Markmið

Að kenna börnunum að koma vel fram hvert við annað og sýna hvert öðru kærleika. Við hjá KFUM og KFUK líðum ekki einelti. Guð hefur skapað okkur hvert og eitt og í hans augum erum við fullkomin eins og við erum. Því eiga allir rétt á að njóta sín og blómstra.

Biblíuvers

„Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað.“ (Jóh. 13:34).

Naglasagan

– Höfundur óþekktur

Þetta er saga af litlum dreng sem var afar geðvondur. Faðir hans gaf honum naglapakka og sagði honum að í hvert sinn sem hann missti stjórn á skapi sínu skyldi hann negla einn nagla í bakhlið grindverksins.

Fyrsta daginn negldi drengurinn 37 nagla í grindverkið. Hann hafði til dæmis slegist við strák úr bekknum, uppnefnt bekkjasystur sína og skilið hana útundan og skrifað niðrandi færslu um kennarann sinn á netið. Næstu vikurnar lærði hann að hafa stjórn á reiði sinni og fjöldi negldra nagla minnkaði dag frá degi. Hann uppgötvaði að það var auðveldara að hafa stjórn á skapi sínu en að negla alla þessa nagla í girðinguna.

Loksins rann upp sá dagur að enginn nagli var negldur og drengurinn hafði lært að hafa stjórn á sér. Hann sagði föður sínum þetta og faðirinn lagði til að nú drægi drengurinn út einn nagla fyrir hvern þann dag sem hann hefði stjórn á skapi sínu. Dagarnir liðu og loks gat drengurinn sagt föður sínum að allir naglarnir væru horfnir.

Faðirinn tók í hönd sonar síns og leiddi hann að grindverkinu ?

Þú hefur staðið þig með prýði, en sjáðu öll götin á grindverkinu. Það verður aldrei aftur eins og það var áður. Þegar þú segir eitthvað í reiði, skilur það eftir sig ör alveg eins og naglarnir. Þú getur stungið mann með hnífi og dregið hnífinn aftur úr sárinu, en það er alveg sama hve oft þú biðst fyrirgefningar, örin eru þarna samt áfram. Ör sem orð skilja eftir sig geta verið jafnslæm og líkamleg ör.

Samantekt og umræður

Mikil umræða hefur átt sér stað upp á síðkastið um einelti, hatursorðræðu á netinu og ljóta framkomu í garð annarra. Þetta er þörf umræða og enginn á skilið að illa sé komið fram við hann. Eins og kom fram í sögunni þá geta orð og framkoma einnig skilið eftir sig ljót ör á sálinni. En Jesús gengur skrefinu lengra. Hann segir ekki bara að við eigum ekki að hata aðra heldur segir hann að við eigum að elska náunga okkar, elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem koma illa fram við okkur. Á rúmlega 20 stöðum í Nýja testamentinu talar Jesús um að við eigum að elska aðra. Kærleikurinn er kjarni alls þess sem Jesús kennir okkur. Hann vill að við komum fram við aðra á sama hátt og við viljum að komið sé fram við okkur. Auðvitað gerum við mistök einhvern tímann. En við eigum að keppast eftir því að gera það sem er gott. Tökum ekki þátt í einelti. Segjum frá ef við vitum um einhvern sem verður fyrir því. Berum ábyrgð á því sem við segjum og gerum. Sigrum illt með góðu. Höfum kærleikann að leiðarljósi, elskum hvert annað eins og Jesús hefur elskað okkur. Þannig gerum við heiminn að betri stað.

Bæn

Bænin má aldrei bresta þig