Jóh 6.1-13
Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. …
Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera.
Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.“ Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“
Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“ Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af gengu hjá þeim er neytt höfðu.
Hugleiðing
Árið 2010 varð alvarlegur jarðskjálfti á Haiti. Margir tugir þúsunda dóu og hús hundruð þúsunda eyðilögðust. Íbúar í borginni Jacmel á Haiti, flúðu úr húsunum sínum, kvöldið sem jarðskjálftinn varð og söfnuðust saman á lítilli flugbraut ofan við borgina. Fólkið svaf á grasinu við flugbrautina, notuðu töskur og peysur fyrir kodda, reglulega komu litlir eftirskjálftar sem vöktu fólkið upp og sumir ákváðu að vaka alla nóttina og syngja saman sálma.
Morguninn eftir þurfti fólkið sem hafði safnast þarna saman að glíma við spurninguna, hvað myndi gerast næst. Hús flestra höfðu hrunið eða skemmst. Það var hvergi rafmagn, allar verslanir lokaðar. Fólkið spurði hvort annað. Hvaðan kemur næsta máltíð, verður næsta máltíð?
Í miðjum hópnum var gömul kona sem tók upp úr töskunni sinni einn banana, byrjaði að skera hann í bita og gefa fólkinu í kringum sig. Fólkið í kring tók hana sér til fyrirmyndar og týndi það litla sem það hafði náð að bjarga og gaf með þeim sem næst þeim stóðu. Gamla konan var tilbúin að gefa með sér af því litla sem hún átti og vilji hennar til að gefa með sér reyndist smitandi.
Kannski er sagan um piltinn sem kom með fimm byggbrauð og tvo fiska fram fyrir Jesús, lýsing á svona viðburði. Kraftaverkið í sögunni um Jesú fólst e.t.v. í því að fá aðra til að gefa með sér. Við getum séð fyrir okkur fólkið í kringum Jesú, seilast inn undir skikkjuna sína og taka fram brauð eða tvö, brjóta þau og deila til þeirra sem næst standa. Á sama hátt og fólkið við flugbrautina naut góðs af fordæmi konunnar sem tók fram bananann.
Stærsta kraftaverkið í heiminum er e.t.v. ekki að geta brotið brauð endalaust, heldur að fá aðra til að gefa með sér.
Bæn
Góði Guð, kenndu okkur að gefa af okkur sjálfum. Gefa öðrum af því sem við höfum. AMEN.