Matt 27.1-2; 11-15; 20; 35-38
Að morgni gerðu allir æðstu prestarnir og öldungarnir samþykkt gegn Jesú að hann skyldi af lífi tekinn. Þeir létu binda hann og færa brott og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja. …
Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“
Jesús svaraði: „Það eru þín orð.“ Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir en hann svaraði engu.
Þá spurði Pílatus hann: „Heyrir þú ekki hve mjög þeir vitna gegn þér?“ En Jesús svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög.
Á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa fólkinu lausan einn bandingja, þann er það vildi. … En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas en að Jesús yrði deyddur. …
Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér, sátu þar svo og gættu hans. Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA. Þá voru krossfestir með honum tveir ræningjar, annar til hægri, hinn til vinstri.
Hugleiðing
Jesús var tilbúinn til að deyja fyrir syndir mannkyns og en biblíutextinn minnir okkur á að dauði Jesú var samt sem áður ósanngjarn og óréttlátur.
Æðsta ráðið var hópur trúarleiðtoga sem höfðu ekki rétt til að taka fólk af lífi. Aðeins rómversk yfirvöld höfðu þann rétt. Pílatus yfirmaður rómverska ríkisins í Jerúsalem ákvað að fara eftir óskum fólksins og trúarleiðtoganna, enda hugsaði hann sjálfsagt að það væri auðveldara að gera eins og trúarleiðtogarnir og fólkið vildi, heldur en að berjast gegn því að saklaus maður væri tekinn af lífi.
Hann hefur sjálfsagt talið að ef hann léti krossfesta þennan Jesús þá væri einu vandamálinu minna að fást við, og hann ynni sér inn greiða hjá trúarleiðtogunum og fólkinu. Það varð þó alls ekki svo.
Sagan endar samt ekki hér, því frásagan af Jesú kennir okkur að dauðinn er ekki endir alls, eins og Pílatus og æðsta ráðið héldu. Framhaldið er á páskadag.
Bæn
Jesús, þakka þér að þú varst tilbúin til að ganga í dauðann til að kenna okkur um óréttlæti, fyrirgefningu og til að sína okkur að það er alltaf von og nýtt upphaf. AMEN.