Lúk 17.11-19
Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“
Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“
Hugleiðing
Jesús horfði á líkþráu mennina og vissi að líf þeirra hafði verið erfitt og sársaukafullt. Jesús fann til með þeim. Sjúkdómurinn lýsti sér í því að húðin og útlimir rotnuðu, lyktin af sjúklingum var vond og þeir voru taldir óhreinir. Líkþráum var bannað að vera í samskiptum við aðra, þeir máttu ekki búa heima hjá sér, en þurftu að dveljast utan við borgir og bæi og treysta að einhver kæmi til þeirra mat og vistum.
Aðeins prestar samfélagsins gátu tekið ákvörðun um að líkþrátt fólk hefði fengið lækningu og gæti snúið aftur heim. Eftir að Jesús læknar þá og sendir af stað til prestanna, uppgötvuðu þeir líklega smátt og smátt að sjúkdómurinn var að ganga til baka, þeir voru að læknast. Nú gætu þeir komist aftur heim og hitt fjölskyldur sínar. Þeir voru örugglega allir mjög spenntir. Þegar þeir fengu staðfestinguna á lækningunni flýttu þeir sér allir heim eins fast og fætur toguðu. Nema einn, hann var Samverji. Sá gaf sér tíma til að finna Jesú og þakka fyrir sig.
Sagan minnir okkur á mikilvægi þess að muna að þakka fyrir sig, enda gerir Jesús sér upp undrun og spyr: „Hvar eru hinir níu?“
Biblíusagan í dag, hvetur okkur til að taka líkþráa samverjann okkur til fyrirmyndar og muna eftir að þakka fyrir allar góðar gjafir.
Bæn (Hér fer vel á að hafa poppkornsþakkabænastund)
Guð þakka þér allt. AMEN
Spurning
Hægt er að virkja börn og unglinga til að hugsa um söguna á ferskan hátt með spurningunni: Hver ert þú í sögunni og af hverju?