Ritningartexti: 1Jh 2.7-11
Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína. Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.
Markmið
Við erum elskuð af Guði. Kærleikur Guðs til okkar byggir á hreinskiptum og opnum samskiptum og heiðarleika. Forsenda þess að geta höndlað kærleika Guðs er að við séum reiðubúin til að viðurkenna að við erum ekki fullkomin og gerum mistök.
Um textann
Þegar við lesum orðin í 1. Jóhannesarbréfi er mikilvægt að muna að bréf Nýja Testamentisins ávarpa alltaf þá sem kalla sig kristna. Bréfin eru ekki skrifuð fyrst og fremst til boðunar heldur til að fræða og styrkja þá „séð og trúað“.
Í orðum Jóhannesar felst þannig ekki dómur til handa þeim sem þekkja ekki Krist, heldur brýning til okkar um að horfast í augu við okkar eigin breyskleika. Til að horfast í augu við þörfina fyrir flokkadrætti, horfast í augu við þörfina fyrir að vita betur, kunna meira, skilja dýpra.
Það er samt einnig mikilvægt að skilja orð Jóhannesar í ljósi þess að þrátt fyrir að við lifum í myrkrinu, verðum syndinni að bráð, „þá eigum við málsvara hjá föðurnum, Jesú Kristi, hinum réttláta.“
Jóhannes kallar okkur til að endurspegla líf okkar í ljósi Krists, ganga í okkur sjálf, lýsa upp allt sem við viljum svo gjarnan fela í skúmaskotum. Það er nefnilega grundvallaratriði að horfast í augu við okkur sjálf, spyrja spurninga um hver við erum, hvað við gerum, áður en við hjólum í náungann.
Aðeins ef við göngumst við því sem við erum. Ef við erum reiðubúin að lifa án feluleiks og óttans við að upp um okkur komist, þá erum við ljóssins megin.Fyrst og fremst ber okkur að elska náunga okkar, elska þá sem við mætum. Fyrirgefning Guðs er til staðar, Guð hefur fyrirgefið syndir okkar vegna Jesú Krists.
Þegar við tölum um Guð er nefnilega grundvallandi að muna að skapari okkar, frelsari og lausnari er stærri en þú, stærri en við, stærri en allt annað sem er.
Þegar við mætum náunga okkar, er mikilvægt að muna að Guð er þar, sama hver náunginn er, sama hvað hann eða hún hefur gert eða sagt, eða mun hugsanlega gera eða segja.
Jóhannes heldur því hvergi fram að hann gangi stöðugt í ljósinu, hann veit sem er að við erum öll breysk. Hann sem var uppáhaldslærisveinninn, alla vega að eigin mati. Hann sem hleypur hraðar en Pétur. Hann sem kom einna fyrstur að gröfinni tómu. Hann sem sat við hlið Jesú Krists við síðustu kvöldmáltíðina. Hann veit sem er að náð Guðs, kærleikur Guðs er það eina sem veitir frelsi. Hann veit að við þurfum að leyfa ljósi Guðs að lýsa inn í dimmustu skúmaskot ef við viljum verða frjáls. En hann veit auðvitað líka sem er, að það er drulluerfitt, líklega ómögulegt.
En þá megum við lifa í trausti til þess að Jesús sé friðþæging fyrir allt sem við höndlum ekki að taka á í eigin lífi. Og ekki aðeins okkar lífi, heldur alls heimsins.
Hugmynd að hugleiðingu
Guð vill okkur vel og elskar okkar, enda erum við sköpun Guðs. Það að Guð vill okkur vel merkir að Guð bendir okkur á það sem miður fer í lífi okkar og vill að við lögum það sem ekki er í lagi. Ábendingar Guðs um gott líf má sjá í því fordæmi sem hann gefur okkur í Jesú. Jesús stóð með þeim sem voru minnimáttar, var óhræddur við að gera það sem var rétt þó það kostaði hann óþægindi. Þess vegna getur verið gott þegar við þurfum að taka ákvarðanir að spyrja sig hvað Jesús myndi gera. Þegar við svörum því, þá er gott að muna að elska Guðs til alls mannkyns, segir okkur að sýna öllum ást og virðingu.
Najac – Að fá tækifæri
Það var bankað upp á hjá ættingjunum í dag. Najac var nýkominn heim úr verksmiðjunni þegar hann heyrði að einhver kom að dyrunum. Hann gekk að dyrunum og opnaði. Fyrir utan var maður sem hann hafði séð áður. Einhver hafði sagt Najac að maðurinn væri kennari í nálægum skóla. Kennarinn leit á Najac kynnti sig og spurði hvort ættingjarnir væru heima. Najac fylgdi honum inn í húsið þar sem ættingjarnir sátu. Kennarinn kynnti sig aftur og sagðist vilja ræða við þau um skóla fyrir Najac.
Ættingjarnir litu á Najac og sögðu honum að fara út meðan þau ræddu við kennarann, Najac langaði til að mótmæla enda voru þau að ræða um hann. En hann vissi að það væri ekki til neins. Najac hafði engin völd á þessum stað. Hann gekk út og settist undir gluggann í von um að heyra samræðurnar inni.
Ættingjarnir byrjuðu á að segja kennaranum að Najac hefði ekki tíma, hann þyrfti að vinna í verksmiðjunni og svo hefði hann skyldur heima við. Skóli væri lúxus fyrir löt og dekruð börn og Najac hefði ekki tíma fyrir svoleiðis. Kennarinn sagði þeim að kannski gæti Najac komið í skólann einu sinni í viku og lært að lesa og skrifa, það gæti komið þeim öllum vel.
Þau voru ekki sannfærð. Hver á að sjá um húsverkin á laugardögum ef Najac er í burtu? Það kostar nú sitt að hafa börn í skóla. Kennarinn sagði þeim að allur kostnaður við skólann væri nú þegar greiddur, Najac myndi fá heitan mat í skólanum og gæti tekið afganga með sér heim fyrir þau.
Ættingjarnir mýktust nokkuð við tilhugsunina um ókeypis mat. En hvað með ef Najac gæti ekkert lært, spurðu þau, væri ekki bara tímasóun að láta hann hanga í skóla ef hann gæti ekkert lært. Kennarinn sagði þeim að hafa ekki áhyggjur af því. Najac myndi örugglega standa sig og ef ekki, þá myndi hann láta þau vita.
Þau samþykktu með semingi að láta reyna á þetta, en sögðu jafnframt að ef eitthvað vesen kæmi upp, myndu þau draga Najac strax úr þessari vitleysu.
Þegar Najac heyrði samþykkið hrópaði hann af gleði.
Popptenging
Sálin hans Jóns míns – Þú fullkomnar mig
Ástarsöngur Sálarinnar hefur verið notaður sem lofgjörðarsálmur til Guðs í guðsþjónustum í kirkjunni. Lýsingin á ástinni og áhrifum hennar er enda ekki ólík þeirri upplifun sem sum lýsa þegar þau upplifa ást og náð Guðs til sín.