Æskulýðsvettvangurinn
KFUM og KFUK tekur virkan þátt í starfi Æskulýðsvettvangsins (ÆV).
Æskulýðsvettvangurinn var stofnaður árið 2007 af Ungmennafélagi Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi og Bandalagi íslenskra skáta. Slysavarnarfélagið Landsbjörg komu inn í samstarfið 2011 sem fjórðu aðildarsamtökin.
Markmið Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna á sviði leiðtogaþjálfunar, fræðslumála, útbreiðslu og kynninga og á öðrum sviðum eftir því sem þurfa þykir.
Meðal verkefna á borði Æskulýðsvettvangsins má nefna námskeiðin Verndum þau, Átak gegn einelti og Kompás. Þá starfar Fagráð um meðferð kynferðisafbrota innan vettvangsins.
Nánari upplýsingar um Æskulýðsvettvanginn má fá á vefsíðunni http://www.aeskulydsvettvangurinn.is.
Fræðslusvið Biskupsstofu
Fræðslusvið biskupsstofu ber ábyrgð á stefnumörkun í fræðslumálum þjóðkirkjunnar og er leiðtogafræðsla mikilvægur hluti þeirrar stefnu. Það gefur auga leið að kirkjan og KFUM og KFUK hafa að mörgu leyti sömu þarfir þegar kemur að leiðtogaþálfun og hafa átt gott samstarf til fjölda ára. Reglulega eru námskeið haldin í samstarfi KFUM og KFUK, Biskupsstofu, ÆSKR og Kjalarnesprófastsdæma.
ÆSKR
Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum hefur að gera með þjálfun leiðtoga í kirkjulegu starfi auk þess sem það skipuleggur sameiginleg verkefni fyrir ungt fólk á vegum safnaða þjóðkirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu. Eins og nefnt er hér að ofan kemur ÆSKR reglulega að skipulagi leiðtoganámskeiða í samstarfi við Biskupsstofu, Kjalarnesprófastsdæmi og KFUM og KFUK.
Kjalanesprófastsdæmi
Kjalarnesprófastsdæmi er eitt af 15 prófastsdæmum Íslands en í því eru 17 sóknir. Kjalarnesprófastsdæmi leggur mikið upp úr æskulýðsstarfi og þjálfun leiðtoga og hefur verið samstarfsaðili KFUM og KFUK að sameiginlegum leiðtoganámskeiðum líkt og Fræðslusvið biskupsstofu og ÆSKR.
Æskulýðsráð ríkisins
Æskulýðsráð ríkisins starfar á vegum menntamálaráðuneytisins og fjallar það um mál tengd æskulýðsstarfi um allt land. Fyrir nokkrum árum kom æskulýðsráð að útgáfu bókarinnar Verndum þau sem fjallar um ofbeldi gagnvart börnum og leiðir til þess að bregðast við þeim. Í kjölfarið hefur æskulýðsráð hvatt og styrkt æskulýðssamtök til að halda námskeiðin Verndum þau og heldur Æskulýðsvettvangurinn nokkur slík námskeið árlega. Öllum sem starfa að æskulýðsstarfi innan KFUM og KFUK ber skylda til þess að sitja námskeiðið Verndum þau.