Post 3.1-10

Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna. Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins sem nefndar eru Fögrudyr til að beiðast ölmusu af þeim er inn gengu í helgidóminn. Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn baðst hann ölmusu. Þeir horfðu fast á hann og Pétur sagði: „Lít þú á okkur.“ Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim. Pétur sagði: „Silfur og gull á ég ekki en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!“ Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir, hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð. Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð. Menn könnuðust við að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því sem fram við hann hafði komið.

Hugleiðing

Lærisveinar Jesú fóru eftir Hvítasunnudag og sögðu fólki frá Jesú, en sagan í dag segir okkur að lærisveinarnir sögðu ekki bara frá, þeir tóku sér Jesú til fyrirmyndar og hjálpuðu öðrum, læknuðu þá sem þurftu lækningu og létu sig aðra varða. Í frásögunni minnir Pétur lærisveinn okkur á að þó við eigum ekki mikla peninga (silfur og gull), þá getum við samt hjálpað öðrum. Með því að standa með þeim sem eiga erfitt og styðja við þá sem þurfa hjálp. Hvernig getum við staðið með og hjálpað öðrum?

Bæn

Góði Guð, hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum. AMEN.

Verkefni – Hvernig get ég glatt þig?

Þátttakendur heyra um einstakling sem á við erfiðleika að stríða. Viðkomandi getur verið veikur heima, einmana, hræddur, sorgmæddur eða e.t.v. glímt við fötlun. Öll ungmennin fá miða og skrifa á miðana sína eitthvað sem þau geta gert til að gleðja viðkomandi einstakling. Þátttakendur taka síðan miðana, segja upphátt það sem þau skrifuðu og hengja miðann á vegg/töflu.