Í kvöld, þriðjudaginn 2.nóvember, verður að venju AD KFUK-fundur á Holtavegi 28 í Reykjavík, kl.20. Efni fundarins er verkefnið Jól í skókassa, sem er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn og fullorðna til þess að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Jól í skókassa hefur sent allar sínar gjafir til Úkraínu og svo verður einnig í ár. Skókössunum sem safnast í ár verður m.a. dreift á heimili fyrir munaðarlausa, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra.
Það var biblíuleshópurinn „Bleikjan“ sem byrjaði með Jól í skókassa – verkefnið, en hann samanstendur af ungum einstaklingum innan KFUM og KFUK. Á AD-fundinum í kvöld munu meðlimir Bleikjunnar vera með kynningu á verkefninu og sýna myndir frá afhendingu skókassanna í Úkraínu um síðustu jól.
Söfnun á skókössum er nú í fullum gangi. Hægt er að koma með skókassa í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 alla virka daga, þar sem opnunartími er frá kl.9 til 17. Lokaskiladagur verkefnisins á höfuðborgarsvæðinu er laugardagurinn 6. nóvember, í húsi KFUM og KFUK (gegnt Langholtsskóla), frá kl. 11:00 til kl. 16:00 og verða léttar veitingar í boði, auk þess sem boðið verður upp á myndasýningu frá afhendingu skókassa frá síðustu jólum í Úkraínu.
Þeir sem taka þátt í verkefninu verða sér úti um skókassa og fóðra kassann og lokið að utan með jólapappír og svo eru settar ýmsar vörur í kassann við hæfi í samræmi við aldur og kyn barnsins. Nánari upplýsingar um frágang kassanna, og tilhögun (auk almennra upplýsinga um verkefnið) er að finna á heimasíðu verkefnisins:
http://skokassar.net . Einnig er Jól í skókassa á Facebook.

Jól í skókassa – verkefnið er unnið í samstarfi við KFUM og KFUK á Íslandi og þetta er í sjöunda skiptið sem það er framkvæmt. Síðan verkefnið hóf göngu sína hefur rúmlega 21.000 gjöfum verið safnað.
Að fundi loknum verður kaffi og kaffiveitingar til sölu á vægu verði, og fundargestir eru hvattir til að staldra við og eiga góða stund saman. Allar konur, á öllum aldri, eru hjartanlega velkomnar.
Fundir AD KFUK eru öll þriðjudagskvöld í vetur í félagshúsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík kl.20. Allar konur, á öllum aldri, eru hjartanlega velkomnar á fundina. Nánari upplýsingar um AD-starf er að finna hér:
www.kfum.is/ad-og-fjolskyldustarf/