Matt 28.1-10, 18-20

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór.

Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar:

Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Allt í einu kemur Jesús á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. Þá segir Jesús við þær:

Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum og systrum að halda til Galíleu. Þar munu þau sjá mig.

… En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði:

Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Hugleiðing

Þegar María og María komu að gröf Jesú voru þær mjög sorgmæddar og leiðar. Jesú sem þær höfðu fylgt í mörg ár, hafði verið tekinn af lífi. En þegar þær koma að gröfinni þá upplifa þær eitthvað mjög merkilegt. Gröfin, sem Jesú hafði verið lagður í, var tóm. Þær mættu engli sem sagði þeim:

Hann er ekki hér, hann er upprisinn.

María og María skyldu örugglega ekki alveg hvað var að gerast. Þær voru bæði í senn spenntar, óttaslegnar og glaðar. Þetta var frábært, en um leið skrítið. Þær hlupu af stað til að segja lærisveinunum, en allt í einu sjá þær Jesú sem segir við þær:

Óttist ekki, farið og segið frá…

Og enn í dag, heyrum við að dauðinn hefur ekki síðasta orðið. Það er alltaf von og það er alltaf nýr dagur. Það er alltaf möguleiki á upprisu og breytingu til hins betra.

Bæn

Guð, takk fyrir upprisu Jesú, takk fyrir að við megum vona og við megum treysta að það sé alltaf hægt að byrja upp á nýtt. AMEN.