Myndir frá 6.-7. degi má sjá á slóðinni:
http://www.flickr.com/photos/vatnaskogur/sets/72157627051587032/with/5872772425/.
—
Fyrir tæpum 6 árum fylgdi ég konunni minni á fæðingardeild Landspítalans, enda komið að fæðingu sonar okkar. Ljósmóðir tók á móti okkur, vísaði okkar inn á stofu og spurði hvort að það væri í lagi að læknanemi væri viðstaddur og aðstoðaði við fæðinguna. Konunni minni þótti það sjálfsagt mál svo ljósmóðirin kallaði á læknanemann, sem kom inn á stofuna á kynnti sig. Eftir að við höfðum kynnt okkur horfði neminn stutta stund á mig og spurði svo: "Ert þú ekki Elli, foringinn minn úr Vatnaskógi?"
Nú er enn einum flokknum að ljúka í Vatnaskógi. Drengir með vonaríka framtíð og hafsjó tækifæra fara héðan eftir vikudvöl. Í gær las ég fyrir drengina orð úr Spádómsbók Jeremía sem er í Gamla Testamentinu: "Ég þekki þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki óhamingju, að veita yður vonaríka framtíð."
Dagskráin í gær einkenndist af samantekt, uppskeruhátið. Við glöddumst yfir góðum afrekum. Kláruðum mót og keppnir, áttum góða stund saman sem endaði með alsherjar "orustuleik" eða "batli" í sal íþróttahússins, þar sem foringjar og drengir skipuðu sér saman í lið eftir borðum. Á milli orustulota var boðið upp á kvikmynd, popp og djús. Dagskráin stóð vel fram yfir miðnætti og drengirnir sváfu síðan út í morgun.
Dagskráin í dag verður stutt, en í skógarmannamessu í dag, munum við horfa til "vonaríkrar framtíðar". Hvernig, ef við trúum því að góður Guð hafi skapað allt, getum við lifað í þakklæti til skaparans? Hvernig getum við stuðlað að "vonaríkri framtíð" ekki aðeins fyrir okkur sjálfa heldur alla sem við mætum?
Því þrátt fyrir allar keppnirnar, orusturnar, bátsferðirnar, göngurnar, knattspyrnuleikina, ævintýrin og gamanleikritin. Þá vona ég fyrst og fremst að dvölin í Vatnaskógi, veki, haldi við, glæði eða styrki viljann til að gera það sem gott er, Guði til dýrðar og sköpun Guðs til uppbyggingar.
Dvölin í Vatnaskógi var sjálfsagt ekki vendipunktur í ákvörðun 10 ára drengs að verða læknir, láta gott af sér leiða, taka þátt í að færa nýtt líf í heiminn. En ég get leyft mér að gleðjast yfir að mörgum mörgum árum síðar, þá mundi hann eftir mér. Ég hafði spilað eitthvað örlítið hlutverk í mótun ungs drengs, sem síðar átti eftir aðstoða við eina af mikilvægustu stundum míns lífs.
Ég veit ekki hvað framtíðin mun bera í skauti sér fyrir drengina sem hafa verið hér þessa viku, en ég bið og vona, að orðin úr Jeremía spámanni rætist í lífi þeirra allra, að framtíð þeirra sé vonarík og björt.
Hægt er að ná í forstöðumann á netfanginu
elli@vatnaskogur.net.