Kæru vinir og velunnarar Jól í skókassa
Við óskum ykkur gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir allar gjafirnar og vinnuna sem þið hafið lagt fram.
Okkur langar til að segja ykkur nýjustu fréttir. Fjórir fulltrúar verkefnisins fóru til Úkraínu 30. desember og komu heim aftur 6. janúar. En eins og eflaust mörg ykkar vita þá er 7. janúar jóladagur í Úkraínu. Að venju bjuggu fulltrúar okkar hjá föður Evheniy Zhabkovskiy sem er helsti tengiliður okkar í Úkraínu. Farið var í heimsóknir á munaðarleysingjaheimili, sjúkrahús og fleiri staði eins og venja er. Það má með sanni segja að ferðin sjálf hafi gengið vel.
Hins vegar erum við með þær slæmu fréttir að gámarnir tveir sem fóru frá Reykjavík um miðjan nóvember voru ennþá fastir í tollinum hjá yfirvöldum í Úkraínu þegar fulltrúar Jól í skókassa mættu til Úrkaínu. Við vitum það af reynslu okkar í gegnum árin að við þurfum að senda gámana snemma til Úkraínu m.a. vegna þess að kerfið þarna úti er svolítið flókið.
Var allt gert sem í okkar valdi stóð til að vinna í þessu máli. Bæði sendi faðir Evheniy póst til yfirvalda í Úkraínu og einnig fengum við góða hjálp frá utanríkisráðuneytinu á Íslandi sem sendi bréf til viðkomandi ráðuneytis í Úkraínu þar sem óskað var eftir úrlausn mála. Þannig er mál með vexti að þingkosningar voru í Úkraínu í október sl. og það er komin ný ríkisstjórn með nýjum ráðherrum og það á m.a. eftir að ráða nýtt fólk í starfshópinn sem sinnir mannúðarmálum. Ný ríkistjórn þýðir nýtt vinnufyrirkomulag. Þannig að allir sendingar og gámar sem tengjast mannúðarmálum eru fastir á meðan staðan er svona, ekki bara okkar gámar.
Það jákvæða í þessu öllu er þó það að þessi þrýstingur hafði þau áhrif að fulltrúar okkar ásamt heimamönnum fengu leyfi til að tæma gámana og koma innihaldi þeirra fyrir í sömu vörugeymslunni í Khirovograd og var notuð í fyrra, en það er mun betri geymslustaður en gámarnir. Einnig fékkst leyfi til þess að fá 50-80 kassa sem var dreift á munðarleysingjaheimili. Sömuleiðis fékkst leyfi til að dreifa fangelsiskössunum sem er hliðarverkefni með Jól í skókassa. Staðan í dag er þannig að verið er að vinna í þessum málum í samvinnu við íslenska utanríkisráðuneytið og ræðismann Íslands í Kænugarði, ásamt heimamönnum.
Því miður eru þetta ekki þær fréttir sem við vildum færa ykkur en svona er staðan. En kassarnir eru á öruggum stað í læstri vörugeymslu og þegar tollayfirvöld í Kænugarði eru búin að leysa úr sínum málum og gefa okkur formlegt leyfi til dreifingar þá munu heimamenn á okkar vegum með föður Evheniy í broddi fylkingar byrja á úthlutun og dreifingu kassanna. Börnin í Úkraínu fá sína jólagjöf en hún verður síðbúin í ár. Við munum svo láta ykkur vita um stöðu mála um leið og við fáum nýjar fréttir. Einnig mun ferðasaga frá þessu ævintýri birtast fljótlega á heimasíðu verkefnisins.
Fyrir hönd Jól í skókassa,
Salvar Geir Guðgeirsson.