Samantekt: Séra Jón Ómar Gunnarsson.

Markmið

Að börnin læri að Biblían er mikilvæg fyrir trúað fólk og vísar okkur veginn til Jesú.

Umfjöllun um Biblíuna

Biblían er Orð Guðs, hún segir okkur frá Guði og verkum hans, hún vísar okkur á Jesú Kristi og kristið fólk trúir því að Guð sé að tala til okkar í gegnum bækur hinna mörgu ólíkra höfunda biblíunnar. Biblían er merkilegasta bók mannkynssögunnar og geymir mikilvægustu sögu heimsins, söguna um samband Guðs við manninn. Það eru ekki margir sem vita það að Biblían er metsölubók, hún hefur verið seld í svo mörgum eintökum að það er varla hægt að koma tölu á það, en það eru seldar um 100 milljónir Biblía á hverju ári. Biblían er alþjóðleg bók og hefur hún öll eða hlutar hennar verið þýdd á meira en 2000 tungumál og enn í dag er verið að þýða Biblíuna á fjölda ólíkra tungumála (það eru 6500 þekkt tungumál í heiminum).

Orðið biblía kemur úr grísku og merkir bækur, enda er Biblían miklu meira bókasafn eða safn rita heldur en ein bók. Biblían skiptist í 2 hluta, Gamla testamentið og Nýja testamentið, og eru titlarnir lýsandi þar sem að hið gamla er eldra en hið nýja. Engu að síður eru báðir hlutar biblíunnar ævafornar og yngsta ritið hennar og jafnframt síðasta bók biblíunnar, Opinberunarbók Jóhannesar, sem er um 1900 ára gamalt rit, sennilega frá því um 100 e. kr.. Það eru 66 bækur í Biblíunni, 39 í Gamla testamentinu og 27 í Nýja testamentinu. Í mörgum Biblíum eru líka 11 aukabækur, kallaðar Apókrýfubækur, þær eru mikilvægar, en hafa ekki sömu stöðu og bækurnar 66 í Gamla og Nýja testamentinu.

Biblían er því ótrúlega fjölbreytt safn ólíkra rita sem urðu til á ólíkum tímabilum mannkynssögurnar og hafa haft ótrúleg áhrif á menningu okkar. Bækur biblíunnar eru ólíkar sumar segja frá sögulegum atburðum og frásögur, aðrar eru eiginlega reglubækur, síðan eru ljóðabækur, lífsspekirit og spádómsrit. Biblían er því óþrjótandi uppspretta innblásturs og visku. Þó ritin séu mörg, ólík og fjölbreytt þá eiga þau það sameiginlegt að benda á Guð og vilja hans fyrir lífið og fólkið sem hann hefur skapað. Það er nefnilega markmið allrar Biblíunnar að vísa okkur á Jesú Krist jafnvel þó að Jesús hafi ekki verið fæddur fyrr en löngu eftir ritunartíma bóka Gamla testamentisins var lokið. Textar Gamla testamentisins og Nýja testamentisins hafa það að markmiði að færa okkur nær Jesú Kristi. Biblían er þá eins og ljós á vegi okkar í lífinu, í Davíðssálmi 119 segir: „Þitt orð er lampi fóta minna, ljós á vegi mínum.“ Biblían, orð Guðs, vísar okkur veginn til frelsarans Jesú og flytur okkur góðu fréttirnar um hann: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf  einkason sinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.” Jóh 3.16

Efni á efnisveitu KFUM og KFUK