Í sögunni Við Guð erum vinir, eftir Karie Vinje, biður Júlía mömmu sína um að hjálpa sér að biðja. Hún muni ekki eftir meiru til þess að biðja Guð um. Þegar mamma spyr hvað hún sé búin að biðja um, svarar hún:
-Ég er búin að biðja um vatnsliti, um sturtubíl, kettling og frosk…
-Frosk?
-Já, svona stóran, grænan frosk, sem hoppar þegar maður ýtir á blöðru. Svo er ég búin að biðja Guð um að gæta þín og mín og pabba og að hann láti rigna á morgun, því þá get ég prófað nýju regnkápuna mína! Hvað finnst þér, að ég eigi að biðja um meir?
Mamma settist á stól.
-Ég held að ég segi þér svolítið ævintýri fyrst, sagði hún. Ég ætla að segja þér ævintýrið um óskirnar tíu. Svo getum við tala um bænirnar þínar.
Og svo sagði mamma ævintýrið um óskirnar tíu.
-Einu sinni var stelpa sem fann voða skrítið, lítið prik í grasinu.
-Töfrasproti! Hrópaði stelpan og sveiflaði stafnum. Og allt í einu stóð fallegur álfur beint fyrir framan hana.
-Þú hefur fundið töfrasprotann minn, sagði álfurinn. –Nú máttu óska þér tíu sinnum.
-Þá óska ég þess, að ég vinni alltaf þegar ég spila lúdó við hann bróður minn, sagði stelpan ánægð. –Og svo óska ég þess að ég hafi þjón sem tekur alltaf til í herberginu mínu, svo ég losni við að gera það sjálf!
Álfurinn kinkaði kolli.
-Þú átt eftir átta óskir.
-Ég óska, að ég ætti stóran poka fullan af sælgæti, hrópaði stelpan, súkkulaði, karamellum, brjóstsykri, lakkríslengjum og öllum tegundum af tyggigúmmíi. –Ég óska þess að enginn geti vitað af þessum poka, svo ég þurfi ekki að gefa neinum með mér.
Og svo óska ég þess að ég geti borað allt sælgætið án þess að fá holur í tennurnar og án þess að mér verði illt í maganum.
-Nú áttu eftir fimm óskir, sagði álfurinn.
-Ég óska mér – ég óska mér, að eiga fulla kistu af gullpeningum, nýjan og fínan kjól og fullt af ofsa fínum fötum…og…
-Hættu! Hrópaði álfurinn. –Nú áttu bara eftir tvær óskir. Hugsaðu þig nú vel um! Stelpan settist í grasið og hugsaði sig um bæði vel og lengi. Svo óskaði hún sér þess að hún væri fallegust í öllum heiminum.
-Áður en þú notar síðustu óskina þína, ætla ég að segja þér nokkuð, sagði álfurinn. Veistu að það er til fullt af fólki sem fær nærri því ekkert að borða? Veistu, að fjöldi fólks verður að ganga berfætt út í snjónum, af því að það á ekki sokka og skó? Veistu að margir hafa misst heimili sín í stríðinu og að mörg börn eiga ekki foreldra sína lengur? Margir sitja í fangelsi, án þess að hafa brotið nokkuð af sér, og margir eru veikir og líður illa? Óskar þú ekki neins handa öllum þessum? Viltu ekki að þeir sem eru hungraðir fái mat og að þeir sem skjálfa úr kulda fái föt?
-Þú hefðir átt að spyrja að þessu fyrr sagði stelpan. Nú á ég bara eftir eina ósk og hana ætla ég að nota til annars.
-Ég óska þess að ég verði hamingjusöm alla ævi!
Álfurinn draup höfði og sagði:
-Þessa ósk get ég ekki uppfyllt. Sá sem bara hugsar um sjálfan sig getur aldrei orðið hamingjusamur. Vertu sæl.
Svo hvarf álfurinn og kom aldrei aftur. („Við Guð erum vinir“ bls. 12-15)
Hvernig fannst ykkur stelpan nota óskirnar sínar? Júlíu fannst hún hafa notað þær vitlaust. Henni fannst að hún hefði getað óskað sér einhvers handa fátækum en ekki bara handa sjálfri sér. Mamma benti Júlíu á að bænirnar hennar líktust óskum stelpunnar: „Þú baðst um að fá vatnsliti handa sjálfri þér, sturtubíl, kettling, frosk sem gæti hoppað, rigningu svo þú gætir farið í nýju regnkápuna þína, allt var þetta handa þér,“ sagði hún við Júlíu. Júlía varð að viðurkenna að þetta var allt rétt. Hún ætlaði að biðja aftur og muna eftir þeim sem minna mega sín.
Eitt mikilvægt loforð gefur Jesús þeim sem biðja – að hann muni svara bænum þeirra. Guð svarar alltaf bænum okkar, en hann gerir það á sinn hátt. Það má líkja svörum hans við umferðaljós. Stundum veitir Guð okkur það sem við biðjum um (grænt ljós), stundum þurfum við að bíða eftir því sem við biðjum um (gult ljós) og stundum fáum við ekki það svar sem við vorum að bíða eftir (rautt ljós). En við getum treyst því að Guð veit hvað er okkur fyrir bestu, jafnvel betur en við sjálf og svarar bænum okkar eftir því.
Bókin Við Guð erum vinir er fáanleg hjá bókaútgáfunni Salt ehf Háaleitisbraut 58-60.