Það má segja að sumir hugsi út fyrir kassann og hafa þannig náð að gera gott verkefni enn betra. Með því að bæta við endurvinnslu og gera meira úr samvinnunni í söfnuninni þá er þetta tekið skrefinu lengra og Jól í skókassa orðið að söfnunarátaki hjá sumum.
Í seinustu viku fengum við heimsókn frá Leikskólanum Gullborg þar sem að sannkallaðir gullmolar safnast saman. Þau sögðu okkur frá þeirra skipulagi fyrir skókassasöfnuninni og við bara urðum að deila þeirri góðu hugmynd með sem flestum. Ferlið þeirra spannaðist yfir fimm vikur og mikil gleði og spenna hafði þá myndast hjá börnunum fyrir verkefninu Jól í skókassa.
Þetta er tilvalið fyrir aðra hópa að hafa í huga fyrir næsta ár eða jafnvel fjölskyldur að taka þetta upp. Sameiginleg vinna eins og þessi skapar mikla stemmningu fyrir jólunum, kennir börnunum að endurvinna, sýnir þeim hvað það er mikil þörf í heiminum og síðast en ekki síst hvað það er gott að gleðja aðra.
Saga Gullborgar:
Í upphafi skoðaði hópurinn myndir frá verkefninu Jól í skókassa frá fyrri árum, ræddi hvaða leiðir væri hægt að fara í að safna peningum fyrir þeirra kössum. Ákveðið var síðan að semja bréf til foreldra og safna flöskum og dósum heima fyrir. Börnin komu síðan með afraksturinn í leikskólann þar sem allir hjálpuðust að við að flokka og telja.
Næst á dagskrá var að halda með flöskurnar á Sorpu og breyta þeim í peninga. Þegar peningarnir voru komnir í hús þá sáu þau að það var búið að safna meiri pening en gert var ráð fyrir og því hægt að senda fleiri kassa en áætlað var.
Því næst fór hópurinn saman í Kringluna með innkaupalista og verslaði í kassana. Allir hjálpuðust síðan að við að pakka kössunum inn og raða vandlega í þá. Þau ætluðu að senda 2 kassa en þetta gekk svo vel að þau enduðu á að skila inn 7 kössum.
Að lokum kom hópurinn hingað í hús KFUM og KFUK til skila saman kössunum og fá kynningu á verkefninu frá æskulýðsfulltrúunum.