Það fóru margir kassar um hendur fjölmargra sjálfboðaliða verkefnisins Jól í skókassa sl. laugardag þegar lokaskiladagur var í Reykjavík í húsi KFUM og KFUK. Eins og fyrri ár gekk verkefnið vel en hægt var að koma kössum til skila um allt land. Var þetta í tíunda skipti sem jólagjöfum var safnað fyrir munaðarlaus og fátæk börn í Úkraínu.
Lokaskiladagurinn gekk mjög vel og mörg hundruð manns lögðu leið sína í hús KFUM og KFUK til þess að skila kössum. Sumir stöldruðu við, þáðu léttar veitingar, horfðu á myndasýningu eða lásu ferðasöguna frá síðustu úthlutun í janúar sl. Eitt það skemmtilegasta við lokaskiladaginn er að sjá börnin koma færandi hendi með gjafir sem þau hafa sjálf átt þátt í að gera, og einnig er gaman að heyra foreldra segja frá því að Jól í skókassa sé orðin ein af jólahefðum á heimilinu og að börnin þeirra þekki ekkert annað. Já, það má með sanni segja að jólaundirbúningurinn hjá mörgum íslenskum fjölskyldum byrji með því að útbúa kassa fyrir Jól í skókassa.
Vinna sjálfboðaliðanna gekk vel á laugardagskvöldi og við náðum að klára að fara yfir alla kassana, ganga frá og þrífa húsið áður en klukkan sló tólf á miðnætti. Á mánudeginum komu svo nokkur okkar saman aftur til þess að klára að fara yfir kassa sem höfðu borist of seint. Síðustu tvö brettin fóru í gáminn sem var orðinn fullur. Á þriðjudagsmorgni hófst svo ferðalag gámsins frá Holtaveginum til Khirovograd í suðurhluta Úkraínu. Alls söfnuðust 4.586 kassar þetta árið og erum við mjög sátt við þann fjölda.
Við sem stöndum að verkefninu viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í verkefninu. Einnig viljum við þakka öllum sjálfboðaliðum um allt land sem lögðu hönd á plóg á einn eða annan hátt. Einng viljum við þakka þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem studdu verkefnið sérstaklega með gjöfum, fjárstyrkjum eða vinnuframlagi sínu.
Guði séu þakkir fyrir flott verkefni, allar gjafirnar fyrir börnin og fyrir alla þá sem komu að verkefninu á einn eða annan hátt.
Hægt að skoða myndir frá söfnuninni hér.