Jóh 10.11-18

[Því sagði Jesús:] Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. Faðirinn elskar mig af því að ég legg líf mitt í sölurnar til þess að ég fái það aftur. Enginn tekur það frá mér, ég legg það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þetta hefur faðir minn boðið mér.“

Hugleiðing

Hér má byrja með að spyrja börnin hvort þau hafi komið í réttir. Smalamennska á Íslandi byggir á því að smalar og hundar reka kindur á undan sér. Í tíð Jesú var þessu öðruvísi farið. Hlutverk hirðisins var að ganga á undan fénu og kindurnar eltu hirðinn, því þær vissu sem var að hann myndi vernda þær fyrir utanaðkomandi hættum og leiða þær að góðum grasbala. Hirðirinn bjó með hjörðinni og var hjá þeim öllum stundum.

Þegar Jesú talar um sjálfan sig sem góðan hirði, þá er Jesú að tala um hirði síns tíma, hirði sem þekkir allar kindurnar í hjörð sinni. Hirði sem leitast við að vernda hjörðina. Hirði sem leiðir hjörðina að góðum grasbala þar sem hjörðin er örugg. Hirði sem yfirgefur ekki hjörðina þegar erfiðleikar og hættur steðja að.

Hvernig getum við skilið að Jesú sé hirðirinn okkar? Jesú er ekki að fara að reka okkur áfram, hann er ekki smali, heldur hirðir.

Jesú vill vera með okkur. Jesú vill að við þekkjum orðin hans og fylgjum þeim. Jesús er tilbúin til að vera með okkur og hlusta á okkur þegar eitthvað kemur upp á.

Bæn

Góði Guð. Takk fyrir að vilja vera hirðirinn okkar og leiða okkur í lífinu. AMEN.