Við eigum ekki að dæma aðra enda höfum við öll gert mistök sjálf á lífsleiðinni. Guð er ávallt tilbúinn að fyrirgefa okkur syndir okkar en hvetur okkur jafnframt til þess að syndga ekki framar.

Jóh. 8:2-11

… [Jesús kom] í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.

Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum.

Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“

En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“

Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“

Hugleiðing

Þeir sem komu með konuna til Jesú, voru þeir sem þekktu trúarlegar reglur best af öllum í Ísrael og markmiðið með spurningunni „hvað eigum við að gera?“, var að veiða Jesú í gildru. Hvernig myndi Jesú svara. Þessi Jesú sem hafði kennt að fyrirgefa öllum, elska alla og koma vel fram við aðra. Ef hann myndi tala um fyrirgefningu væri hann að brjóta lögmál gyðinga, en ef hann myndi segja þeim að grýta konuna, væri hann að ganga gegn því að elska alla. Jesú var í prófi. Ætlaði Jesús að predika dóm eða kærleika þarna? Laun syndarinnar eða náð Guðs?

Jesús svaraði þeim ekki heldur skrifaði í jörðina, en prófið hélt áfram, það var örugglega mikil spenna í loftinu – konan beið eftir dómi, og fólkið var spennt yfir orðum Jesú.

Þegar Jesús svaraði loksins, sagði hann einfaldlega: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Með því minnti hann öll þau sem heyrðu orðin að ekkert þeirra var fullkomið, okkur verður öllum á. Jesús beygði sig síðan aftur niður til að skrifa á jörðina og gaf þeim tækifæri til að fara í burtu án þess að hann dæmdi þau, sem þau gerðu öll.

Þegar bara Jesús og konan voru eftir – spurði Jesú konuna: „Sakfelldi þig enginn?“ og sagði svo: „Ég sakfelli þig ekki heldur“. Jesús kom nefnilega ekki í heiminn til að dæma okkur, heldur til að fyrirgefa okkur mistök okkar, sem við stundum köllum synd. Jesú bætti síðan við „Far þú. Syndga ekki framar.“

Jesús veit að við misstígum okkur öll. Jesús er tilbúinn að fyrirgefa okkur og dæmir okkur ekki fyrir mistök okkar. En Jesús hvetur okkur jafnframt til þess að vinna stöðugt að því að lifa betra lífi.

Bæn

Jesús, fyrirgefðu okkur þegar við gerum rangt. Hjálpaðu okkur að gera rétt. AMEN.