Jóh 20.24-29

En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“

En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“

Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“

Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“

Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“

Hugleiðing

Lærisveinarnir höfðu allir hitt Jesú upprisinn, en þeir voru samt ennþá hræddir, búnir að fela sig á bakvið læstar dyr. Þeir sögðu samt Tómasi frá, en Tómas trúði þeim ekki, skiljanlega. Ef við hefðum heyrt bestu fréttir í heimi að Jesús væri upprisinn og dauðinn væri ekki endir alls, myndum við ekki hlaupa um og segja frá?

Tómas sá örugglega misræmið milli þess sem lærisveinarnir voru að segja, Jesús er upprisinn og þeirrar staðreyndar að þeir voru í felum og þorðu ekki að vera úti á meðal fólksins. Það er auðvelt að skilja að Tómas átti erfitt með að trúa þeim.

Viku seinna kemur Jesús aftur. Jesús sér að fátt hefur breyst hjá lærisveinunum þrátt fyrir að þeir viti að hann sé upprisinn. Tómas sér sárin og heyrir rödd Jesú og Tómas trúir.

Trúin hans Tómasar var ekki lengi í felum á bakvið læstar dyr. Tómas lagði í ferð til að segja frá Jesú og upprisunni. Það eru til sögur frá Indlandi, sem segja frá trúboði Tómasar. Enn í dag eru kirkjur í suðurhluta Indlands og á Sri Lanka sem voru stofnaðar eftir að Tómas á að hafa verið þar. Fjarlæg lönd eins og Kína og Kúrdistan hafa eða höfðu kirkjur sem byggðu á starfi Tómasar.

Viðbrögð Tómasar eftir að hafa séð Jesú upprisinn fyrir 2000 árum síðan var að fara af stað og segja öðrum frá, segja orðin sem Jesús sagði honum. „Friður sé með þér, Kristur er upprisinn.“ Enn í dag eru fjarlægir staðir þar sem þessi orð eru sögð vegna þess að Tómas ferðaðist um og sagði frá.

Bæn

Guð, hjálpaðu okkur að segja öðrum frá því sem er mikilvægt í okkar lífi. Guð vertu með okkur, þegar við erum óttasleginn og gefðu okkur frið. AMEN