Texti: Matt. 27:62-28:15
Næsta dag, hvíldardaginn, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus og sögðu: „Herra, við minnumst þess að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp. Bjóð því að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.“ … (http://biblian.is/default.asp?action=pick&book=39&chap=27 og http://biblian.is/default.asp?action=pick&book=39&chap=28)
Starfsgagnalisti
Leyndardómur Kalla
Sagan „Leyndardómur Kalla“ er lítil barnabók eftir Sheila Groves, sem segir söguna af lirfunni Kalla sem hverfur einn daginn en sést síðan sem fiðrildi. Hægt er að nálgast bókina í handbókasafni leiðtoga í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK.
Eggið hans Jonna
Sagan um „Eggið hans Jonna“ er falleg og hjartnæm saga sem nálgast upprisuna með augum barns. Hægt er að nálgast söguna á slóðinni http://kfum.is/efnisveita/2012/06/eggid-hans-jonna/.
Verkefni
Inni á efnisveitunni eru ýmsar páskaföndurshugmyndir fyrir deildarstarfið. Efni og annað sem til þarf er hægt að nálgast í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK.
Framhaldssaga
„Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Júlía er miður sín“ bls. 81-84.
Tenging: Vonin um eilíft líf, hryggðin sem snýst í gleði.
Söngvar
- Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
- Ég er með yður alla daga
- Fræ í frosti sefur
- Fullar hendur af blómum þú hefur
- Hver er í salnum
- Hvílíkt undur, Jesús lifir
- Upprisinn er hann, húrra, húrra
Hugleiðing
Boðskapur
Jesús sigraði dauðann og hið illa! Hann er ekki lengur í gröfinni. Hann er upprisinn! Þess vegna getum við einnig treyst því að hann er nálægur lærisveinum sínum. Hann er hinn upprisni Drottinn okkar og frelsari sem vill eiga samfélag við okkur dag hvern.
Aðkoma
Minna má á hve lærisveinarnir voru hræddir þegar Jesús var tekinn höndum. Þegar hann síðan var krossfestur, fannst þeim sem allt hefði brugðist. Þeir voru hræddir og læstu sig inni af ótta við Gyðingana. Þeir skildu ekki hvers vegna Jesús þurfti að deyja. Líklega óttuðust þeir einnig að þeirra biðu sömu örlög og Jesú þar sem þeir höfðu verið lærisveinar hans.
Meginmál
Óvinir Jesú voru líka hræddir! Þeir mundu að Jesús hafði sagt að hann myndi rísa upp á þriðja degi. Þeir óttuðust því að lærisveinarnir myndu reyna að stela líkama Jesú og settu verði við gröfina sem höggvin var í klett, en þungur steinn var hafður fyrir opi grafarinnar.
Páskafrásagan er síðan endursögð áfram. Einna mikilvægast er að benda á þau miklu umskipti sem urðu við upprisuna. Hryggð breyttist í gleði, efi í vissu og ótti í djörfung.
Jesús hafði sagt lærisveinum sínum að hann myndi rísa upp. En í huga lærisveinanna var það of ótrúlegt til að geta verið satt. Þeir voru vissulega ekki auðtrúa en þeir sannfærðust um að Jesús væri upprisinn þegar þeir sáu hina tómu gröf og fengu að mæta honum upprisnum. Eftir það voru þeir jafnvel reiðubúnir að deyja fyrir trú sína á Krist. (Hefðu þeir gert það ef þeir hefðu stolið líkamanum og vissu að allt væri lygi sem þeir væru að prédika?).
Upprisan staðfesti að Jesús er sá sem hann sagðist vera. Þess vegna getum við líka treyst því að hann er nálægur okkur þegar við biðjum til hans eða komum saman í hans nafni. Við gröfina var konunum og lærisveinunum boðuð gleðitíðindi: „Hann er ekki hér. Hann er upp risinn.“ Okkur berast þessi sömu gleðiboð en með dálítið öðrum hætti, þ.e.: „Hann er hér. Hann er upprisinn!“
Vel færi á því að enda hugleiðinguna á persónulegum vitnisburði um hvers virði Jesús er mér.
Samantekt
Jesús hefur sigrað dauðann og hið illa. Honum ber lofgjörðin og dýrðin. Hann lifir í dag og vill að við lærum að treysta honum. Í orði Guðs og bæninni getum við átt samfélag við hann.
Minnisvers
Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. (Matt. 28:20b)
Bæn
Þökkum fyrir boðskap páskanna. Þökkum fyrir að Jesús lifir og að við megum vera í þjónustu hans.