Margir hafa lagt leið sína í KFUM og KFUK húsið við Holtaveg í dag og lagt jólaskókassa til verkefnisins Jól í skókassa, en lokaskiladagur verkefnisins er á morgun, laugardaginn 10. nóvember milli kl. 11-16 í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg. Á meðal þeirra sem komu með kassa voru krakkar úr Waldorfskólanum í Sóltúni sem sjá má hér að ofan.
Þá komu krakkar úr leikskólanum Jörfa, bæði í dag og í gær. Mýrarhúsaskóli sendi flutningabíl fullan af pökkum og eins Hraunvallaskóli. Nokkrar stelpur úr Garðaskóla komu færandi hendi og eins krakkar úr leikskólanum Regnboginn og frá leikskóla KFUM og KFUK – Vinagarði. Þá má ekki gleyma að kössum hefur verið safnað víðar en í KFUM og KFUK húsinu við Holtaveg en í vikunni sem er að líða var kössum safnað um land allt, er Flytjanda þökkuð aðstoðin við að koma öllu í tíma í hús KFUM og KFUK við Holtaveg.
Við þökkum einnig öllum sem hafa þegar lagt leið sína inn á Holtaveg með góða gjöf sem mun vafalaust gleðja þegar hún kemur á áfangastað, og minnum aftur á að lokafrestur til að skila jólagjafaskókössum er laugardaginn 10. nóvember milli kl. 11-16 í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg.