Lúk 10.38-42
Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“
En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“
Hugleiðing
Jesús talar oft við lærisveina sína um mikilvægi þess að þjóna hvert öðru. Hann segir að við eigum að hjálpa og aðstoða aðra. Jesús meira að segja tekur sig einu sinni til og þvær fæturna á lærisveinum sínum, sem er bæði ógeðslegt og frábær líking um hvað við eigum að ganga langt í að hjálpa og vera almennileg.
En í sögunni í dag, þá eru skilaboð Jesús öðruvísi. Hann áminnir Mörtu og bendir henni á að stundum er mikilvægt að staldra við og hlusta og njóta. Marta var örugglega vön því að vera alltaf að, alltaf að hjálpa, alltaf að elda, alltaf að þrífa, alltaf að hugga aðra, en hún gleymdi því að leyfa öðrum að hjálpa sér. Það að þjóna og hjálpa þarf nefnilega alltaf að virka í tvær áttir. Það má aldrei vera þannig að einhver eigi að hjálpa alltaf og aðrir alltaf að njóta. Þá er ójafnvægi og á endanum líður öllum illa.
Þess vegna sagði Jesú Mörtu að setjast niður og njóta, til að Marta gæti lært að njóta og þiggja en vera ekki alltaf sú sem væri að gefa.
Spurning
Hægt er að virkja börn og unglinga til að hugsa um söguna á ferskan hátt með spurningum eins og:
- Hver ert þú í sögunni og af hverju?
- Hvað felst í góðu hlutskipti?
- Þekkir þú einhvern sem gefur meira en hann/hún fær til baka?
- Þekkir þú einhvern sem fær meira frá öðrum en hann/hún gefur af sér?
Bæn
Guð, hjálpaðu okkur að finna jafnvægi milli þess að þiggja og gefa. AMEN