Sportfélag KFUM & KFUK er opinn göngu- og útivistarhópur innan KFUM & KFUK á Íslandi sem skipuleggur göngur og aðrar útivistarferðir allt árið um kring. Sportfélagið byggir á sama grunni og KFUM & KFUK á Íslandi og starfar innan vébanda þess. Starf KFUM og KFUK snýr að því að byggja fólk upp til líkama, sálar og anda, enda táknar þríhyrningurinn í merki félagsins þetta þrennt. Sumar af ferðum þessa hóps eru á einhvern hátt tengdar kristilegu trúarlífi eða kristilegum viðburðum. Allir í hópnum geta skipulagt göngur eða aðrar útivistarferðir og eru hvattir til þess en miða þarf þá leiðina við reynslu og þekkingu skipuleggjanda. Fólk tekur þátt í ferðum á eigin ábyrgð og er ekki tryggt sérstaklega í þessum ferðum eða farangur þess. Þátttakendur er því hvattir til að kaupa ferða- og slysatryggingar og hafa samband við tryggingafélag sitt varðandi nánari upplýsingar þar að lútandi. Allir eru velkomnir á viðburði félagsins, jafnt félagsmenn í KFUM og KFUK, sem og annað áhugafólk um útivist. Hundar í taumi eru velkomnir í ferðir en eru þá á ábyrgð eigenda þeirra. Fólk er hvatt til að deila myndum og frásögnum úr ferðum félagsins, inn á Facebook síðu félagsins. Þriggja manna stjórn heldur utan um starfsemi félagsins.