Markús 14.66-72
[Jesús hafði verið handtekinn og Pétur lærisveinn hafði ákveðið að fylgja honum eftir í góðri fjarlægð og sjá hvað myndi gerast næst.] Pétur var niðri í garðinum [fyrir utan þar sem Jesús var í haldi]. Þar kom ein af þernum æðsta prestsins og sá hvar Pétur var að orna sér. Hún horfir á hann og segir: „Þú varst líka með manninum frá Nasaret, þessum Jesú.“
Því neitaði Pétur og sagði: „Ekki veit ég né skil hvað þú ert að fara.“ Og hann gekk út í forgarðinn en þá gól haninn.
Þar sá þernan hann og fór enn að segja við þá sem hjá stóðu: „Þessi er einn af þeim.“ En hann neitaði sem áður. Litlu síðar sögðu þeir er hjá stóðu enn við Pétur: „Víst ertu einn af þeim enda ertu Galíleumaður.“
En Pétur sór og sárt við lagði: „Ég þekki ekki þennan mann sem þið talið um.“
Um leið gól haninn annað sinn og Pétur minntist þess er Jesús hafði mælt við hann: „Áður en hani galar tvisvar muntu afneita mér þrisvar.“ Þá fór hann að gráta.
Hugleiðing
Pétur vildi vera vinur Jesú, en hann þorði ekki að viðurkenna það þegar hann var spurður. Hann var örugglega hræddur um að hann yrði tekinn höndum líka. Svo í stað þess að standa með vini sínum þá sveik hann Jesú, með því að þykjast ekki þekkja hann. En sagan endar ekki á því. Þegar Pétur uppgötvar hvað hann hafði gert, að honum hefði orðið á mistök, þá fór hann að gráta. Pétur hefði á þessum tíma getað gefist upp og bara látið sig hverfa, en hann gerði það ekki, hann sá eftir mistökum sínum (það er stundum sagt iðraðist mistaka sinna) og hitti Jesú eftir að Jesú reis upp frá dauðum. Jesú sá iðrun Péturs og kallaði hann til að verða einn fyrsti leiðtoginn í kristnu kirkjunni. Jesús hjálpaði Pétri að segja skilið við mistökin og byrja upp á nýtt. Jesús býður okkur alltaf að byrja upp á nýtt og hættir aldrei að elska okkur. Meira að segja þegar við þykjumst ekki þekkja Jesú og afneitum Guði, þá gefst Guð aldrei upp á okkur og Guð afneitar okkur aldrei. Elska Guðs er stærri en svo.
Samtal um mistök
- Fá börnin til að ræða um mistök sem þau hafa gert.
- Fá börnin til að ræða um mikilvægi fyrirgefningarinnar.
- Fá börnin til að hugsa hvort til séu mistök/gerðir sem er ekki hægt að fyrirgefa.
- Stundum getum við e.t.v. ekki fyrirgefið, en við megum þá leggja það í Guðs hendur.
Bæn
Guð. Takk fyrir ný tækifæri. Takk fyrir elsku þína sem er án enda. Hjálpaðu okkur að gangast við mistökum okkar og takk fyrir fyrirgefningu þína sem við megum alltaf treysta á. AMEN.