Post 2.1-13
Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.
Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu:
Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.
Allir voru furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan:
Hvað getur þetta verið?
En aðrir höfðu að spotti og sögðu:
Fólkið er drukkið af sætu víni.
Hugleiðing
Hvítasunnudagur er haldin hátíðlegur 50 dögum eftir páska og er oft nefndur afmælisdagur kristinnar kirkju. Þá fóru lærisveinar Jesús út á götur Jerúsalemborgar og byrjuðu að segja öllum sem heyra vildu frá Jesú, lífi hans, dauða og upprisu.
Fólk heyrði lærisveinanna tala á sínu tungumáli. Það voru örugglega mikil læti og hamagangur, sem í sögunni er lýst eins og eldi af himnum ofan sem settist á höfuð lærisveinanna sem fóru um og sögðu frá því hver Jesús var.
Þessi atburður fyrir 2000 árum markaði upphaf nýrrar hreyfingar, kristin kirkja varð til. Frá þessum tíma hafa lærisveinar Jesú ferðast og sagt frá lífi, dauða og upprisu Jesú á fjölmörgum tungumálum um allan heim. Það sem við heyrðum lesið að gerðist á götum Jerúsalem var upphafið að hreyfingu sem við tilheyrum. Við sem viljum kalla okkur kristinn.
Bæn
Kærleiksríki Guð, þakka þér góðar gjafir og þakka þér fyrir að gefa okkur kirkjuna þína. Hjálpaðu okkur að hlusta á orðið þitt og segja öðrum frá. AMEN.