Einhverju sinni kom mikið flóð í Hvergilandi. Einn íbúi landsins taldi sig mjög trúaðan og góðan mann. Þegar vatnið byrjaði að leka inn á stofugólfið kraup hann niður og bað Guð um að bjarga sér.
Skömmu síðar var bankað og fyrir utan stóðu menn í flotgöllum á stórum jeppa og buðust til að keyra hann á öruggt svæði, enda von á meiri vatnsflaumi. En góði og trúaði maðurinn sagði þeim að bjarga öðrum, hann sjálfur hefði beðið til Guðs og væri þess fullviss að Guð myndi bjarga honum.
Vatnsborðið hækkaði enn og sögupersónan okkar þurfti að flýja upp á aðra hæð, enda var flóðið svo mikið að öll neðri hæðin hans var farin á bólakaf. Þar kraup hann við glugganum á svefnherberginu sínu og bað Guð um björgun þegar björgunarbát lagði að við gluggann. Í bátnum voru nokkrir votir nágrannar og hjálparsveitarmenn sem sögðu honum að hoppa um borð, því enn væri von á meira vatni. En okkar maður hélt nú ekki. Hann væri sanntrúaður og Guð myndi bjarga honum. Og báturinn sigldi burt.
Enn leið og beið, vatnið óx og óx og nú var trúaði maðurinn okkar kominn upp á þak og hélt sér dauðahaldi í skorsteininn, jafnframt því að biðja til Guðs ákafar enn nokkru sinni, enda færðist vatnið nær og nær. Þá birtist þyrla í fjarska sem flaug í átt að húsinu hans og staðnæmdist fyrir ofan hann. Sigmaður seig niður úr þyrlunni og bauð manninum far, enda ljóst að hann myndi drukkna að öðrum kosti. Maðurinn bandaði sigmanninum frá sér og sagði: Ég er trúaður og ég hef beðið Guð að hjálpa mér. Ég veit að hann gerir það. Sigmaðurinn sá að ekki yrði tauti við hann komið, gaf merki og var dreginn einn upp í þyrluna, en trúaði maðurinn okkar beið áfram björgunar Guðs. Eftir fáeinar mínútur drukknaði hann svo.
En sögunni líkut ekki þar. Trúaði maðurinn okkar endaði í himnaríki og um leið og hann hafði gengið inn um Gullna hliðið strunsaði hann á fund Guðs. Þar sem hann mætti Guði öskraði hann: Hvað er að þér Guð, ég bað til þín ítrekað. Ég lagði allt mitt traust á þig og þú lést mig drukkna. Af hverju?
Guð leit á hann rólegur og sagði: Þegar þú baðst í fyrsta skipti, sendi til þín menn á bíl að bjarga þér. Þá sendi ég björgunarbát og loks sendi ég þyrlu. En aldrei heyrðir þú bænasvarið.
Þennan vetur lærum við í KFUM og KFUK um mikilvægi þess að biðja til Guðs og tala við hann um alla hluti, stóra og smáa. Það er sérstök gjöf Guðs til okkar að við megum segja honum allt, leggja allt í hans hendur. Í Filippíbréfinu í Nýja testamentinu stendur að við eigum að gera í öllum hlutum óskir okkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.
En þegar við leggjum allt fram fyrir Guð verðum við samt að muna að Guð gerir ekki alltaf eins og við viljum. Og sú hætta er meira að segja fyrir hendi að svarið sé öðruvísi en við höfðum séð fyrir okkur, líkt og hjá manninum í sögunni sem þið heyrðuð áðan.
Guð svarar ýmist já, nei eða bíddu við. Stundum finnst okkur hann e.t.v. óréttlátur en við megum líka segja honum það.
Aðalatriðið er að við megum alltaf, alls staðar segja Guði allt. Og við getum treyst því að hann hlustar.