Ársól björt um landið ljómar!
Fornrar tíðar frelsis mál
Færir vakning ungri sál;
Nýja tímans töfrahljómar
Tendra’ í hjörtum vonar-bál.
Rísum því með gleði gný,
Grípi’ oss alla hrifning ný,
Fylkjum oss um fánann brátt,
Frelsismerkið reisum hátt;
Beri’ oss áfram brennheit trú,
Brunum fram til verka nú,
Ekkert hræðumst,
Allir þræðum
Upp til hæða
Djarft með söng
Gegnum þröng
Gljúfragöng.
Vinnum heit á vonarstundu,
Fylgjum því sem fagurt er,
Fórnum því sem vera ber
Fyrir vora fósturgrundu,
Framar enginn hlífi sjer!
Starfi hver með fullu fjöri!
Máli góðu leggi lið,
Leti og deyfð ei veitist grið,
Sjerhver skyldu sína gjöri;
Sæmd þar hvers eins liggur við.
Fyrir Guð og ættjörð iðjum!
Ekkert hálft og ekkert deilt,
Ekkert kveifarlegt og veilt!
Um það biðjum, að bví styðjum,
Að allt sje göfugt, satt og heilt.
(Úr Mánaðarblaði K.F.U.M. í Reykjavík, 1. árgangur 1926, 5. tölublað)
Undirleikur úr safni Skógarmanna KFUM í Vatnaskógi. Upptaka af flutningi Hilmars Einarssonar.