Ritningartexti: Mt 7.24-27
Áhersluatriði
Hver manneskja þarf á því að halda að eiga traustan grunn að lífi sínu. Jesús er bjargið sem byggja má á.
Um textann
Sum hús á Íslandi eru mjög gömul, jafnvel eldri en hundrað ára. Víða erlendis má sjá enn eldri hús. Ef hús á að standa lengi þarf að vanda til verksins. Huga þarf vel að undirstöðunni. Húsið verður að standa á traustum grunni. Dæmisagan fjallar samt ekki um byggingaverkfræði, hún er líking um lífið.
Það eru til sögur um fólk sem byggir líf sitt á mistraustum grunni. Maður einn byggði líf sitt á útlitinu. Hann var vel byggður og glæsilegur. Hann var vinsæll og margir vildu vera vinir hans. Fólk horfði á eftir honum á götu og hann fékk athygli sem aðra gat aðeins dreymt um. En svo gerðist nokkuð. Maðurinn veiktist og líkamsbygging hans breyttist. Hann gat ekki lengur þjálfað vöðvanna eins og áður og andlitsfallið breyttist. Hann var ekki lengur talinn jafn glæsilegur og áður. Vinunum fækkaði og maðurinn var ekki jafn hamingjusamur og áður, enda hafði hann treyst alfarið á glæsileika sinn.
Kona nokkur byggði líf sitt á peningum. Hún var mjög rík og gat keypt allt sem hugurinn girntist. Hún fór í dýr ferðalög til útlanda, keyrði dýran bíl og bjó í dýru húsi. Síðan gerðist það sem hún hafði talið óhugsandi. Hún tapaði peningunum og þurfti að selja bílinn og húsið. Nú gat hún ekki gert allt sem hún vildi áður. Lífið hafði misst skemmtanagildi sitt. Hún hafði lagt allt sitt traust á peninga.
Ef við byggjum líf okkar á Kristi, þá verður hann ekki frá okkur tekinn. Ef við bjóðum Jesú í hjarta okkar og byggjum líf okkar á trausti til hans þá stöndum við á traustum grunni sem stendur styrkur þó að á móti blási. Eitt sinn munu allir deyja og í dauðann tökum við ekkert með, nema trúna á Jesú Krist, allt annað verður skilið eftir.
Popptenging
Kvikmynd – Notting Hill
Í kvikmyndinni Notting Hill með Julia Roberts og Hugh Grant kemur fyrir atriði þar sem ung leikkona (leikin af Julia Roberts) lýsir á dramatískan hátt hvernig útlit hennar og hæfileikar muni breytast til verri vegar, frægðarsól hennar muni setjast og hún verði öllum gleymd. Atriðið hefst í kringum 43 mínútu og er um ein og hálf mínúta.
Kvikmynd – Forrest Gump
Í kvikmyndinni Forrest Gump ákveður aðalpersónan (leikinn af Tom Hanks) að hlaupa af stað. Hann hleypur nokkrum sinnum þvert yfir Bandaríkin. Á hlaupunum safnast að honum hópur aðdáenda sem fylgir honum í blindni. Eftir nokkurn tíma uppgötvar Forrest Gump að hann sé orðinn þreyttur á hlaupunum og ákveður að halda heim. Þegar hann gengur í gegnum hóp áhangendanna sinna hrópar einn þeirra að honum. „Hvað eigum við að gera núna?“
Leikur
Hver er stjórnandinn?
Allir þátttakendur sitja saman í hring. Stólarnir eru einum færri en þátttakendur. Ein(n) er valin(n) til að fara fram. Á meðan viðkomandi er frammi, er ein(n) valin(n) til að vera stjórnandinn. Hinir þátttakendurnir eiga síðan að hreyfa sig eins og sá sem stjórnar, en verða að gæta sín á að horfa ekki of stíft á stjórnandann.
Þegar einstaklingurinn sem fór fram, kemur aftur inn þurfa allir að sitja í sömu stellingu. Fljótlega þarf stjórnandinn að gera einhverja hreyfingu, svo sem krossleggja fætur, klappa höndum eða setja aðra hönd á höfuðið. Sá sem fór fram á að reyna að komast að því hver stjórnandinn er. Mikilvægt er að stjórnandi sé duglegur að hreyfa sig. Hægt er að endurtaka leikinn nokkrum sinnum.
Nálgun á leikinn: Hver/hvað er fyrirmynd okkar? Hver/hvað stjórnar lífi okkar? Treystum við kannski á eitthvað sem ekki er þess virði?
Hnefi og lófi
Í Kompásefninu á bls. 58 er leikur sem reynir á heiðarleika og traust. Leikinn má einnig nota í tengslum við fræðslustundina um heiðarleika. Það er samt ekki hægt að nota hann tvívegis fyrir sama hóp. Ekki er nauðsynlegt að gefa leiknum jafn langan tíma og tekinn er fram í efninu.
Frásögn – Loftfimleikar
Frásagan er tekin úr bókinni „Illustrations, Stories and Quotes to Hang Your Message On“. Upplýsingar vantar um þýðanda.
Einn besti línudansari allra tíma var Charles Blondin. Hann lét m.a. strengja reipi þvert yfir Niagarafossanna á landamærum Bandaríkjanna og Kanada. Fólk kom víða að til að verða vitni að þessari glæfralegu tilraun Charles til að komast yfir.
Áhorfendur héldu niður í sér andanum þegar hann steig út á reipið. Hann hélt á 13 metra langri jafnvægisstöng sem vóg 20 kg. Á meðan Charles gekk eftir reipinu gerðust áhorfendur æ háværari og hrópuðu, „Blondin, Blondin, Blondin…“ Þá rétti Charles Blondin upp hönd og bað um þögn. Hann spurði áhorfendur: „Hverjir halda að ég geti gengið eftir reipinu með mann á bakinu?“
Fyrst sagði enginn neitt, svo hrópaði einn úr hópnum: „Ég er viss um að þú getir það.“ Í kjölfarið hrópuðu fleiri og fleiri „já, þú getur það.“
Charles spurði því næst áhorfendaskarann. „Hver vill vera á bakinu mínu á leiðinni yfir fossana?“ Allir þögnuðu snarlega. Allir sögðust treysta honum, en enginn þorði að láta reyna á það sama traust.
Charles benti á einstaklinga í hópnum og spurði hvort þeir vildu koma á hestbak. Allir svöruðu neitandi, þar til hann benti á umboðsmann sinn, McDougle. McDougle sagði já.
Charles tók hann því næst á hestbak og áhorfendur héldu niður í sér andanum. Gangan gekk vel og félagarnir voru nær hálfnaðir yfir. Þá tók reipið að sveiflast upp og niður. Maður nokkur sem hafði veðjað hárri upphæð að félagarnir kæmust ekki yfir hafði skorið á kaðal sem hélt göngureipinu stöðugu.
Charles Blondin nam staðar, setti McDougle niður á reipið og sagði við hann. „Ef þú vilt komast alla leið getur þú ekki lengur verið McDougle. Þú verður að verða hluti af mér. Þú getur ekkert gert sálfur til að halda jafnvægi, heldur verður að láta mig um það. Ef þú reynir að halda jafnvæginu upp á eigin spýtur munum við báðir deyja.“ McDougle klifraði aftur upp á bak Charles og þeir komust alla leið yfir á hinn gljúfurbarminn.
Nálgun:
Hvernig treystum við einhverjum fullkomlega?