Lúk 12.41-52

Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“

Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.

Hugleiðing

Það er bara ein frásögn í Biblíunni um æsku Jesú. Það er sagan sem við lásum hérna á undan. Stundum er eins og við gleymum að Jesús var barn alveg eins og við öll. Hann lék sér með vinum sínum, gekk líklega í skóla og hjálpaði Jósef fósturpabba sínum á smíðaverkstæðinu.

Jesús fór tólf ára gamall með foreldrum sínum til Jerúsalem til að taka þátt í páskahátíð gyðinga sem stóð í nokkra daga. Þegar hátíðinni lauk héldu þau heim á leið, en á leiðinni uppgötvuðu þau að Jesús var ekki lengur með þeim. Þau leituðu alstaðar og héldu loks til Jerúsalem. Hvar hefðuð þið leitað fyrst að tólf ára strák?

Eftir langan tíma fundu þau hann loks í musterinu, þar sem hann sat og ræddi við kennarana um sögur Gamla testamentisins. Jesús vildi læra og skilja hvert hlutverk hans var í lífinu og vildi læra og fræðast um hvernig fólk talaði um Guð. Jesús var ekki að óhlýðnast foreldrum sínum, heldur taldi hann sig vera að gera það sem var mikilvægt og rétt. Ég er ekki viss um að María mamma hans hafi verið sammála honum þegar hún var að leita að honum, en seinna skyldi hún betur hver Jesús var.

Bæn

Drottinn Guð, hjálpaðu okkur að læra um þig og hver vilji þinn er með okkar líf. AMEN.