Matt 18.21-33
Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“
Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.
Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur. Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.
Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér?
Hugleiðing
Í Biblíunni er mikið talað um fyrirgefningu og mikilvægi þess að Guð er alltaf tilbúin til í að fyrirgefa okkur og gefa okkur annað tækifæri, annan séns. Sagan um skulduga þjóninn er um mann sem hafði klúðrað gífurlega miklu og skuldaði konunginum fullt af peningum. Afleiðing þess á tíma Jesú, hefði verið þrældómur fyrir hann og fjölskyldu hans. En konungurinn ákvað þess í stað að fyrirgefa manninum allir skuldirnar og gefa honum tækifæri til að byrja upp á nýtt.
Maðurinn gekk glaður frá konunginum, og mætti fyrir utan öðrum manni sem skuldaði manninum sem hafði fengið fyrirgefningu konungs. Í stað þess að læra af hegðun konungsins, þá ákvað sá sem hafði verið fyrirgefið, að fyrirgefa ekki öðrum, sem gerði konunginn mjög leiðan og reiðan.
Jesús segir okkur þessa sögu til að minna okkur á tvennt. Fyrst og fremst það að Guð er alltaf til í að fyrirgefa allt klúður sem okkur verður á. Guð gefur okkur alltaf ný tækifæri til að byrja upp á nýtt og gera það sem er rétt. Eins segir sagan okkur að Guð vill að við séum tilbúin til að fyrirgefa öðrum.
Spurning
Hægt er að virkja börn og unglinga til að hugsa um söguna á ferskan hátt með spurningum eins og:
- Hver ert þú í sögunni og af hverju?
- Er eitthvað sem ekki er hægt að fyrirgefa?
Bæn
Guð hjálpa okkur að fyrirgefa öðrum og gefa ný tækifæri. Eins og þú ert tilbúin til að fyrirgefa okkur. AMEN