina og því er hún rekin af foreldrum. Í leikskólanum eru 92 börn. Við hittum um það bil helming þeirra þennan dag. Börnin tóku á móti okkur í þjóðbúningum og fluttu fyrir okkur ljóð eða ættjarðarsöngva sem fjölluðu um hvað Úkraína er dásamlegt land. Við afhentum þeim pakkana og og fylgdumst með þeim opna þá. Þegar börnin fóru að tínast burt fengum við skoðunarferð um skólann. Það er alltaf gaman að skoða skólabyggingar og þá sérstaklega í annarri menningu sem er talsvert frábrugðin þeirri íslensku. Okkur fannst sandurinn í sandkassanum til dæmis frekar skrítinn en hann var ljósbrúnn (appelsínugulur) og skrítin áferð á honum. Faðir Evgheniy kom hingað til lands fyrir nokkrum árum og sá þá meðal annars sandkassa og hann nefndi að honum þætti sandurinn í okkar sandkössum mjög óspennandi, svartur og kaldur og laus í sér. Seinna þennan sama dag fórum við í stórmarkað og keyptum inn klósettpappír, þvottaefni, uppþvottalög, ljósaperur og ýmislegt fleira fyrir geðsjúkrahúsið sem ætlunin var að heimsækja seinna í vikunni.

Þóra og Telma fylltu körfurnar af þvottaefni og öðrum nauðsynjum fyrir barnaheimilin.

Þóra og Telma fylltu körfurnar af þvottaefni og öðrum nauðsynjum fyrir geðsjúkrahús sem þær heimsóttu.

Áramótamaturinn var á dagskrá kl. 22 þetta kvöld og hann samanstóð af úkraínskum og rússneskum réttum eins og kartöflurétti, salati með súrum gúrkum og lax með ólífum. Við skáluðum (Íslendingar í vatni, Úkraínubúar í kampavíni) fyrir nýju ári og fengum svo dásamlega tónleika frá heimasætunni.

01. janúar 2014

1.janúar byrjuðum við á að hlaða kössum inn í bílinn ásamt því að setja allar hreinlætisvörurnar inn í bíl. Við fórum á munaðarleysingjaheimili þar sem börnin stoppa aðeins í örfáa mánuði, þangað til önnur úrræði finnast handa þeim. Við gáfum börnunum gjafir og fylgdumst með þeim opna þær. Forstöðumaður heimilisins fór með okkur í skoðunarferð um húsið og sýndi okkur allt það sem var að, rúm barnanna voru orðin léleg og brotin á mörgum stöðum ásamt því að margt í eldhúsinu er orðið lélegt/ónýtt. Við skildum reyndar ekki orð af því sem hann sagði því hann talaði bara rússnesku en kom flestu til skila með handapati og bendingum. Einnig sýndi hann okkur herbergi sem var verið að gera upp en verkefnið gaf peninga til þess að kaupa gólflista og dúk á gólfið. Við fengum að fara inn í vistarverur yngstu barnanna sem voru í óða önn að taka upp pakkana sína og við fengum að taka þátt í gleðinni með þeim! Það var ótrúlega gaman!

Jól í skókassa 2013

Faðir Evgheniy situr þarna í rúmi fyrir börn á einum af spítölunum í Úkraínu.

02.janúar 2014

Þann 2.janúar fórum við á bókasafnið í miðborg Kirovograd þar sem hjálparsamtökin Mother’s Heart biðu eftir okkur. Börnin sem við hittum þar voru mörg hver mikið fötluð, sjónskert og jafnvel blind. Þessi börn voru á aldrinum 3-12 ára og voru alveg hreint dásamleg. Við afhentum öllum börnunum gjafir og þau opnuðu þær. Gleðin var ótrúlega mikil og sérstaklega yfir hlutum sem okkur finnast svo sjálfsagðir eins og tannburstar, tannkrem og húfur! Við fórum og fengum okkur ekta úkraínskan hádegismat, vareniki, á veitingastað í nágrenni bókasafnsins og maturinn smakkaðist alveg ljómandi vel. Við fórum svo aftur á bókasafnið og hittum önnur hjálparsamtök þar sem börnin voru aðeins eldri og mörg þeirra mikið hreyfihömluð. Mörg voru í hjólastólum, gömlum og stórum sem taka mjög mikið pláss. Önnur voru í kerrum og nokkur voru með stórar og ómeðfærilegar göngugrindur. Í þessum hópi voru nokkur sem voru í kór og þau sungu fyrir okkur nokkur lög ásamt því að við heyrðum jólaguðspjallið á rússnesku. Þetta var mjög skemmtileg stund og gaman að fylgjast með börnunum og unglingunum taka upp pakkana sína.

Jól í skókassa 2013

Heimsókn á munaðarleysingaheimili þar sem allir strákar eru í sokkabuxum og stuttbuxum. Þessir voru svo glaðir yfir sínum gjöfum.

03.janúar 2014

Þann 3.janúar fórum við á annað barnasjúkrahús í Kirovograd. Það sjúkrahús virðist vera meira langlegusjúkrahús og börnin koma þangað aftur og aftur, eru þá inni í eina til tvær vikur í sjúkraþjálfun og fara svo heim og koma aftur eftir 2-3 mánuði. Aðstaðan þar er ágæt en þó er margt ábótavant sérstaklega voru rúmin slæm. Við áttum mjög góða stund með um það bil 20 börnum, nokkrum foreldrum og starfsfólki sjúkrahússins. Seinnipartinn fórum við svo á munaðarleysingjaheimili fyrir ung börn. Þar hittum við 12 börn og eyddum með þeim góðum tíma við að opna pakka, leika með dótið, púsla og ýmislegt fleira. Það var alveg frábært og við vildum allar vera þarna lengur.

04.janúar 2014

Fjórði janúar átti að vera frídagur en við Íslendingar viljum bara “work work work” og því var faðir Evgheniy búinn að finna handa okkur verkefni. Fyrst af öllu fórum við samt og fengum töskuna hennar Mjallar sem skilaði sér loksins til Kirovograd. It’s Ukraine baby! Við fórum á jólahátíð í sérskóla, þar sem nemendurnir eru meðal annars heyrnarskertir, einhverfir og sjónskertir. Við fengum að sjá brúðuleikhús og gáfum svo börnunum kassana sína.

Einfaldur tannbursti getur veitt gríðarlega gleði þar sem oft er skortur á þeim fyrir þessi börn.

Einfaldur tannbursti getur veitt gríðarlega gleði þar sem oft er skortur á þeim fyrir þessi börn.

Faðirinn hafði svo haft samband við eina af konunum sem fer fyrir Mother’s Heart samtökunum og hún var búin að finna sex börn sem við heimsóttum og gáfum gjafir. Þessi börn eru mikið hreyfihömluð og fara flest sjaldan út úr húsi. Þessi kona fór með okkur í allar heimsóknirnar en talaði ekki stakt orð í ensku og því skildum við mjög lítið af því sem fram fór á milli foreldranna og hennar. Fyrsta stúlkan sem við heimsóttum var um 10 ára og var með klofinn hrygg. Hún var með rimla og æfingagræjur heima hjá sér. Þegar við heimsóttum hana var hún tiltölulegan nýkomin úr aðgerð. Næst heimsóttum við tvítugan dreng sem var lamaður frá hálsi og niður. Hann var fimleikamaður og margfaldur meistari í fimleikum þegar hann lenti í óhappi á æfingu og hálsbrotnaði. Mamma hans sýndi okkur verðlaunapeningana hans og bikarana og viðurkenningaskjölin hans og var mjög stolt af stráknum sínum. Hann var með smákraft í höndunum og náði að hnykkla upphandsleggsvöðvana aðeins fyrir okkur. Þriðja heimsóknin var til tveggja systra, 4 ára og 12 ára. Sú eldri var mikið fötluð, blind og rúmföst.Yngri systirin var glöð með pakkann sinn og mamman var glöð með pakkann til þeirrar eldri. Fjórða heimsóknin var til 10 ára stúlku sem var mjög mikið fötluð, hún talaði hvorki né gekk. Hún var mjög glaðlynd og ánægð með pakkann sem hún fékk og mamma hennar hjálpaði henni að opna.

Jól í skókassa 2013

Heimsóttum þennan unga mann sem hafði lamast fyrir neðan háls á fimleikaæfingu fyrir örfáum árum síðan. Móðir hans stendur hjá honum stolt af syni sínum.

 

Við heimsóttum svo dreng sem líka var mikið hreyfihamlaður og þroskaskertur. Hann átti litla systur sem fékk líka pakka. Hann fékk að auki lopapeysu og mamman var mjög ánægð með það. Við sátum með þeim smástund og ein okkar fékk gott knús frá stráknum og önnur frá litlu systurinni. Síðasta heimsóknin var upp á 9.hæð í rússablokk þar sem við hittum hressan 8 ára strák. Hann var þvílíkt ánægður með að fá jólapakkann og var búinn að læra smá ensku í tilefni af heimsókn okkar. Við áttum góða stund með foreldrunum og drengnum sem hafði svo gaman af því að fá okkur í heimsókn. Eftir langan og strangan dag fórum við heim á prestsetrið og áttum síðustu kvöldmáltíðina með yndislegu gestgjöfum okkar. Morguninn eftir var vakning klukkan 5 og ferðin heim hófst.

Myndir frá dreifingu er hægt að skoða hér!

Ferð Mjallar, Telmu Ýrar og Þóru Jennyar fyrir hönd Jól í skókassa til Úkraínu 30.12’13 – 5.1’14.

Stúlka svo þakklát fyrir pakkann að hún kyssti hann áður en hún opnaði kassann

Þessi snúlla kyssti gjöfina sína þegar henni var afhent hún